Viðurkenning á menntun og prófskírteinum

Föstudaginn 02. maí 1997, kl. 15:15:56 (5735)

1997-05-02 15:15:56# 121. lþ. 115.4 fundur 259. mál: #A viðurkenning á menntun og prófskírteinum# (flokkun starfsheita) frv., Frsm. SAÞ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur

[15:15]

Frsm. menntmn. (Sigríður A. Þórðardóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frv. til laga um breytingu á lögum nr. 83/1993, um viðurkenningu á menntun og prófskírteinum, með áorðnum breytingum frá menntmn.

Nefndin hefur fjallað um málið sem miðar að því að greiða fyrir framkvæmd tilskipana Evrópusambandsins um gagnkvæma viðurkenningu á menntun og prófskírteinum miðað við reynslu síðustu ára. Samkvæmt núgildandi lögum þarf að leita samþykkis Alþingis í hvert sinn sem viðaukum tilskipananna er breytt, en eðlilegra er talið að Alþingi veiti framkvæmdarvaldinu almenna heimild til að hrinda viðaukunum í framkvæmd. Þannig verði það skýrt tekið fram í lögunum að þau taki til allra breytinga sem kunna að verða gerðar á upptalningu starfa sem falla undir viðauka við tilskipanir 89/48EBE og 92/51/EBE. Nær frv. ekki til breytinga sem hugsanlega verða gerðar á þeim meginreglum sem gilda um viðurkenningu á menntun og prófskírteinum heldur eingöngu til breytinga á viðaukum við tilskipanirnar varðandi flokkun á starfsheitum.

Við lögfestingu EES-samningsins var talið mikilvægt að tryggja sem allra best lýðræðisleg vinnubrögð og þátttöku Alþingis í setningu þeirra EES-reglna sem gilda eiga hérlendis. Í því skyni setti forsætisnefnd reglur í febrúar 1994 um þinglega meðferð EES-mála á mótunarstigi. Er þar kveðið á um hlutverk utanrrn., utanríkismálanefndar og annarra fastanefnda Alþingis í samráðsferli um EES-mál. Menntmn. telur mikilvægt að samráðsvettvangur Alþingis og Stjórnarráðsins sé nýttur til að gera rækilega grein fyrir breytingum sem fyrirhugaðar eru á viðaukum, meðan þær eru á vinnslustigi.

Nefndin leggur einróma til að frv. verði samþykkt.