Tryggingasjóður sjálfstætt starfandi einstaklinga

Föstudaginn 02. maí 1997, kl. 14:47:03 (5729)

1997-05-02 14:47:03# 121. lþ. 115.1 fundur 237. mál: #A Tryggingasjóður sjálfstætt starfandi einstaklinga# frv., RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur

[14:47]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla heldur ekki að lengja þessa umræðu vegna þess að ég sé engan tilgang í því að við reynum að ræða þetta mál ítarlega. Vegna þess að það kemur alveg fram í viðbrögðum ráðherrans að hann hefur ekki skilið eitt einasta orð af þeirri gagnrýni sem við höfum sett fram. Það er grundvöllur fyrir skoðanaskiptum að menn skilji hvað verið er að tala um.

Ráðherrann nefndi að þessi lög yrðu endurskoðuð eftir tvö ár og ef til vill mundum við afnema þau lög ef við yrðum við stjórnvölinn. Ég ætla nú að benda á að oftast er miklu erfiðara að afnema eitthvað sem er komið í gang, eins og tveggja ára lög um slík réttindi, en að reyna að gera þetta vel í upphafi. En ég skynja að ráðherrann hefur fullkomlega skilið það sem ég sagði í upphafi ræðu minnar að miklar líkur væru á því að það yrðu stjórnarskipti eftir næstu kosningar.

Ég ætla að benda á eitt, af því að það kom fram að starfshópur yrði settur á laggirnar til að skoða aðstæður þýðenda, að nú væri ráð að skoða hvort kanna þyrfti sérstakar aðstæður annarra hópa sem líkt er ástatt fyrir þó þeir hafi ekki farið á fund ráðherra í ráðuneytinu, þannig að það sama gerist ekki og varð orsökin að þessu frv. eftir því sem okkur var sagt, að þessir þrír hópar hefðu verið háværastir og beitt sér mest fyrir því að tekið yrði á þeirra málum og þess vegna hefði verið lagt fram frv. um þrjá starfshópa.

Aðeins varðandi fjölskyldustefnuna þá legg ég áherslu á að alltaf hefur verið vilji til þess í félmn. að það mál yrði afgreitt fyrir vorið. Ég sýndi fram á hvaða mál það eru sem þrýst er á að fari hratt inn og út úr nefndum og hver mega bíða.

Virðulegi forseti. Við urðum að sjálfsögðu engu nær varðandi reglurnar um bændur.