Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins

Miðvikudaginn 23. apríl 1997, kl. 18:36:11 (5710)

1997-04-23 18:36:11# 121. lþ. 111.18 fundur 407. mál: #A Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins# frv., viðskrh.
[prenta uppsett í dálka] 111. fundur

[18:36]

Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Nú þegar komið er að lokum umræðu um þetta frv. um nýsköpunarsjóð fyrir atvinnulífið, þá er að ljúka umræðu um það þriðja mál sem er partur af heilsteyptri stefnumótun ríkisstjórnarinnar til þess að efla atvinnulífið og skjóta þannig traustari stoðum undir velferðarkerfið í landinu. Um þessi mál hefur mönnum sýnst sitt hverjum í þessari umræðu. Þau eiga öll eitt sameiginlegt og það er að þau eiga að verða til þess að draga úr umsvifum ríkisins á fjármgnsmarkaði, en eins og ég sagði áðan í andsvari við hv. þm. Ágúst Einarsson hefur það staðið okkur fyrir þrifum í alþjóðlegum samanburði hversu ríkur þáttur ríkisins hefur verið á fjármagnsmarkaðinum. Og það er ekki hægt að halda því fram með neinum rökum að með þessu sé ríkið að efla og treysta sinn hlut á fjármagnsmarkaðnum, síður en svo, því að jafnframt hefur verið ákveðið þegar frv. --- og hluti af því hefur núna verið samþykktur við 2. umr. --- verður að lögum, að iðnrh. og sjútvrh. er sett fyrir að hefja undirbúning á sölu á 49% hlut ríkisins í Fjárfestingarbanka atvinnulífsins sem hefur fram undir þetta verið að fullu í eigu ríkisins vegna þess að þessir fjórir sjóðir sem þarna um ræðir eru í opinberri eigu.

Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu með því að fara um að deila um þessa hluti. Það er ástæðulaust. Umræðan hefur að stórum hluta til snúist um þetta fram undir þetta. Og eins og ég segi, þrátt fyrir að um þessi mál sé nokkur ágreiningur og talsvert skiptar skoðanir, bæði innan ríkisstjórnarflokkanna og einnig innan stjórnarandstöðunnar, þá er það nú svo að þrátt fyrir að þau hafi ekki verið lögð hér fram fyrr en fyrir fáum vikum síðan, þá hefur efh.- og viðskn. tekist mjög vel upp að mínu mati í vinnu við þessi mál. Og það vil ég sérstaklega þakka fyrir núna þegar þetta síðasta mál af þessum þremur er til 2. umr. Ég vonast til að við 3. umr. ríki jafngóð sátt um þessi mál og betri sátt vona ég en hefur verið því að með ýmsum þeim breytingum sem nú hafa verið gerðar á frumvörpunum við 2. umr., er gengið til móts við þau sjónarmið sem kannski mest hefur verið deilt um.