Tryggingasjóður sjálfstætt starfandi einstaklinga

Föstudaginn 02. maí 1997, kl. 14:13:59 (5727)

1997-05-02 14:13:59# 121. lþ. 115.1 fundur 237. mál: #A Tryggingasjóður sjálfstætt starfandi einstaklinga# frv., KÁ
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur

[14:13]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Árið 1995 voru gerðar breytingar á stjórnarskrá íslenska lýðveldisins. Þá var tekin upp í stjórnarskrána sú regla að allir skuli vera jafnir fyrir lögum. Mér sýnist að víða í stjórnkerfinu hafi menn ekki áttað sig á þessum breytingum og svo mikið er víst að rétt fyrir jólin var mælt fyrir frv. frá félmrn. af hæstv. félmrh. um Tryggingasjóð einyrkja sem ég tel að hefði ekki staðist stjórnarskrána hefði það farið í lögfræðilega skoðun vegna þess að þar voru teknir út þrír hópar einyrkja og meiningin var að setja um þá ákveðin lög, tryggja þeim ákveðinn rétt þegar ljóst mátti vera að þar var aðeins um hluta hóps að ræða. Lögin áttu ekki að gilda um aðra einyrkja og ég tel, hæstv. forseti, að þetta hefði ekki staðist jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar.

Það er í sjálfu sér mikið alvöru- og umhugsunarefni að það gerist hér trekk í trekk að það koma frumvörp úr ráðuneytunum (sem ekki standast) og minni ég þar á frv. um stéttarfélög og vinudeilur sem við fengumst við sl. vetur, en lögfræðileg skoðun leiddi í ljós að það stóðst ekki þá sáttmála sem við erum aðilar að. Við erum að fjalla hér á þinginu um frv. um lífeyrissjóði og dregið hefur verið mjög í efa að það standist eignarákvæði stjórnarskrárinnar og mannréttindasáttmálans sem við erum aðilar að. Þetta er að vísu oft mikið og erfitt túlkunarefni. En svo mikið er víst að í fyrra sýndu lögfræðingar fram á að frv. um stéttarfélög og vinnudeilur stóðst ekki eða það var mikill vafi á að það stæðist og það var ákveðið að breyta því. Þetta segir mér að ég held að menn þurfi að gera meira í því að kynna breytingarnar sem urðu á stjórnarskránni og hvað þær þýða þannig að við séum ekki að fást við mál af þessu tagi þar sem menn láta sér detta í hug að taka þrjá hópa út og setja um þá sérstök lög þegar ljóst er að mun fleiri eiga hlut að máli. Ég held að þessu hljóti að fara að linna og menn átti sig á því að þetta er ekki hægt.

Svörin sem við fengum í félmn. við þessu voru þau að það ætti að gera tilraun með réttindi þessara þriggja hópa. Erum við að setja lög í landinu til þess að gera tilraunir með réttindi fólks? Mér finnst afar sérkennilegt hvernig hér var að málum staðið.

Við fengum einnig þær skýringar að þessir þrír hópar sem voru tilteknir til að byrja með í frv. hefðu látið hæst í sér heyra og það ekki að ástæðulausu. Það skal nú undirstrikað því að það kom greinilega fram hjá þeim, og mér fannst það líka vera mikið umhugsunarefni, að það skilningsleysi sem þeir höfðu mætt hjá Atvinnuleysistryggingasjóði hefði leitt til þess að þeir fóru að leita annarra leiða. Ég er þeirrar grundvallarskoðunar, hæstv. forseti, að öll málefni hinna atvinnulausu eigi heima í Atvinnuleysistryggingasjóði. Þar eiga þau heima og mér finnst ekki ástæða til að stofna sérstaka sjóði og setja upp sérstakt stjórnkerfi yfir þennan 20 þúsund manna hóp sem telst til einyrkja. En ef raunin er sú að þessir hópar mæti svona miklum skilningsskorti hjá Atvinnuleysistryggingasjóði, starfsmönnum og stjórn hans, þá er eitthvað að þar.

Nú er það staðreynd að mjög erfitt er í mörgum tilvikum að skilgreina það hvenær einyrkjar eru atvinnulausir. Það er afar erfitt og verður mjög flókið verkefni fyrir stjórn og úthlutunarnefnd þessa væntanlega sjóðs, verði hann að veruleika. Það verður mjög flókið verk að skilgreina það hvenær einstakir hópar eða einstaklingar eru atvinnulausir eins og hér hefur verið rakið í fyrri ræðu þannig að þetta er mjög flókið mál.

