Tryggingasjóður sjálfstætt starfandi einstaklinga

Föstudaginn 02. maí 1997, kl. 13:31:18 (5726)

1997-05-02 13:31:18# 121. lþ. 115.1 fundur 237. mál: #A Tryggingasjóður sjálfstætt starfandi einstaklinga# frv., RG
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur

[13:31]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Það mál sem verið er að afgreiða hér er ekki gott. Þetta mál er Alþingi til vansa vegna þess að ekki hefur verið haldið vel á málum og hvernig það kemur fyrir þingið núna segir okkur að vinna hefði átt nýtt frv. eftir gagnrýnina sem fram kom, vinna nýja og öðruvísi lagasetningu eða það sem ég tel að hefði verið enn þá réttara, þ.e. að allir ættu rétt í sama sjóði, að sjálfstætt starfandi einstaklingum hefði verið búinn réttur í Atvinnuleysistryggingasjóði.

Frsm. meiri hlutans lagði áherslu á að brtt. sem meiri hlutinn flytur tengdust fyrst og fremst breytingum á atvinnuleysistryggingafrv. sem hér var afgreitt snemma á vorinu. Bæði frv. voru lögð fram fyrir jól, í desember. Sú staðreynd að brtt. tengjast því frv. að nokkru, alls ekki að öllu leyti, dregur fram vinnubrögðin fyrir jól, hvernig frv. um atvinnuleysistryggingar var lagt fram og í hvaða búningi og að verkalýðshreyfingunni tókst að afstýra stórslysi með því að vinnu og umræðu um frv. lauk ekki fyrir jólin eins og áformað var og að komið var að kjarasamningum áður en að afgreiðslu þess kom. Það hlýtur að vera umhugsunarefni fyrir okkur öll hvernig frv. var lagt fram og hverju tókst að afstýra og hvort þetta sé það sem kemur fram frá ríkisstjórninni í hverju stórmálinu á fætur öðru sem lýtur að verkalýðshreyfingu og vinnumarkaði.

Það er reyndar, virðulegi forseti, umhugsunarefni hvernig forgangsröðun ríkisstjórnarinnar er, hvaða mál það eru sem koma tímanlega fram og hvaða málum er rutt í gegnum þingið með hraði og með miklum krafti. Þar má nefna hörðu málin, eins og bankamálin eða Landsvirkjun og fleiri, hvaða mál það eru sem þrýstingi er beitt til að fá fljótt í gegnum nefnd, eins og ráðherrarnir vilja, og hvaða mál það eru sem mega bíða þar til síðast, þar til tími gefst í lokin þegar öll þessi stóru, góðu eru komin í gegn, --- hvaða mál það eru þá sem verða afgreidd ef tími vinnst til.

Virðulegi forseti. Ég ætla að nefna eitt mál sem er tillaga um opinbera fjölskyldustefnu. Það er tillaga sem lögð var fram á fyrsta hausti þessa kjörtímabils. Það er tillaga sem félmrh. er búinn að hafa tvö ár til að koma fram. Það er tillaga sem hann flutti og fékk reyndar hrósyrði mitt fyrir vegna þess að hann breytti um skoðun á því hvernig opinber fjölskyldustefna ætti að líta út. En það er mál sem ekki er þrýst á. Það var lagt inn í þingið 16. október í haust, mælt fyrir því 5. nóvember, en þetta mál var afgreitt úr félmn. í morgun, guði sé lof, í fullkominni einingu eftir að stjórn og stjórnarandstaða höfðu farið yfir greinar og rætt saman um hvað betur mætti fara og komist að niðurstöðu um það sem var eining um, að vísu ekki um allt, þannig að minni hlutinn áskilur sér rétt til að koma með viðbótartillögur. Það mál er komið úr nefnd, virðulegi forseti, nú 2. maí, og verður væntanlega rætt hér í næstsíðustu viku þingsins. Þetta var ekki eitt af forgangsmálunum sem þrýst var í gegnum nefnd og lögð höfuðáhersla á að ná fram af því að það væri mikilvægt og af því að það að hrinda slíkri tillögu í framkvæmd þýddi að ekki veitti af þeim tíma sem þessi ríkisstjórn á eftir að sitja til þess að framkvæma tillöguna. Og af því að ég í inngangi að þessu máli, sem hér er til umræðu, nefni fjölskyldutillöguna, þá hlýt ég að minna á og mun að sjálfsögðu ræða það þegar þar að kemur að þetta er eingöngu tillaga til ríkisstjórnar um að setja sér opinbera fjölskyldustefnu. Öll framkvæmdin er eftir og miðað við að búið er að taka tvö ár að koma tillögunni sjálfri í gegnum þingið, þá er ég ekki mjög bjartsýn á að stefnumörkun verði komin í framkvæmd í lok þessa kjörtímabils.

