Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins

Miðvikudaginn 23. apríl 1997, kl. 18:22:20 (5701)

1997-04-23 18:22:20# 121. lþ. 111.18 fundur 407. mál: #A Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins# frv., Frsm. meiri hluta EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 111. fundur

[18:22]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Einar Oddur Kristjánsson) (andsvar):

Herra forseti. Allir viðmælendur efh.- og viðskn. sem fjölluðu um þetta mál voru sammála um að það hafi helst skort á það á liðnum árum að menn sinntu þeim verkefnum sem hefur verið kallað þróunarfjármagn eða hugmyndafé. Allir voru sammála um það. Og þeir hvöttu til þess að ef menn sæju sér eitthvert færi á því að leita nýrra leiða, þá væri það gert á þann veg. Þess vegna er það að við leggjum fram þessar tillögur. Ef einhver segir að þær séu ekki nýjar, þá er það eins og gengur nú stundum og haft var eftir refnum: ,,Þau eru súr.`` Kannski það sé þess vegna að stjórnarandstaðan vilji gera svo lítið úr þessu að þeir áttu ekki sjálfir hugmyndina. En það skiptir engu máli. Þetta er það sem okkur hefur veri bent á. Þegar grundvöllur landsbyggðarinnar á svo mörgum sviðum eins og ég hef nefnt hér, bæði landbúnaður og sjávarútvegur, hefur brostið, þá er rétt að reyna að leita nýrra forsendna fyrir byggð og það er gert með því að byrja á byrjuninni, byrja á að finna þróunarfjármagn, finna hugmyndafé, ef vera skyldi að nýjar hugmyndir, sem eru eflaust til, eigi sér raunhæfar rætur.