Bókasafnssjóður höfunda

Föstudaginn 02. maí 1997, kl. 15:18:19 (5736)

1997-05-02 15:18:19# 121. lþ. 115.5 fundur 330. mál: #A Bókasafnssjóður höfunda# frv., Frsm. SAÞ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur

[15:18]

Frsm. menntmn. (Sigríður A. Þórðardóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti og brtt. um frv. til laga um Bókasafnssjóð höfunda á þskj. 954, frá menntmn.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund ýmsa gesti ásamt að hafa fengið gagnlegar umsagnir um málið.

Frv., sem leysir af hólmi 11. gr. laga um almenningsbókasöfn, nr. 50/1976, gerir ráð fyrir að árlega verði veitt í fjárlögum ákveðin upphæð í Bókasafnssjóð höfunda sem úthlutað verði samkvæmt lögunum. Tækniframfarir auðvelda það að hægt sé að fylgjast með útlánum bóka. Í frv. er lögð til sú nýbreytni að ekki einungis rithöfundar fái úthlutað úr sjóðnum heldur fleiri sem eiga höfundaframlag í bók, þar með taldir þýðendur, myndhöfundar, tónskáld o.fl. Gerir frv. ráð fyrir að sjóðnum, sem leysir Rithöfundasjóð Íslands af hólmi, verði skipuð fimm manna stjórn sem úthluti úr honum. Skipta á framlaginu í tvennt, annars vegar verði um að ræða styrki til höfunda og hins vegar úthlutanir til rétthafa miðað við fjölda útlána bóka. Telur menntmn. mikilvægt að við úthlutun styrkja verði rétthöfum gert jafnhátt undir höfði.

Nauðsynlegt er að gera breytingu á gildistökuákvæði frv. þar sem nefndin leggur til að frv. til laga um almenningsbókasöfn verði afgreitt samhliða frv. þessu. Gert er ráð fyrir að ný lög um almenningsbókasöfn taki gildi 1. ágúst 1997, en lög um Bókasafnssjóð höfunda ekki fyrr en 1. janúar 1998. Þar til síðarnefndu lögin taka gildi er gert ráð fyrir að 14. gr. laga um almenningsbókasöfn gildi um Rithöfundasjóð Íslands.

Nefndin mælir einróma með samþykkt frv.