Virðulegi forseti. Þessi ríkisstjórn er góð með sig í krafti mikils meiri hluta. Og nú ætla ég aðeins að ræða pólitík áður en ég fer að ræða þetta mál. Ríkisstjórnin er afar góð með sig. Hún hefur mikinn meiri hluta, meiri hluta sem reyndar sést ekki oft í þessum sal. Það tekst að smala honum saman til að slengja puttunum á græna takkann, svo ég noti fleyg orð, þegar svo ber undir og þessi ríkisstjórn beitir meirihlutavaldinu alveg óheft eins og reynsla tveggja vetra sýnir. Ríkisstjórnin treystir á að hún muni fljóta áfram í krafti góðæris, í krafti góðæris sem hún reyndar ekki skóp, en sem hún nýtur.

Ég ætla að minna á það að núna í apríl varð ríkisstjórnin tveggja ára. Hvað þýðir það? Það þýðir að farið er að síga á seinni hluta þessa kjörtímabils. Hún er löngu hætt að verða ný. Hún er á miðri sinni ferð og nú er farið að síga á seinni hlutann og þá skapast sérstakar aðstæður og andrúmsloft í samstarfinu af því að þá fara menn að gera sér grein fyrir að ekki verður tími til að gera allt sem menn eru svo bjartsýnir með þegar þeir fara af stað. Og mín spá er sú að staða ríkisstjórnarinnar muni breytast á seinni helmingi þessa kjörtímabils. Og það hlýtur að vera sitjandi valdhöfum umhugsunarefni hvert hlutskipti breska Íhaldsflokksins varð, þrátt fyrir einkar góða efnahagsstöðu í því landi. Hvað segir þetta okkur? Þetta segir okkur og sýnir að fólkið í landinu gerir hljóðláta, lýðræðislega byltingu þegar hagsmunir fjölskyldunnar eru ekki hafðir að leiðarljósi. Það mun gerast hér. Það mun ekki þurfa hávaða eða atgang eða endilega lausa kjarasamninga eða annað það sem ríkisstjórnin er búin að leggja mikla áherslu á að tryggja að verði ekki með losarabrag eða lausa enda þegar þar að kemur. Það mun verða annað sem verður lagt á vogarskálarnar og ég efast ekki um hvernig sú vigtun verður.

Virðulegi forseti. Þetta var aðeins örlítill pólitískur inngangur að máli sem var harðlega gagnrýnt í dag. Það er reyndar ekki gagnrýnt að ekki sé tímabært að skoða rétt sjálfstætt starfandi. Jú, það var alveg tímabært. Eins og áður hefur verið bent á hefur verið skoðað í nokkurn tíma hvernig ætti að fara með endurskoðun á atvinnuleysistryggingabótum og tryggja eins og mögulegt er rétt allra vinnandi. En það er afar erfitt að skilgreina hvenær sjálfstætt starfandi eru atvinnulausir. Og það sem verra er. Við verðum sáralitlu nær verði þetta frv. að lögum vegna þess að þetta frv., þessi lagasetning skýrir það ekkert sérstaklega vel.

