Almenningsbókasöfn

Föstudaginn 02. maí 1997, kl. 14:59:24 (5732)

1997-05-02 14:59:24# 121. lþ. 115.3 fundur 238. mál: #A almenningsbókasöfn# (heildarlög) frv., SJóh
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur

[14:59]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Ég hef átt sæti í hv. menntmn. og átt þess kost að fjalla um þetta frv. þar og er að mörgu leyti mjög hlynnt því. Sérstaklega vil ég taka undir það með hv. þm. Sigríði Önnu Þórðardóttur, formanni nefndarinnar, sem hún sagði áðan um hlutverk almenningsbókasafna sem menningarmiðstöðva í byggðarlögum. Ég vil taka sérstaklega fram að ég er þeirrar náðar aðnjótandi að búa í Reykjanesbæ og þar er rekið afskaplega mikið fyrirmyndar almenningsbókasafn sem einmitt er menningarmiðstöð fyrir byggðarlagið. Einnig hefur þar verið komið fyrir tölvubúnaði og þar er mjög virkt starfsfólk í að hjálpa fólki við að ná upplýsingum af internetinu. Það er gaman að fylgjast með því hve aðsóknin að bókasafninu hefur aukist núna á undanförnum árum og þarna er alltaf fullt af fólki og lesturinn hefur aukist svo skiptir umtalsverðum bókafjölda á hverju einasta ári.

Þó eru nokkur atriði í þessu frv. sem ég var ekki fullkomlega sátt við. Ég vil fyrst tiltaka ákvæði um menntun bókavarða og þó sérstaklega forstöðumanna almenningsbókasafna í 8. gr. Þar stendur, með leyfi forseta:

,,Forstöðumaður almenningsbókasafns skal, ef þess er kostur, hafa lokið prófi í bókasafns- og upplýsingafræði eða jafngildu námi.``

Mér fannst þetta orðalag fullopið. Ég er samt þakklát formanni nefndarinnar fyrir að hafa aðeins hnykkt á því í nál. að með ,,jafngildu námi`` væri átt við BA-próf í hliðstæðum greinum við upplýsingafræði. Mér finnst samt ekki nógu fast að orði kveðið og reynslan sýnt að sótt hefur verið í að ráða stundum fólk með t.d. BA-próf í óskyldum greinum. Ég held að ef við ætlum að ná því fram sem markmiðsgrein laganna segir, þá þurfi alveg skýlaust að vera þarna, alla vega í forstöðumannsstarfi, fólk með próf í upplýsingafræði. Það kann að vera rétt að þess sé ekki alltaf kostur á að fá slíkt fólk til starfa. Þá fyndist mér að setja mætti inn grein um að ráða mætti tímabundið fólk sem ekki hefði þessa menntun. En mér finnst orðalagið, eins og það er þarna, fullopið.

Í 9. gr. er ákvæði um að framlög til almenningsbókasafna, þ.e. lágmarksframlög skuli ekki lengur ákveðin í lögum heldur skuli þau vera í fjárhagsáætlun sérhvers sveitarfélags. Ég vil minna á að í umsögnum sem bárust nefndinni voru fjölmargir sem höfðu áhyggjur af þessu ákvæði. Það á nú samt ekki við um Samtök sveitarfélaga því þau fögnuðu því sérstaklega að ekki skyldu lengur vera lögðbundin lágmarksframlög til bókasafna. En ég held að ýmsir deili með mér þeim áhyggjum að þetta kunni að reynast litlu söfnunum í hinum dreifðu byggðum erfitt. Það var erfitt að fá út þessi lágmarksframlög og margir óttast að enn erfiðara verði að fá framlög til bókasafnanna þegar lágmarksframlögin eru ekki lengur inni í lögum.

Síðasta athugasemdin sem ég hef við þetta frv. varðar 13. gr. laganna. En þar segir, með leyfi forseta:

,,Menntamálaráðherra skipar ráðgjafarnefnd um málefni almenningsbókasafna til þriggja ára í senn.``

Mér finnst í sjálfu sér ágætis fyrirkomulag að ráðgjafarnefnd verði skipuð en ég held að það þurfi að finna þessu traustari grundvöll ef þetta á að virka sem stefnumótandi miðstöð fyrir bókasöfnin í landinu. Vegna þess að það dugar ekki, það hafa dæmin sannað, að ráðgjafarnefndir komi í sjálfu sér með margar góðar hugmyndir, ef það er enginn sérstakur starfsmaður sem hefur það með höndum að koma þessum hugmyndum á framfæri. Það var af hálfu nefndarinnar rætt við fulltrúa Sambands ísl. sveitarfélaga hvort þeir væru tilbúnir til að skipa slíkan starfsmann sem mundi starfa fyrir þessa ráðgjafarnefnd og þeir vildu ekki taka það á sig. Þar sem ráðuneytið hyggst nú leggja niður embætti bókafulltrúa þá óttast maður mjög að þetta ráðgjafarhlutverk ráðuneytisins, þetta stefnumótandi hlutverk sem það á að hafa samkvæmt 12. gr. verði ekki í nógu föstu formi til að það virki.

Að öðru leyti, eins og ég sagði áður, er ég stuðningsmaður þessa frv. og mun veita því brautargengi á hinu háa Alþingi.