Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins

Miðvikudaginn 23. apríl 1997, kl. 18:20:47 (5700)

1997-04-23 18:20:47# 121. lþ. 111.18 fundur 407. mál: #A Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins# frv., Frsm. 3. minni hluta ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 111. fundur

[18:20]

Frsm. 3. minni hluta efh.- og viðskn. (Ágúst Einarsson) (andsvar):

Herra forseti. Það er ekki nokkur skapaður hlutur nýr í þessum tillögum ríkisstjórnarflokkanna, ekki nokkur skapaður hlutur nýr í þessum tillögum meiri hluta efh.- og viðskn. Þetta eru sömu gömlu aðferðirnar sem hér er farið fram með. Það er búinn til lítill viðbótarlánasjóður sem á að lána á mjög hefðbundinn hátt. Það er ekkert nýtt í þessu. Ég gat þess að ef menn vildu hugsa um nýsköpun væri sennilega besta skrefið að leggja aukaframlög í menntamál, styðja við rannsóknir og þróun, t.d. með skattalegum aðgerðum, veita meiri upplýsingar þannig að meiri þekking ríki í þessu umhverfi. Þetta eru allt saman hlutir sem kosta að vísu nokkuð, en er miklu betur gert en með þessum 5 milljörðum sem á að verja hér á þennan hefðbundna hátt sem hv. þm. talar fyrir.

Málið er, og það er gallinn og það er þráhyggjan í þessum málflutningi hv. 3. þm. Vestf., að hann getur ekki hugsað um nýjar leiðir í byggðamálum, því miður. Hann hugsar í gamla kerfinu, gamla farinu, hugsar sem svo að það eina sem getur orðið landsbyggðinni til bjargar sé að útvega smávegis peninga í viðbót. Það er einmitt þessi stefna sem hefur líklega valdið hvað mesta tjóni á landsbyggðinni sl. 15 ár.