Það eru mikil vonbrigði hvernig staðið er að frumvarpsgerðinni og frumvarpsvinnunni. Tilkynnt var í desember þegar búið var að mæla fyrir atvinnuleysistryggingafrv. að von væri á þessu frv. Það mundi koma fram fyrir jól. Þegar það sá dagsins ljós, var það afgreitt til nefndar í skjóli nætur og umræðulaust sem var auðvitað mjög ófullnægjandi vegna þess að umræða strax í upphafi hefði kastað ljósi á hversu vanbúið frv. er.

Ég tók reyndar til máls við flutning málsins. Ég held að það hafi verið klukkan hálfþrjú um nótt og þá fyrst og fremst til að lýsa því yfir að miðað við tímasetninguna og þessa nótt mundum við hleypa málinu til nefndar og skoða það þar.

Eins og kom fram hjá hv. þm. Bryndísi Hlöðversdóttur, sem mælti fyrir nál. minni hlutans, nær frv. eingöngu til þriggja hópa hvar af eiginlega aðeins tveir þeirra gátu flokkast sem einyrkjar vegna þess að það kom auðvitað í ljós að mjög erfitt er að skilgreina bændur sem einyrkja, enda er lagt til að breyta nafni sjóðsins í Tryggingasjóð sjálfstætt starfandi einstaklinga.

Það er búið að leggja fram mjög margar brtt. við frv. Ég var að telja saman að brtt. eru við 29 greinar frv. Frv. sjálft er 30 greinar og fimm bráðabirgðaákvæði. Brtt. eru 29 en þær eru samtals í 63 liðum. Í 63 liðum erum við, Alþingi, að segja hvernig 29 greina frv. eigi að breytast til þess að það verði viðunandi. Er nokkur meining í svona vinnubrögðum? (PHB: Alþingi hefur áhrif.) Ég segi bara nei, það er engin meining í þeim. Hv. þm. Pétur Blöndal kallar fram í og segir: Alþingi hefur áhrif og það getur vel verið að honum finnist að því meira sem við breytum frv., því meiri áhrif hafi Alþingi. Það er hugmyndafræði sem er hægt að fara mörgum orðum um og er mjög teygjanleg vegna þess að að sjálfsögðu er það hugsað svo að þegar ráðherra er búinn að láta vinna frv. og það kemur til stjórnarflokkanna, þá sé fyrsta sían sú að þingmenn stjórnarflokkanna komi með athugasemdir og biðji um úrbætur og breytingar ef þeim sýnist að málið sé vanbúið. Ég verð því að segja að hinum mikla meiri hluta þótti frv. ekki verra en svo að þeim fannst í lagi fara með það hérna inn, mæla fyrir því, láta það fara umræðulaust til nefndar og það eru þá þessar fáu hræður í félmn. sem ákveða það að úr skuli bæta.

[13:45]

Ég spyr: Hver eru áhrif þingsins? Ég mæli það hins vegar svo að það sé fremur til hneisu fyrir ráðherra þegar mál hans tekur svo miklum breytingum í nefnd að það þekkist varla orðið heil setning í þingmálinu lengur. Því er ekki að undra spurt sé hvort ekki hefði verið smekklegra að setja hreinlega fram nýtt frv. Það er mjög erfitt að hafa yfirsýn yfir það þegar gerðar eru svo margar breytingar við frumvörp eins og voru gerðar við atvinnuleysistryggingafrv. og við þetta frv., og sjá hvers lags lagasetning kemur út úr þessu, hafa yfirsýn yfir hvernig réttindin eru í heild þegar þessi hrærigrautur sem búið er að setja í lagabúning er orðinn að lögum. Það verður a.m.k. að segjast eins og er um atvinnuleysistryggingafrv. sem afgreitt var hér fljótlega eftir að þing kom saman eftir jól að það er mjög erfitt að sjá í því framtíðarsýn. Framtíðarsýnin í þessu frv. felst í því að það snýr fyrst og fremst að þremur ólíkum hópum ásamt öðrum.

