Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins

Miðvikudaginn 23. apríl 1997, kl. 18:29:26 (5706)

1997-04-23 18:29:26# 121. lþ. 111.18 fundur 407. mál: #A Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins# frv., Frsm. 1. minni hluta PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 111. fundur

[18:29]

Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. góða ræðu. Hún var vel meint, ekki spurning. Hann sagði að þingmenn hefðu fjandsamlegt viðhorf til landsbyggðarinnar. Ég held að þetta sé ekki alveg rétt. (Gripið fram í.) Að hv. þm. hafi skynjað fjandsamleg viðhorf. Það heyrði ég alla vega. En ég held að landsbyggðin búi yfir miklu meiri velvild hjá þingheimi heldur en þessi orð gefa til kynna. Það eru ekki hagsmunir Reykjavíkurþingmanna að þessi byggðaröskun verði sem er í gangi.

Menn hafa gert krampakenndar og örvæntingarfullar tilraunir til að snúa þessu við. Menn hafa stofnað Byggðastofnun. Í fjárln. hafa menn sett peninga í framkvæmdir, oft og tíðum mjög óskynsamlegar og það kannski veldur þessari andstöðu sem við erum að tala um.

Það merkilega við allar þessar aðgerðir er að þær örva atvinnu í Reykjavík. Byggðastofnun starfar í Reykjavík. Vegamálastofnun, Hafnamálastofnun, allt þetta starfar í Reykjavík. Allt er miðstýrt héðan frá Reykjavík og það er kannski kjarni málsins hvernig þetta allt er upp byggt. Ég held að hv. þm. ætti t.d. að líta á ríkisbankana og fjármálakerfið sem við erum núna með litlum skrefum að breyta. Þessu er öllu miðstýrt frá Reykjavík. Leggi maður inn 1.000 kr. á Ísafirði, þá fer þúsundkallinn til Reykjavíkur. Þar kostar hann 5% í vinnslu og maðurinn getur fengið 950 kr. lánaðar aftur til baka á hnjánum.

Þetta er náttúrlega sú miðstýring sem ég held að skaði landsbyggðina langmest. Hvað er til ráða? Ég held að menn þurfi að leita allt annarra lausna. Og kannski með því að gera almennt umhverfi fyrirtækja og reksturs betra, þá mun staða landsbyggðarinnar batna því að mikið af atvinnurekstri á heima úti á landi, t.d. sjávarútvegurinn. Hann er miklu arðbærari þar heldur en hérna í Reykjavík.