Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins

Miðvikudaginn 23. apríl 1997, kl. 18:18:48 (5699)

1997-04-23 18:18:48# 121. lþ. 111.18 fundur 407. mál: #A Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins# frv., Frsm. meiri hluta EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 111. fundur

[18:18]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Einar Oddur Kristjánsson) (andsvar):

Herra forseti. Menn geta svo sem deilt um það hver viðhafi furðulegan málflutning. Menn sem eiga heima úti á landi og búa úti á landi hafa verið að reyna með öllum ráðum að finna stoð fyrir byggð sinni. Þeir hafa verið að sameina sveitarfélög. Þeir hafa verið að leita alls kyns ráða, sameina fyrirtæki o.s.frv. Allir eru sammála um að á Íslandi hefur skort nýsköpun og áhættufjármagn til atvinnurekstrar. Allir eru samála um að það hefur skort. Komi nú menn með tillögur um að leita nýrra leiða, fara ekki hefðbundnar leiðir, þá er það að berja hausnum við steininn. Það er að berja hausnum við steininn þegar menn koma með nýjar tillögur, nýjar útfærslur, þ.e. hvernig við ætlum að reyna að gera þetta. Af því að vel kann að vera að okkur hafi mistekist margt áður, þá er það að berja hausnum við steininn.

Eins og við notum það orð heima hjá mér, þá hefur þetta alveg þveröfuga merkingu. Þegar menn segja heima hjá mér að hausnum sé barið við steininn, þá er það þegar menn neita að fara nýjar leiðir, neita að horfast í augu við hlutina, neita að leita nýrra úrræða, neita að taka rökum. Það er kallað heima hjá mér að berja hausnum við steininn. En þegar menn koma með nýjar útfærslur í byggðamálum, segja frá því að þær sé tilraun, alls enginn töfrasproti, segja frá því að það liggi alls ekki fyrir, en það megi kannski heppnast ef við stöndum rétt að hlutunum, það geti heppnast, en þurfi ekki að gera það, ef við reynum nýtt, þá koma menn hér og segja: ,,Nú er verið að berja hausnum við steininn.``