Eitt af því sem var rætt og þyrfti að fá grundvallarsvör við er t.d. hvernig á að fara með atvinnuleysi í stétt bænda. Hvernig á að meta atvinnuleysi bænda? Nú er það svo að í sveitum eru gjarnan bæði hjónin bændur. Það hefur að vísu verið þannig í gegnum árin að það hefur verið mismunandi og haft í raun og veru áhrif á talningu og þar með fjölda kvenna sem sjálfstætt starfandi hvort hjónin bæði í bændastétt hafa skráð sig sem sjálfstæða bændur og það sem hefur haft áhrif hafa verið skattalög hverju sinni. Þetta segi ég vegna þess að ég kyntist því þegar ég var að fara í gegnum ákveðna vinnu fyrir fáum árum og sjálfstætt starfandi konur sveifluðust í fjölda svo gífurlega milli ára að það var ástæða til að láta Þjóðhagsstofnun skoða hverju þetta sætti og það var vegna þess að milli þessara ára voru konur í bændastétt ýmist skráðar sjálfstætt starfandi eða ekki.

Við skulum gefa okkur að bæði hjónin séu skráð bændur. Býlið hefur sætt slíkum þrengingum að tveir geta ekki lifað af því. Þetta hljóta að vera fyrstu rökin. Þá þarf að meta það hvenær tveir teljist geta lifað af býlinu. Nú skulum við gefa okkur að búið sé að svara þeirri spurningu. Henni var ekki svarað meðan málið var í félmn. Þá þarf að svara því hvað eigi að gera fyrir þann einstakling sem skoðast atvinnulaus, þann annan tveggja. Á hann að fara á atvinnuleysisbætur til framtíðar ef þessi skerðing sem búið sætir verður ekki lagfærð? Nei, þetta býli getur verið staðsett þannig að fræðilegur möguleiki sé fyrir annan einstaklinginn að sækja vinnu í næsta þéttbýliskjarna. Þá má hugsa sér að einstaklingurinn sé atvinnulaus, enda tekur hann þá vinnu sem býðst í næsta þéttbýliskjarna.

Þá spyrjum við í félmn.: Hvað ef býlið er upp til dala en sömu þrengingum háð? Tveir geta ekki lifað af því, enginn þéttbýlisstaður er nálægt til að sækja vinnu. Á þá annar að fá atvinnuleysisbætur? Svarið var nei, þegar við inntum eftir þessu í félmn. Vegna þess að viðkomandi getur ekki fengið atvinnuleysisbætur nema atvinna sé mögulega í boði.

Hvað þýðir þetta fyrir jafnræðisreglu? Við getum hugsað okkur tvö býli jafnsett sem hafa farið í gegnum sömu þjóðfélagsbreytingarnar á sama tíma. Hjón sem eru á svipuðum aldri, með svipaðan barnafjölda, við svipaðar félagslegar aðstæður. Annað býlið er þannig staðsett að það fellur undir þennan fræðilega möguleika, hitt ekki. Ég spyr: Mundi það ekki vera brot á jafnræðisreglu að veita öðru parinu rétt til atvinnuleysisbóta við ákveðnar aðstæður og hinu ekki?

Nú má ég til með að nefna það, af því að þetta frv. fór og var hleypt til nefndar fyrir jól án umræðu af því að það var eins konar viðhengi við frv. um atvinnuleysistryggingar, að strax þegar við fórum að vinna með þetta mál, þá spurðum við: Hvaða reglur sjá menn fyrir sér um ýmislegt í þessu vandasama verki að skilgreina atvinnuleysisbótarétt hjá bændum? Látum vera þó ekki hafi verið hægt að svara því við upphafsvinnuna í lok janúar. En að það skuli enn þá hafa verið þannig í lokayfirferð málsins seinni part aprílmánaðar að við vorum engu nær og fengum engin betri svör önnur en þau að ekki væri búið að setja reglurnar. Það átti að flýta sér að setja lögin. En metnaður félmrn. hneig ekki að því að byrja strax fyrir jól að skoða hvernig þessar reglur yrðu til þess að geta svarað því í nefndinni. Því er fyrsta spurning mín til ráðherrans hér og nú: Er búið að forma hvernig þessar reglur eru? Og sé svo, þá óska ég eftir að ráðherrann fari skilmerkilega yfir þær þannig að við vitum um hvað er að ræða þegar hann svarar fyrirspurnum okkar hér á eftir, en leiki ekki þann sama leik og hann gjarnan gerir, að fara að tala um eitthvað annað sem sé gott og fram hjá málinu. Ég legg mikla áherslu á að sé búið að setja reglur í félmrn. um það hvernig eigi að fara með þennan þátt, þá fáum við að heyra hverjar þær eru án undansláttar.

