Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins

Miðvikudaginn 23. apríl 1997, kl. 18:31:27 (5707)

1997-04-23 18:31:27# 121. lþ. 111.18 fundur 407. mál: #A Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins# frv., Frsm. meiri hluta EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 111. fundur

[18:31]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Einar Oddur Kristjánsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég sagði áðan að neikvæð viðhorf fólks til landsbyggðarinnar hefðu valdið mér vonbrigðum. Ég var bara hreinskilinn og sagði rétt frá því. Ég efast ekki um að ábendingar hv. þm. Péturs Blöndals séu réttar. Ég efast ekki um að margra skýringanna er að leita einmitt hjá okkur sjálfum, þ.e. að landsbyggðarfólk hefur ekki brugðist rétt við, að aðgerðir til að efla byggðirnar hafa verið misheppnaðar o.s.frv. En eigi að síður er það svo að ef menn líta á þetta í heild og ef menn líta á efnahagsmálin í heild, þá ætti það að vera þannig að búseta manna úti á landi á ekki á nokkurn hátt að geta skaðað fólkið í þéttbýlinu, ekkert frekar en að fólkið í þéttbýlinu sé í sjálfu sér að valda landsbyggðarfólkinu neinum búsifjum. Ef menn skoða þetta raunverulega og leggja málið niður fyrir sér, þá ætti að vera auðvelt að koma á viðhorfinu byggð með byggð. Það væri þjóðhagslega hagstætt.

Ég var ekki að segja þetta til að ásaka neinn. Ég var að segja þetta vegna þess að ég tek eftir þessu, finnst það undarlegt og það kom mér á óvart. Ég held að við ættum að skoða þetta í sameiningu og ég er sannfærður um að hv. þm. Pétur Blöndal hefur réttan skilning á þessu. Þessi miðstýring, ég tala nú ekki um miðstýring fjármagnsins, er ábyggilega einn af stóru þáttunum í þessari þróun. Ef við getum breytt henni --- og henni erum við að reyna að breyta með þessum frumvörpum hérna núna þó að hægt sé farið af stað --- þá getur hún haft og mun hafa verulega þýðingu fyrir Ísland í heild og ekki síst hinar dreifðu byggðir.