Í umfjöllun í félmn. kom fram að blaðamenn sem hafa átt við töluvert atvinnuleysi að stríða --- þar er mikið af einyrkjum --- gerðu ákveðið samkomulag við stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs. Það var gert ákveðið samkomulag og eflaust hefðu fleiri getað farið þá leið. Það var gert samkomulag um ákveðna skilgreiningu og menn gáfu drengskaparheit um að halda það samkomulag gegn verulegum sektum og náttúrlega sviptingu bóta og endurkröfurétti ef það sannaðist að það samkomulag væri brotið. Samkomulagið gekk út á það að menn máttu hafa ákveðið tekjulágmark þannig að ef skyndilega kom upp verkefni, boð um að skrifa eina grein eða slíkt, þá varð það ekki þess valdandi að viðkomandi missti atvinnuleysisbætur fyrr en tekjurnar fóru yfir viss mörk. Þannig var samkomulagið.

Ég vil lýsa því, hæstv. forseti, að ég er afar óhress yfir þessu máli og hvernig það hefur þróast. Það er ekki aðeins vegna þeirrar skoðunar minnar að þessi mál eigi heima inni í Atvinnuleysistryggingasjóði og að stjórn þess sjóðs eigi að taka það verkefni alvarlega að skilgreina atvinnuleysi hvers hóps um sig og verði einfaldlega að drekka af þeim beiska kaleik, heldur vegna hins einnig að mér finnst frv. eins og það liggur nú fyrir með fram komnum brtt. vera mjög gallað.

Þá vil ég rifja það upp til hvers tryggingagjaldið er hugsað. Það er hugsað þannig að þeir sem eru í atvinnurekstri borga ákveðið gjald sem rennur til Atvinnuleysistryggingasjóðs. Hluti þess fer til Vinnueftirlitsins og hluti þess rennur inn í almenna tryggingakerfið. Það er alveg augljóst að hluti þessa hóps borgar tryggingagjald og það er enginn smáhópur. Það eru sem sagt yfir 20 þúsund manns sem eru skilgreindir sem einyrkjar og síðan eru auðvitað allir lögaðilar, og bara til fróðleiks skal ég upplýsa það hér að samkvæmt upplýsingum frá fjmrn. greiddu karlar á árinu 1996 á grundvelli tekna ársins 1995, 1.173,5 millj. kr. en konur 175,4. Þarna er afar mikill munur sem segir okkur að miklu fleiri karlar en konur eru í sjálfstæðum atvinnurekstri eða teljast einyrkjar og síðan eru lögaðilar með greiðslur upp á tæplega 10 milljarða.

Eins og ég sagði, þá er tryggingagjaldið ýmist ætlað til þess að tryggja rétt þeirra sem vinna hjá viðkomandi aðila eða í þessu tilviki rétt einyrkjans sjálfs. Það er alveg augljóst að ákveðinn hluti einyrkja getur ekki nýtt sér réttinn. Vegna eðli starfanna og vegna þess hversu erfitt er að skilgreina atvinnuleysi viðkomandi, getur hann aldrei nýtt sér þennan rétt. Og þá spyr maður sig: Er það réttlætanlegt að fólk borgi gjöld, sé að tryggja sjálft sig, þegar það er algjörlega ljóst að það getur ekki notið tryggingarinnar, nema að fólk skrái sig eða fari hreinlega í annað starf? Þetta gildir ekki síst um listamenn, enda er reglan sú eftir því sem við komumst næst að, m.a. á Norðurlöndunum, það er valkvætt, þá geta listamenn og fleiri valið hvort þeir greiða tryggingagjald eða ekki. Og ég hefði talið að það hefði verið rétt að skoða þann möguleika og vil beina því til hæstv. félmrh. að það verði skoðað alveg sérstaklega að tryggingagjaldinu verði aflétt af þeim hópum sem augljóslega geta ekki nýtt sér réttinn og það gildir um ákveðna hópa. Það getur ekki verið réttlátt að skattleggja fólk svona til þess að tryggja sig ef það getur aldrei notfært sér trygginguna vegna þess að það er ekki hægt að skilgreina atvinnuleysið.

Ég nefndi hér í upphafi, hæstv. forseti, að í upphaflegu frv. voru þrír hópar teknir og meiningin var að setja um þá sérstök lög. Þetta leiðir af sér að með þeim brtt. sem fram eru komnar hafa þessir hópar enn þá heldur forgang umfram aðra. Þeim er tryggð seta í stjórn og úthlutunarnefnd bóta. Og drottinn minn dýr! Það verður ekkert smáverk þegar bændur og vörubifreiðastjórar eiga að fara að skilgreina atvinnuleysi arkitekta, rithöfunda og annarra sem þarna eiga hlut að máli því að það hlýtur að verða stjórnin og úthlutunarnefndin sem koma að því verki að skilgreina atvinnuleysið sem verður eitt helsta vandamál þessa sjóðs.