Aðstoðarmaður ráðherrans skýldi sér að vísu bak við það í umræðu í nefndinni að þessi lög væru tilraun og þess vegna eigi eftir að búa til reglur. Mér finnst reyndar að lög eigi aldrei að vera tilraun. Það er hægt að gera tilraun til að ná ákveðnum markmiðum. Þau verða að vera skýr og það verður að vera skýrt hvernig leiðin að markmiðinu er að mati þess sem flytur þingmálið.

Virðulegi forseti. Afskaplega margir komu á fund nefndarinnar úr hópi svokallaðra einyrkja og þeir áttu það allir sammerkt að þeim var brugðið. Af hverju var þeim brugðið? Jú, vegna þess að verið var að setja ný lög um svo mikilvægan rétt einyrkja sem atvinnuleysisbætur eru og þeir höfðu ekki hugmynd um það. Þeir voru að frétta það um þetta leyti. Frv. fór mjög hljótt. Umræða um það fór fram um miðja nótt og það var ekki komið að því að félmn. sendi frv. út til hinna ýmsu hópa þegar þeir byrjuðu að hringja inn og spyrja: ,,Er það virkilega svo að þarna sé verið að setja lög og er það virkilega svo að þau lög taki eingöngu til þriggja hópa? Hvað með okkur hin?`` Við nefndarmenn fengum slíkar upphringingar frá fólki sem var brugðið og þessir hópar og þessar stéttir sendu inn athugasemdir sínar við frv. og fulltrúar þeirra komu á fund nefndarinnar og það kom mjög mikil gagnrýni fram á að það skyldi gerast að slíkt frv. væri sett fram með eingöngu hagsmuni þriggja hópa að leiðarljósi án þess að aðrir hópar fengju neitt um það að vita að verið væri að vinna slíkt mál í félmrn. eða tækifæri til að koma sjónarmiðum að strax á vinnslustigi.

Það má líka undirstrika að aðeins á milli 5 og 6 þúsund manns mynda þá þrjá hópa sem frv. upphaflega tók mið af meðan trúlega yfir 14 þúsund manns tilheyra svokölluðum öðrum starfsgreinum, þ.e. sjálfstætt starfandi sem bætt var við í heiti frv. Það varð niðurstaðan í nefndinni að í stað þess að frv. héti frv. til laga um Tryggingasjóð einyrkja og tæki til þessara þriggja hópa, þá heitir það nú: Frv. til laga um Tryggingasjóð einyrkja og aðrar starfsgreinar sjálfstætt starfandi einstaklinga. Og þessir aðrir eru sennilega yfir 14 þúsund manns. E.t.v. hafa þeir hópar, fjölbreyttir sem þeir eru, ekki verið jafnháværir og hinir þrír. Ég legg ekki mat á það. En það er mikið umhugsunarefni að það skyldi vera tekin ákvörðun um að setja fram sérstakt frv. og búa til sérstakan sjóð eingöngu fyrir þrjár starfsstéttir.

Einhvers staðar var sagt að þrátt fyrir þetta væri þetta skref í rétta átt. Ég get ekki tekið undir það. Það er auðvitað alltaf skref í rétta átt þegar starfsstéttum eru veitt réttindi sem aðrar starfsstéttir hafa og sem þær hafa ekki haft áður, en þetta eru fálmkennd vinnubrögð og eins og ég sagði áður hefði átt að draga frv. til baka og koma með nýtt mál ef algjörlega var loku fyrir það skotið að þessum starfsstéttum væri búinn réttur inni í einum og sama sjóðnum, Atvinnuleysistryggingasjóð, og komum nú aðeins að því.

