Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins

Miðvikudaginn 23. apríl 1997, kl. 18:02:19 (5697)

1997-04-23 18:02:19# 121. lþ. 111.18 fundur 407. mál: #A Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins# frv., Frsm. meiri hluta EOK
[prenta uppsett í dálka] 111. fundur

[18:02]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Einar Oddur Kristjánsson):

Herra forseti. Það er nú að líða að lokum þess að búið sé að fylgja úr hlaði þessu þríeyki hæstv. viðskrh. og þessa þríleiks sem hefur fylgt þeim málum og er rétt að fara nokkrum orðum um þessa umræðu.

Hér kvaddi sér hljóðs áðan hv. þm. Árni Mathiesen og lýsti því yfir að honum væri algjörlega um megn að styðja þá brtt. meiri hluta efh.- og viðskn. að stofnað skuli til sérstaks áhættufjármagns til styrktar fyrst og fremst atvinnulífi á landsbyggðinni ef þess væri einhver kostur.

Það veldur náttúrlega að sjálfsögðu vonbrigðum, herra forseti, þegar góðir og gegnir félagar bregðast svo við. Ég og fleiri erum náttúrlega orðnir því alvanir að allt sem er til styrktar eða tilraunir til þess að styrkja og styðja landsbyggðina mæta gríðarlegri andstöðu víða. Það verður bara að segja það eins og er, gríðarlegri andstöðu og mér hefur komið mjög á óvart eftir að ég tók sæti hér á þingi hvað sú andstaða er megn og mikil. Það vantar ekki að menn séu tilbúnir til þess á hátíðisdögum að tala heilmikið um byggðastefnu. Nú er nýlokið einhverri stórhátíð á Akureyri, eða kannski stendur hún enn þá, og ég rak augun í dagskrána. Ég held að hún sé búin að standa í a.m.k. einn eða tvo daga ef ekki lengur. Ég sá af tilviljun dagskrána og tók eftir því að þar var mikið úrval manna að halda ræður. Ég tók líka eftir því að þeir áttu flestir eitt sameiginlegt. Þeir áttu ekki heima á landsbyggðinni. Datt mér þá í hug að það væri kannski líkt með þessa ráðstefnu eins og segir í gamalli bók íslenskri, en þar má lesa þessi orð: ,,Þeir sögðu mest af Ólafi konungi sem hvorki höfðu heyrt hann né séð.`` (SvG: Um hvaða Ólaf ertu að tala?) Ólaf helga, hinn eilífa konung Noregs.

Því er ástæða til þess að spyrja sig hvers vegna það er sem slíkur fjandskapur er gegn öllum nýjum tilraunum til þess að efla og styrkja byggð á landinu. Ég ímynda mér helst að það sé vegna þess að þær aðferðir sem hingað til hafa verið notaðar hafa ekki reynst nógu vel og kann að vera að það séu dæmi þess að þær hafi hreinlega verið misnotaðar. Og ef svo er, þá er rétt að forðast slíkt. Eitt af því sem er aðalhvatinn að þeirri hugmynd sem kemur fram hjá meiri hluta efh.- og viðskn. er að leita nýrra leiða, fara ekki hefðbundnar leiðir heldur leita nýrra leiða, gá hvort nýjar aðferðir geta dugað okkur betur en þær sem við höfum notað áður. Og það kemur mér sannarlega á óvart vegna þess að alls staðar í Evrópu eru öll þjóðþingin og Evrópusambandið sjálft sammála um að ef þess er nokkur kostur, þá eigi að leita eftir því að varðveita byggðamunstur Evrópu vegna þess að menn vita að sú röskun sem er að eiga sér stað og hefur átt sér stað, er félagslega, pólitískt og efnahagslega dýrkeypt fyrir þjóðfélögin.

Við Íslendingar höfum orðið fyrir mjög mikilli röskun. Kannski á margt af þeirri röskun sér eðlilegar, efnahagslegar forsendur en einmitt þess vegna er það sem við komum með tillögur um það að leggja fram áhættufjármagn, harða peninga sem við ætlumst til að verði ekki notaðir nema menn geti sýnt fram á og sannað að þeir séu að fara í raunhæf verkefni. Það er það sem okkur vantar. Okkur vantar að skjóta nýjum stoðum undir byggðir landsins. Það sem hefur verið að gerast hér á undanförnum áratugum er einfaldlega það að aðalstoðir landsbyggðarinar, þ.e. sjávarútvegur og landbúnaður hafa verið að fara í gegnum mjög miklar breytingar. Einu breytingarnar sem hafa orðið á ríkisfjármálunum allan þennan áratug er samdráttur í fé til landbúnaðarins. Það er eina stóra breytingin. Allt annað hefur nokkurn veginn staðið í stað. Fjármagn til landbúnaðar hefur dregist saman. Fjármagn til almannatrygginga hefur aukist. Þetta er stóra breytingin.

