Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins

Miðvikudaginn 23. apríl 1997, kl. 18:23:50 (5702)

1997-04-23 18:23:50# 121. lþ. 111.18 fundur 407. mál: #A Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins# frv., SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 111. fundur

[18:23]

Svavar Gestsson (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Einari Oddi Kristjánssyni fyrir hans ræðu og þær umræður sem hér hafa farið fram. Ég ætlaði hins vegar að mótmæla því að niðurskurður á fjármagni hefði eingöngu verið til landbúnaðar á undanförnum árum. Hann hefur aðallega verið til landbúnaðar og til menntakerfisins.

Staðreyndin er sú að fjármagn til Lánasjóðs ísl. námsmanna hefur verið skorið niður um einn milljarð og ég held að ein alvarlegasta atlagan að framförum í þessu landi um langt árabil sé hvernig farið hefur verið með Lánasjóð ísl. námsmanna. Mér finnst að það sé nauðsynlegt að menn, eins og hv. 3. þm. Vestf., sem reyna að horfa á málin heildstætt geri sér ljóst að þetta er atlaga að framförum. Og ef núna ætti að verja fjármunum til þess að efla framfarir og bæta lífskjör, þá mætti hugsa sér t.d. að setja opinbera peninga í að styrkja verulega framleiðslu á tölvunarfræðingum til þess að fyrirtækin okkar hér á Íslandi þurfi ekki að setja niður útibú í Skotlandi til þess að geta sinnt þeim verkefnum sem bjóðast t.d. í Suðaustur-Asíu. Þetta er nútíminn. Þetta er önnur nálgun. Með þessu er ég samt ekki að gagnrýna hv. þm. eða ríkisstjórnina yfirleitt fyrir þetta frv. Mér finnst út af fyrir sig betur af stað farið en heima setið með þetta frv. og mér finnst líka að ábendingarnar um viðbótarmilljarðinn séu út af fyrir sig góðra gjalda verðar.

Vegna þess sem hv. þm. sagði um andstöðuna við dreifbýlið, þá vil ég segja alveg eins og er: Ég held að hún sé orðum aukin, þessi andstaða við dreifbýlið og ég vara við því að þingmenn dreifbýlisins sem líta þannig á sig geri of mikið úr þessu og meira en efni standa til. Ég lít ekki þannig á að okkar höfuðskylda, t.d. þingmanna Reykvíkinga sé að hugsa um kjördæmið með stórum staf og greini. Við eigum að vera þingmenn landsins alls. Og ég veit að í okkar liði, a.m.k. hér í Reykjavík, er mikill vilji til þess að búa til brú milli þéttbýlis og dreifbýlis en ekki að skapa klofning og átök sem oft og tíðum byggjast meira og minna á misskilningi.