Fyrir hvað stendur slíkur atvinnuleysistryggingasjóður? Hann er eins og lífeyrissjóðirnir. Aðstæður eru ólíkar, tryggingagjald er greitt fyrir alla og slíkur sjóður virkar eins og einn fyrir alla og allir fyrir einn. Þannig er það sett í lög hvaða upphæð á að greiða atvinnulausum einstaklingi sem á rétt samkvæmt lögum um Atvinnuleysistryggingasjóð. Er þá ekki allt gott úr því að búið er, innan tíðar væntanlega, að búa til nýjan sjóð sem hinir sjálfstætt starfandi eiga að fá úr? Mun ekki alltaf verða eitthvert jafnræði þarna á milli, einn fyrir alla og allir fyrir einn, og allir fá hina sömu upphæð atvinnuleysisbóta samkvæmt lögum? Ég er ekki viss um það. Og hvers vegna ekki? Erum við ekki að búa til þennan rétt? Haldið þið ekki að hver einasti einstaklingur sem sér fyrir sér að hann sé að öðlast rétt samkvæmt nýjum lögum um Tryggingasjóð einyrkja og sjálfstætt starfandi, fái sama rétt og aðrir sem eiga rétt samkvæmt lögum um Atvinnuleysistryggingasjóð? Nei, svo er ekki vegna þess að í þessum sjóði eiga að vera deildir og hann á að bera sig sjálfur. Hann fær startkapítal vegna þess að hann fær ákveðið framlag úr Atvinnuleysistryggingasjóði sem er tryggingaiðgjald fyrir ákveðið tímabil sem þessar starfsstéttir hafa greitt inn. Síðan á hver deild hins nýja sjóðs að bera sig með greiðslum tryggingagjaldsins. Og þeir sem eru í fámennum starfsstéttum, svo fámennum að þeir geta hvorki fengið né eru færir um að búa til deild í hinum nýja Tryggingasjóði einyrkja verða að sækja um það og öðlast náð fyrir augum annarra sjálfstætt starfandi sem hafa búið til deild og leita eftir að fara inn í þá deild.

[14:00]

Nú skulum við gefa okkur að ákveðnum hópum sé hættara við atvinnuleysi en öðrum. Og við skulum gefa okkur að aðstæður geri það að verkum að þeir hópar raðist saman í eina deild. Svo verður e.t.v. meira atvinnuleysi hjá einum hópnum en öðrum og þá á deildin svo litla peninga að hún getur ekki greitt út hefðbundna upphæð atvinnuleysisbóta. Þá á hún að gera annað tveggja: Hækka inngreiðslur eða lækka útgreiðslur. Að lækka útgreiðslur þýðir að lækka atvinnuleysisbætur úr þessum sjóði. Ég er sannfærð um að allir þeir sem málið varðar og heyra um það í fréttunum í kvöld að í dag hafi verið til 2. umr. frv. um Tryggingasjóð einyrkja sem nú verður Tryggingasjóður einyrkja og annarra starfsgreina sjálfstætt starfandi einstaklinga, muni trúa því að með þeirri lagasetningu séu þeir að öðlast rétt til atvinnuleysisbóta og að þeirra réttur aukist, sú upphæð hækki ef slík upphæð hækkar í lögunum um Atvinnuleysissjóð. Ég þarf ekkert að segja um það hér hvort svo verði. Ég legg til að þeir alþingismenn sem hér eru og ætla að taka þátt í umræðunni leggi mat á það sjálfir hvort því sé treystandi að þær greiðslur verði eins og þær hafa verið við þær aðstæður sem þetta frv., eða réttara sagt brtt. gera ráð fyrir.

Virðulegi forseti. Þegar hugsað er til þess að unnin var áfangaskýrsla nefndar sem fengið var það verkefni að skila skýrslu um réttindi og skyldur sjálfstætt starfandi atvinnurekenda gagnvart atvinnuleysistryggingabótakerfinu, þá er það fremur undarlegt að þetta mál skuli hafa komið í þessum búningi og sé að verða að lögum í þessum búningi. En það verður að virða nefndinni til vorkunnar að þetta er eitt af þeim málum sem lögð var mikil áhersla á og ég geri ekki lítið úr því að lögð sé áhersla á að skapa rétt um atvinnuleysisbætur. Það út af fyrir sig finnst mér gott mál. En þessi nefnd varð til 8. október, hún skilar skýrslu í nóvember og frv. kemur í desember jafnvanbúið og það er er og nokkrum mánuðum seinna er enn ekki hægt að svara nokkrum grundvallarspurningum um það frv. sem er að verða að lögum.