Þetta hefur komið mjög hart niður á sveitum landsins, gríðarlega hart. Bændur þessa lands eru eina stéttin sem raunverulega er að taka á sig og hefur tekið á sig langmestu tekjuskerðingarnar og langmestu lífskjaraskerðingarnar á við alla aðra. Eins er það t.d. með sjávarútveginn. Samdráttur í bolfiskveiðum hefur farið mjög illa með þessar byggðir margar. Ég er alveg sannfærður um að kvótakerfið á þarna mjög stóran hlut líka. Við vitum að það hefur haft mjög miklar breytingar í för með sér og ég fullyrði að kvótakerfið hefur ýtt mjög undir ákveðna þróun, þ.e. landvinnslan hefur verið að flytjast út á sjó. Nú geta menn deilt um hvort það sé gott eða slæmt. En kvótakerfið hefur haft gríðarleg áhrif á þessu sviði að flytja landvinnsluna út á sjó og þetta hefur veikt ákaflega mikið mjög margar byggðir hringinn í kringum landið.

Því er, herra forseti, engin ástæða til annars en leita allra leiða til þess að finna nýjar efnahagslegar forsendur ef þær kunna að vera til, leita þeirra.

Hv. þm. Árni Mathiesen hafði af einhverjum ástæðum þau orð uppi að nefndarmenn í efh.- og viðskn. væru vitringar. Nú er mönnum frjálst að sjálfsögðu, herra forseti, að hafa þau viðurnefni um annað fólk sem það kýs. En hann fór líka með ákveðna fullyrðingu sem mér þótti nokkuð merkileg. Hún var svona: ,,Þetta áhættufé er algjörlega óþarft því að ef áhættufé ber ávöxt, þ.e. aðgerðin heppnast, þá sannar það að aðgerðin er óþörf.`` Ef þessi fullyrðing hv. þm. reynist rétt, þá held ég að ég sé ekki sá eini sem stend upp og vefst nú tunga um tönn við að skýra framþróunina síðustu aldirnar. Og ef þetta reynist rétt, þá held ég að það sé óþarfi fyrir okkur í efh.- og viðskn. að vera að burðast með vitringanafnið, heldur getur hv. þm. Árni Mathiesen borið það bara einn því að þetta er mjög merkileg skýring á því hvernig framvindan hefur verið í heiminum síðustu 500 árin.