Félmrh., hæstv. forseti, skal skipa stjórnina og það fer allt eftir því hve deildirnar verða margar hversu margir verða í stjórninni. Þetta verður náttúrlega afar sérkennileg samsetning á stjórn þar sem koma að málum afar ólíkir aðilar. Það er meiningin að Bændasamtökin, Landssamband smábátaeigenda og Landssamband vörubifreiðastjóra skipi einn fulltrúa hver, fjmrn. einn og önnur starfsgreinasamtök sem öðlast aðild að sjóðnum skulu tilnefna einn stjórnarmann hver og einn til vara, þó þannig að séu fleiri en ein starfsgreinasamtök í sömu deild sjóðsins skulu þau sameiginlega tilnefna einn stjórnarmann.

Á það var bent í umræðunni að deildirnar gætu orðið hugsanlega svona 50 eða þar um bil. Það er stungið upp á því að ekki verði fleiri en 500 í hverri deild og það gefur auga leið að með því móti geta deildirnar orðið býsna margar. Hver deild verður með einn fulltrúa í stjórninni þannig að þetta verður býsna stór stjórn og eins og ég segi, þá verður fróðlegt að sjá það þegar þessar stjórnir eiga að fara að skilgreina það hvenær bændur teljast atvinnulausir og fleiri hópar sem þarna koma að.

Það sem mér finnst þó alvarlegast í þessu máli, hæstv. forseti, er að hér er algjörlega vikið til hliðar þeirri grundvallarreglu sem ríkisstjórnin er að reyna að koma á í öðru máli, þ.e. í lífeyrismálunum, um samábyrgð og samtryggingu. Hér skal það ekki gilda. Það skal alls ekki gilda þegar einyrkjar eiga í hlut. Þeir eiga ekki að styðja og styrkja hver annan. Þeir styrkja náttúrlega sinn hóp en ekki hópinn sem heild og reglan er sú að hver deild á að standa undir sér. Ef það gerist að upp kemur atvinnuleysi í ákveðnum hópum, þá hefur stjórnin þá valkosti annaðhvort að skerða bæturnar eða hækka gjöldin sem þýðir auðvitað breytingu á lögum um tryggingagjald sem reyndar heyrir ekki undir hæstv. félmrh. Og maður spyr: Hvað gerist ef verulegt atvinnuleysi kemur upp í einhverjum hópi? Það gerðist um daginn þegar breytingarnar urðu í sjónvarpsmálunum. Þá missti allt í einu stór hópur þýðenda vinnuna. Það var fjöldi manna. Ég hygg að það hafi verið 50--60 manns sem allt í einu misstu vinnuna. Ég veit ekki hvort það fólk er búið að finna sér einhverja vinnu síðan.

En hvað gerist? Hvers verða þessar deildir megnugar ef það kemur upp atvinnuleysi í einhverjum slíkum hópi?

Í greinargerð sem við fengum frá arkitektum kom fram að í þeirra hópi er verulegt atvinnuleysi. Það er verulegt atvinnuleysi í þeirra röðum, miklu meira en þeir höfðu gert sér grein fyrir. Vonandi dregur úr því eftir því sem ástandið skánar á vinnumarkaðnum, en engu að síður sýna tölur um atvinnuleysi okkur að það virðist vera orðið nokkuð stöðugt. Það er núna rétt í kringum 4%, 3,9%, ef ég man rétt, voru síðustu tölur þannig að það virðist vera orðið nokkuð stöðugt atvinnuleysi og auðvitað er líka talsvert mikið dulið atvinnuleysi. Og hvað um þennan hóp einyrkja? Skráir hann sig atvinnulausan? Ég held að því miður geri ansi margir það ekki vegna þess að þeir hafa einfaldlega ekkert upp úr því. Rétturinn er svo takmarkaður og það er töluvert mikið mál. Og eins og kom fram í umræðum þegar við vorum að ræða um atvinnuleysistryggingarnar þá getur það verið mjög alvarlegt fyrir fólk að lenda á atvinnuleysisskrá. Það hefur sýnt sig að það er mjög erfitt fyrir fólk að fá vinnu ef það hefur lent á atvinnuleysisskrá, sérstaklega fyrir fólk með sérfræðimenntun. Það er eins og viðhorfið á vinnumarkaðnum sé þannig að eitthvað sé að fólki ef það lendir á atvinnuleysisskrá. Um þetta höfum við fengið dæmi.

[14:30]

Það hefur komið fram í tölum varðandi lífeyrismálin að um 15 þúsund einstaklingar greiða ekki í lífeyrssjóði. Og ég spyr mig hvað skyldu það vera margir einyrkjar sem greiða ekki tryggingagjald, sem eru þannig skráðir eða í þannig vinnu, jafnvel í svartri vinnu, að þeir hreinlega koma ekki fram. Þetta er auðvitað hópur sem erfitt er að ná utan um. Síðan er það fyrirbæri sem við víkjum að í nál. minni hlutans. Það eru þeir sem hafa verið þvingaðir út í gerviverktöku. Og það er til skammar að ríkisstofnanir, eins og t.d. Ríkisútvarpið, skuli ganga þannig fram að vera með fjölda manns, tugi manna, í gerviverktöku, fólk sem vinnur upp á hvern einasta dag hjá þeirri stofnun en er gert að vera þar á eigin vegum og nýtur ekki þeirra réttinda sem annað launafólk nýtur. Mér finnst til háborinnar skammar að þetta skuli líðast hjá ríkisstofnunum sem eiga að fara að lögum og reglum og virða rétt vinnandi fólks.