Nú er tryggingagjald tekjustofn atvinnuleysistryggingasjóðanna og því á jafna á milli atvinnugreina. Af því að tryggingagjaldinu er fengið þetta hlutverk, þá má ekki vera valkvætt hvort greitt er tryggingagjald eða ekki. Það eigi hins vegar að tryggja alla ef þeir hafa verið nægilega lengi á vinnumarkaði til að falla undir lög. Ef það væri valkvætt að menn greiddu tryggingagjald, þá væri hætta á því að fólk sýndi ekki þá fyrirhyggju að tryggja sig. Ég tek alveg undir það sjónarmið að það eigi almennt varðandi okkar félagslega öryggisnet að láta það ekki skeika að sköpuðu hvort fólk sýni þá fyrirhyggju að tryggja sig, en það sjónarmið hefur oft heyrst í sömu stjórnmálaflokkum að menn eigi að bera ábyrgð á sjálfum sér. En eitt af því sem var nefnt í sambandi við tryggingagjaldið er að ef það væri valkvætt að greiða tryggingagjald, þá sýndu menn e.t.v. ekki þá fyrirhyggju að gera það. Þess vegna verði allir að greiða tryggingagjaldið. En margir listamenn lögðu á það áherslu að eðlilegast væri fyrir þá, listamennina, að þeir gætu valið hvort þeir vildu greiða tryggingagjald og þar með tryggja sig fyrir hugsanlegu atvinnuleysi eða hvort þeir fengju að sleppa við að greiða tryggingagjaldið og bæru ábyrgð á sér sjálfir. Vissulega var það rætt í félmn. hversu erfitt það yrði að meta hvenær listamaður er atvinnulaus. Við getum farið gegnum, og við gerum það eflaust á eftir, margar listgreinar til þess að draga þetta fram. Nú skrifar rithöfundur bók og lýkur henni á fyrstu þremur mánuðum árs. Hann finnur ekki andann í aðra. Er hann þá hugsanlega atvinnulaus seinni part árs? Hvenær þarf bókin að hafa skilað honum þeim tekjum að hann sé talinn vera í fullri atvinnu? Ef listmálari selur engin málverk, er hann atvinnlaus o.s.frv.? Þessu var velt upp í nefndinni. Á e.t.v. að skoða það að einhverjir greiði ekki þetta tryggingagjald vegna þess að staða þeirra sem einyrkja sé svo sérstök? Ákvörðunin er að allir skuli greiða, deildirnar í Atvinnuleysistryggingasjóðnum verði stórar, reynt verði að byggja verulega á flokkun ríkisskattstjóra og ef atvinnuleysið yrði svo mikið í einni deild að þar yrði sjóðþurrð, þá yrði að endurskoða málið og e.t.v. sameina hana annarri deild.

Virðulegi forseti. Ég hef hér fyrst og fremst drepið á meginatriði og það sem mér finnst vera grundvallaratriði í hugmyndafræðinni að tryggingum eins og þessum, þ.e. þeirri hugmyndafræði að vera með í tryggingum til að tryggja sig fyrir atvinnuleysi. Ég geri mér fullkomlega grein fyrir því hversu miklu vandasamara er að taka hópana sem oftast eru flokkaðir hinum megin við borðið, þ.e. atvinnurekendur sem greiða tryggingagjaldið af hverjum starfsmanni sem þeir hafa í þjónustu sinni og það er það tryggingagjald sem rennur í Atvinnuleysistryggingasjóð og skapar þessi réttindi sem eru svo mikilvæg þegar þrengir að á vinnumarkaði og fólk missir atvinnu. Það er auðvitað miklu erfiðara þegar við erum komin þangað því það er sá sem greiðir tryggingagjaldið sem á að fá úr þeim sjóði sem hann er að reyna að tryggja sig í. Ég geri mér fyllilega grein fyrir þeim vanda. Það breytir því ekki að það hefði þurft að taka af mjög mikilli festu á þessu máli og það breytir ekki því hversu óskaplega vanbúið þetta frv. var og það er engan veginn ásættanlegt hvernig úr því hefur verið unnið til að gera það besta úr vondu máli.

