Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins

Miðvikudaginn 23. apríl 1997, kl. 18:26:02 (5703)

1997-04-23 18:26:02# 121. lþ. 111.18 fundur 407. mál: #A Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins# frv., Frsm. meiri hluta EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 111. fundur

[18:26]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Einar Oddur Kristjánsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef nú þessar tölur úr einhverjum þeim gögnum um ríkisfjármálin sem ég hef nýlega verið að skoða. Ég hef það ekki hérna hjá mér þannig að ég get ekki vitnað í það, en ég tel mig muna þetta rétt.

Hins vegar er það rétt hjá hv. þm. að ef einhvers staðar hallar á Ísland í útgjöldum í alþjóðlegum samanburði um stöðu ríkisfjármála, tökum hlutfallslega miðað við tekjur eða hvað sem er, þá er það helst í menntamálum. Það er alveg hárrétt. Í heilbrigðsmálum, félagsmálum og mörgum öðrum málaþáttum er Ísland alveg fullkomlega sambærilegt við það sem best gerist í heiminum. Það hallar helst á okkur í menntamálum. Ég kannast við þær stærðir. Það er alveg hárrétt hjá honum.

Hins vegar er það svo að kannski er rétt hjá honum að vara menn við því að vera of viðkvæmir fyrir andstöðu við aðgerðir í byggðamálum. Það er nú samt svo að ég segi bara satt og rétt frá því að það hefur komið mér þó nokkuð á óvart hversu andstaðan er mikil og mér finnst rétt fyrir okkur dreifbýlismenn að hugleiða af hverju það stafar, hvort það stafar af því að við höfum farið ranglega fram og reyna þá að leita nýrra leiða til þess að leiðrétta, ef hægt er, byggðamunstur landsins. Hins vegar kannast ég ekki við annað í öllum mínum gerðum hér á þinginu en að í afstöðu til hvers einasta máls sé tekið tillit til efnahagslífsins í heild og alls ekki á nokkurn hátt að nokkur dæmi séu um að menn séu að taka einhverja þá afstöðu sem mundi þjóna þeirra eigin kjördæmi, frekar en menn úr Reykjavík. Ég kannast ekki við að það séu neinar deilur á milli manna um það.