Almenningsbókasöfn

Föstudaginn 02. maí 1997, kl. 15:11:31 (5734)

1997-05-02 15:11:31# 121. lþ. 115.3 fundur 238. mál: #A almenningsbókasöfn# (heildarlög) frv., menntmrh.
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur

[15:11]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. menntmn. ágæta yfirferð yfir þetta mál. Það er ljóst af þeim tillögum sem hún leggur til að hún hefur grandskoðað frv. og einnig þakka ég þær umræður sem hafa farið fram.

Varðandi þá spurningu sem fyrir mig var lögð út af 8. gr. þar sem vísað er til jafngilds náms get ég ekki svarað með einu orði eða einni setningu. Það sem felst í greininni er hins vegar það sem er ljóst og hv. þm. hafa vakið máls á, að ekki er skylda að ráða einungis þá sem hafa lokið prófi í bókasafns- og upplýsingafræði. Það er það sem verið er að opna, að hafa það svigrúm sem felst í orðalaginu. Kröfurnar eru skýrar en ég get ekki tilgreint hvaða nám það er sem er jafngilt við bókasafns- og upplýsingafræði frekar en hv. síðasti þm. en þetta er greinin. Hún gefur þeim sem ráða forstöðumennina það svigrúm sem í orðalaginu felst. Að sjálfsögðu skil ég að menn vilji hugsanlega loka þetta alveg af og skuldbinda sig til að ráða einungis fólk með þessa menntun. En það er ekki tillaga mín í frv. og augljóst er að nefndin hefur einnig fallist í raun og veru á þá tillögu og þótt menn velti því fyrir sér hvað jafngilt nám sé, þá kann það að vera matsatriði á hverjum tíma miðað við það nám sem er í boði og þá menntun sem er í boði. Á þessu sviði fræðanna eru breytingarnar að verða hvað örastar eins og við vitum. Menn eru að þróa nýjar námsbrautir varðandi einmitt upplýsingatæknina og upplýsingafræðina þannig að það er kannski heldur ekki ráðlegt að binda sig við eitt skilgreint hugtak sem við þekkjum í dag þegar við ræðum um jafngilt nám eða fólk sem er hæft til að veita forstöðu þeim stofnunum sem við erum að tala um þegar við ræðum um almenningsbókasöfn og þróun þeirra og framvindu þegar fram líða stundir.

Að því er varðar spurninguna um ráðgjafarnefndina og afskipti ráðuneytisins þá vil ég aðeins láta þess getið að ráðgjafarnefndin hefur sjálfstætt hlutverk, eins og þarna kemur fram, sem umsagnaraðili fyrir ráðuneytið. Ég hef litið þannig á að það sé mjög mikilvægt fyrir ráðuneytið að hafa viðmælanda með þeim hætti sem þarna er mælt fyrir um sem getur verið ráðuneytinu til ráðuneytis um þessi sérfræðilegu málefni. Að leggja til að embætti bókafulltrúa sé lagt niður er liður í almennri stefnumörkun sem ég tel að ráði núna og eigi að ráða innan Stjórnarráðsins, að það eigi ekki að lögbinda einstök embætti innan ráðuneyta. Ráðuneyti starfa og sinna ákveðnum verkefnum og það er óþarfi að lögbinda að tiltekinn maður skuli sinna þessu verkefni frekar en einhverju öðru. Það er meginstefnan sem hér er mótuð en alls ekki verið að víkjast undan því að ráðuneytið sinni þessu. Ráðgjafarnefndin er hins vegar nýmæli sem gefur ráðuneytinu viðmælanda, faglegan viðmælanda, á þessu sviði sem ég tel að hafi skort og sé mjög brýnt. En ég lít alls ekki svo á að ráðuneytið sé að víkjast undan sínum faglegu og embættislegu skyldum með niðurlagningu bókafulltrúaembættisins. Þvert á móti lít ég þannig á að þar með sé verið að stíga það skref til fulls, þá verkaskiptingu sem er orðin í verki, og fella þetta að almennri starfsemi ráðuneytisins. Það muni frekar styrkja stöðu og samband bókasafnanna og ráðuneytisins en sú skipan sem er núna án þess að ég sé að hallmæla þeim sem hafa gegnt störfum bókafulltrúa nema síður sé. Ég held að þessi nýja skipan falli betur að þeim stjórnarháttum sem við höfum.