Virðulegi forseti. Ég ætla að leyfa mér í lokin, til þess að það séu ekki eingöngu mín orð heldur jafnframt orð annarra sem draga fram vankantana hér, að lesa, með leyfi forseta, klausuna úr umsögn Félags tónskálda og textahöfunda, en þar segir:

,,Frumvarp til laga um Tryggingasjóð einyrkja, sem kynnt var á Alþingi skömmu fyrir síðustu jól og mun nú vera til skoðunar hjá félmn., hefur vakið athygli og gremju meðal þeirra einyrkja sem skyldaðir eru til að greiða tryggingagjald án þess að öðlast í reynd nokkur réttindi. Í þeim hópi eru höfundar og flytjendur tónlistar. Sá tryggingasjóður sem til stendur að stofna er ekki fyrir alla einyrkja heldur aðeins hluta þeirra, þ.e. bændur, smábátaeigendur og vörubifreiðastjóra.``

Ég minni á að meiri hluti félmn. er búin að breyta því þannig að á eftir ,,smábátaeigendur`` komi: ,,og aðrar starfsgreinar sjálfstætt starfandi einstaklinga.``

,,Í athugasemdum við lagafrv. stendur að til athugunar hafi komið að stíga skrefið til fulls og gera alla sjálfstætt starfandi einstaklinga aðila að einum sjóði, en frá því var horfið og allir aðrir en áðurnefndir þrír hópar undanskildir. Þannig á að láta tónlistarmenn greiða í Atvinnuleysistryggingasjóð sem þeir eiga í raun ekki möguleika á að fá bætur úr þar sem erfitt verður að ákveða hvenær tónlistarmaður uppfyllir skilyrði bótaréttar.

Tónskáld getur ekki verið atvinnulaust því að það sér sjálft um að skapa sér atvinnu. Það er því út í hött að innheimta tryggingagjöld af tónskáldum. Vonandi gerir félmn. sér ljósa grein fyrir þeim annmörkum sem eru á lagafrv. og beitir sér fyrir því að fundin verði leið til að hagsmunir allra gjaldenda verði lagðir að jöfnu.

Í athugaemdum við frv. kemur fram að víða á Norðurlöndum er aðild að atvinnuleysistryggingasjóðum frjáls. Það kemur í veg fyrir hið augljósa misrétti sem hér viðgengst. Tónskáld, tónlistarflytjendur og aðrir sem sitja við sama borð hljóta að krefjast þess að Alþingi skoði þetta mál gaumgæfilega og stefni að sömu réttindum fyrir alla skattborgara þjóðfélagsins.``

Virðulegi forseti. Það er ekkert einstakt við þessa umsögn umfram málflutning annarra talsmanna svipaðra starfsstétta. Ég nefni þetta til að leggja áherslu á hversu mikilvægt er að reyna að skoða hagsmuni allra. Ég undirstrika að ég er ekki meðmælt því að í okkar réttindakerfi, sem við flokkum sem okkar öryggisnet hvort heldur það er atvinnuleysistryggingakerfið eða lífeyrissjóðakerfið, sé valkvætt hvort fólk er með. Ég legg höfuðáherslu á að í þessum kerfum gildi reglan einn fyrir alla og allir fyrir einn. En einmitt í ljósi þeirra sjónarmiða dreg ég það fram enn á ný í lok ræðu minnar, að eins og búið er að málum í þessu frv., þá er sá réttur ekki til staðar þrátt fyrir að ekki hafi heldur verið komið til móts við þá sem vörpuðu því fram hvort e.t.v. ætti að gera það valkvætt að borga tryggingagjald.