Hér hafa fulltrúar minni hlutanna, 1., 2. og 3. minni hluta, rætt nokkuð um sínar tillögur. Það kom fram í máli hv. þm. Péturs Blöndals að hann hefur enga trú á ríkisvæddri nýsköpun. Það kann að vera alveg hárrétt að kannski megi gera þetta allt öðruvísi. En við skulum bara minnast þess og fara í gegnum það, líka út af ummælum hv. þm. Ágústs Einarssonar, að þessi Nýsköpunarsjóður og þeir fjármunir sem þar eru saman komnir eru komnir úr þessum gömlu fjárfestingarsjóðum, Fiskveiðasjóði Íslands og Iðnlánasjóði og það er vitað mál að þessi umræða hefur staðið mjög lengi. Áratugum saman var það nú svo að bæði iðnaðurinn og sjávarútvegurinn voru að greiða framlög til þessara sjóða, bæði beint og óbeint, með beinum framlögum, iðnaðurinn með beinni skattlagninu á sjávarútveginn í gegnum sjávarútvegsgjöldin. Þær hugmyndir og meiningar hafa því verið hér allt frá upphafi að þessar atvinnugreinar ættu og væru að byggja upp þessa sjóði og umræðurnar á undanförnum árum, þegar ljóst var að vilji manna stæði til þess að breyta þessu, hefur verið um hver eignarhluti atvinnulífsins, þ.e. iðnaðarins og sjávarútvegsins, væri raunverulega í þessum sjóðum. Og niðurstaðan af þeirri margra ára umræðu var sú að atvinnulífið, þ.e. iðnaðurinn og sjávarútvegurinn, voru reiðubúin til þess að láta arðinn af sinni eign renna til nýsköpunar og þróunar í atvinnulífinu í heild á Íslandi. Þessi er niðurstaðan af deilunum og umræðunum um eignarréttinn. Þess vegna eru þessar hugmyndir fæddar. Þetta var sáttargjörðin milli ríkisins og atvinnulífsins þannig að menn hættu að deila um hver ætti hvað. Niðurstaðan varð sú. --- Allt í lagi, við skulum láta það bara liggja á milli hluta. En hugsanlegum arði af þessum eignarhlut sem menn töldu ýmist að væri 40%, sumir 50% og aðrir 60%, það skiptir ekki máli, þ.e. ákveðnum hluta væri varið til atvinnulífsins áfram. Menn voru fyrir rest sáttir við það að hugsanlegur arður félli í þennan farveg og þess vegna eru þessi frv. svona úr garði gerð. Engan þarf því að undra það þó að við þessa skipan mála sé gert ráð fyrir því að fulltrúar frá sjávarútvegi og iðnaði séu þarna. Hvort það verður varanlegt, efast ég nú um. En það er mjög eðlilegt þegar þessi umbreyting er að eiga sér stað. Og ég held að það hafi komið fram hjá öllum þessum aðilum, bæði sjávarútvegi og iðnaði, að þeir reikna ekki með því sem sérstaklega varanlegu ástandi en eðlilegt er og sjálfsagt að þeir vilji og fái að fylgja málinu eftir enda hafa þessar greinar og samtök atvinnurekenda í iðnaði og sjávarútvegi staðið að þessari uppbyggingu alla þessa öld.

Það má að sjálfsögðu um þetta mál, þ.e. Nýsköpunarsjóðinn, segja það nákvæmlega sama og var sagt í gær um Fjárfestingarbankann og sagt var í fyrradag um hlutafjárvæðingu viðskiptabankanna: Auðvitað mátti gera þetta öðruvísi. Auðvitað er ekkert víst að þetta val hafi endilega verið það besta. Ég ætla ekki að fara í gegnum þá umræðu alla. Við erum búin að gera það tvo síðustu eftirmiðdaga. Þar gildir nákvæmlega það sama. Þetta varð niðurstaðan, því er þessi skipan svo. Þess vegna er það að við erum að klára þessa umræðu. Við erum að ljúka henni. Ég ætla samt að ítreka fyrri ummæli mín núna sem ég hef reyndar farið í gegnum eftirmiðdaginn, bæði í gær og fyrradag. Ég er persónulega sannfærður um að þessir hlutir og þessar peningastofnanir séu að breytast mjög hratt. Ég er persónulega sannfærður um að þegar á næsta hausti verði þingheimur reiðubúinn til að ganga í gegnum miklu róttækari breytingar og miklu róttækari aðgerðir í peningamálum en hann er tilbúinn í dag. Umskiptin eru svo mikil og það sem skiptir máli núna er að við erum að halda af stað inn í þá miklu umbreytingu. Auðvitað verður það þannig á örskotstíð að ríkið mun selja og hætta allri þátttöku bæði í fjárfestingarlánasjóðum svo og í viðskiptabönkum. Það er alveg vitað mál. Það mun gerast mjög hratt. Og auðvitað verður það til mikillar farsældar vegna þess að við vitum að við þurfum samkeppni inn í þessa grein. Við þurfum gríðarlega samkeppni á öllum sviðum og ríkið hefur nóg að gera á öðrum sviðum með sína peninga. Það innleysir það mjög hratt.

En þessi stund núna þegar við leggjum af stað er að mínu viti mikil heillastund. Ég er viss um það að þó að vinir okkar í stjórnarandstöðunni hafi haft ýmislegt smálegt við þetta að athuga og komið með ýmsar athugasemdir o.s.frv. og lagt kannski eitthvað aðeins aðrar áherslur á hlutina, þá sé það nú svo, herra forseti, að þingheimur hafi verið mjög samstiga í að fara í þessar breytingar, styðja þessar breytingar og sjá til þess að þær gangi fram. Ég er sannfærður um að við öll og ekki hvað síst hæstv. viðskrh. sem hefur staðið fyrir þessari ferð á eftir að hafa sóma af upphafi þessa ferðalags, þ.e.: Við erum að hverfa frá ríkisrekstri á fjármálamarkaði.