Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins

Miðvikudaginn 23. apríl 1997, kl. 18:40:01 (5711)

1997-04-23 18:40:01# 121. lþ. 111.18 fundur 407. mál: #A Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins# frv., Frsm. 1. minni hluta PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 111. fundur

[18:40]

Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (andsvar):

Herra forseti. Það er þekkt erlendis að vilji menn halda völdum í langri keðju fyrirtækja, þá gæti þeir sín á því að hafa alltaf 51% í hverju fyrirtæki og þannig geta þeir fengið inn meira hlutafé en þeir eiga sjálfir yfir að ráða og ráðið því í reynd. Og þetta er akkúrat það sem gerist núna. Gangi þessi frumvörp öll eftir og segjum að það takist að selja 35% í Landsbankanum og hugsanlega í Búnaðarbankanum líka, 49% í Fjárfestingarbanka atvinnulífsins, þá er í reynd ríkið með meiri hluta í öllum þessum bönkum en búið fá 5--10 milljarða af fé úr atvinnulífinu undir sinn hatt, undir sína forsjá. Og ef þetta er ekki ríkisvæðing, þá veit ég ekki hvað þetta er. Ef þetta eru ekki aukin áhrif ríkisvaldsins á fjármálamarkaðnum, þá veit ég ekki hvað það heitir.

Ég aftur á móti sé breytingar, eins og kom fram í umræðunum og hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson sagði og ég tek undir. Ég sé breytingar. Ég vona það a.m.k. að meira verði selt og helst allur hlutur ríkisins í þessum fjármálastofnunum öllum saman. Þá getum við farið að horfast í augu við útlenda sérfræðinga sem stöðugt eru að ráðleggja okkur að minnka umsvif ríkisins á fjármálamarkaðnum.