Ég vil ítreka það, hæstv. forseti, að ég tel mikla þörf á því að taka á þessu fyrirbæri, gerviverktöku, sem er mjög mikil en er einmitt eitt af því sem lendir á almannatryggingakerfinu. Ég vil nefna dæmi sem okkur var sagt, reyndar mjög sorglegt dæmi, um einyrkja sem hafði unnið áratugum saman hjá ríkisstofnun, verður svo veikur og stendur uppi algjörlega réttindalaus, og samstarfsfólk hans skaut saman handa honum þannig að hann kæmist nú af meðan á þessu stóð. Það gefur auga leið að þegar tugir, jafnvel þúsundir, einyrkja komast á efri aldur lendir hluti þeirra í tryggingakerfinu. Það stríðir beint gegn því markmiði, sem verið er að vinna að hér með öðrum lögum um lífeyrissjóðina, að reyna að létta af almannatryggingakerfinu með því að sjá til þess að allir borgi í lífeyrissjóði. En eins og ég nefndi, þá er talið að um 15 þúsund manns greiði ekki í lífeyrissjóði. Og hversu margir standa utan tryggingagjalda? Þetta er hópur sem þarf með einhverjum hætti að ná utan um. Það gerist að hluta til með því að bjóða fólki störf með fullum réttindum í stað þess að vera að viðhafa þessa gerviverktöku. Þarna er bara verið að taka úr öðrum vasanum og setja í hinn vegna þess að þetta kemur einfaldlega niður á ríkiskerfinu seinna meir.

Hæstv. forseti. Ég hef tekið á flestu því sem ég tel vera ábótavant í þessu máli. Það er sem sagt varðandi stjórnina og þann fjölda sem þar verður og þann mikla vanda sem stjórnin og úthlutunarnefndin mun lenda í við að skilgreina réttindi einyrkja og sama gildir um úthlutunarnefndina. Þetta verður mikið og erfitt verk. En það alvarlegasta er auðvitað að hér er samábyrgðin og samtryggingin hvergi nærri og ég held að það geti orðið hætta á því að deildir lendi í vandræðum ef upp kemur mikið atvinnuleysi því það segir einfaldlega í tillögunum, það kemur auðvitað ákveðið fé upphaflega, en síðan segir svo, með leyfi forseta:

,,Ef sýnt þykir að deildir sjóðsins geti ekki staðið við skuldbindingar sínar samkvæmt lögum þessum skal stjórn sjóðsins gera tillögu til ráðherra um hertar úthlutunarreglur, um skerðingu bóta og/eða um hækkun á tekjum viðkomandi deildar.``

Það verður því afar fróðlegt að sjá hvernig þessar deildir muni standa að vígi og í rauninni hvernig muni ganga að stofna þær, hvort einyrkjar líti þannig á að þeir geti tryggt sér einhvern rétt. Ég hef hitt fólk frá nokkrum af þeim samtökum sem skrifuðu til félmn. og komu á fund nefndarinnar og það er álit þess að það sé bara að fara úr öskunni í eldinn, því miður sé ekkert gagn að þessu og nánast verra en ekki neitt.

Það er skoðun mín, hæstv. forseti, eins og ég nefndi í upphafi, að þessi mál eigi heima í Atvinnuleysistryggingasjóði, að það sé skylda hans að taka á málum af þessu tagi og að þar mundu menn miklu fremur hafa yfirsýn yfir málefni atvinnulausra og hvernig staðan er í stað þess að stofna nýjan sjóð með nýju stjórnkerfi. Það höfðar greinilega mjög til hæstv. félmrh. að koma á fót nýjum stofnunum og ekki bara á höfuðborgarsvæðinu heldur víða um land, þenja út ríkiskerfið meðan við stöndum frammi fyrir fjárskorti í mennta- og heilbrigðismálum. Það vekur allt upp spurningar um forgangsröðun verkefna í samfélaginu. Ég held að hér hefði verið hægt að fara öðruvísi að --- beina málunum til Atvinnuleysistryggingasjóðs. Það hefði kannski mátt skoða samsetningu þeirrar stjórnar og gera hana og úthlutunarnefndirnar hæfari til þess að meta stöðu einyrkja. Þess vegna, hæstv. forseti, get ég ekki stutt þetta frv.