Helgidagafriður

Föstudaginn 02. maí 1997, kl. 15:28:39 (5739)

1997-05-02 15:28:39# 121. lþ. 115.7 fundur 31. mál: #A helgidagafriður# (heildarlög) frv., HjálmJ
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur

[15:28]

Hjálmar Jónsson:

Herra forseti. Til umræðu er hvíldardagslöggjöfin eða frv. til laga um helgidagafrið. Öll lög um frítíma frá vinnu eiga upphaf sitt í hvíldardagsboði biblíunnar. Spyrja má hins vegar hvort sú löggjöf hafi glatað merkingu sinni. Hún hefur ekki verið hreyfð í ein 70 ár, frá 1926 þegar heildarlög um helgidagafrið voru sett á Íslandi og vissulega tímabært að endurskoða þau.

Spurningin er hvort um er að ræða löggjöf sem hafi glatað merkingu sinni að öllu eða hvort þjóðinni sé nauðsynlegt að fá umgjörð um hvíldartíma af hendi löggjafans, hvort slík lög séu eðlilegur þáttur í samfélagsgerð sem grundvölluð er á kristnum gildum og kristnu samfélagi og jafnvel til marks um hið hefðbundna menningarmunstur sem meiri hluti þjóðarinnar vilji standa vörð um.

Ég vil gjarnan að það komi fram við umræðuna að það er ekki kirkjan í landinu sem biður um stranga helgidagalöggjöf. Það er ágætlega séð fyrir því í frv. sem hér er til 3. umr. að helgidagar þjóðkirkjunnar séu virtir og að ekki séu truflaðar guðsþjónustur eða það helgihald sem fram fer á sunnudögum. Sama gildir vissulega um páska, hvítasunnu og jól eins og fram hefur komið.

Varðandi brtt. frá hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni sem kemur fram núna fyrir 3. umr. þá er svo sem ekki mikið að segja. Breytingin er ekki stórvægileg og kirkjulega eða trúarlega finnst mér hún ekki skipta máli. Það fer ekkert helgihald fram aðfararnótt laugardags mér vitanlega, ekki í kirkjum landsins og satt að segja er búið að sjá ágætlega fyrir helgihaldinu yfirleitt hjá fólki um nónbil.

En hitt er annað mál, og það vildi ég ræða, að spurningin er miklu frekar um hvort ástæða er til að opna á skemmtanahald öll kvöld um páska. Ég er heldur mótfallinn því, ekki af trúarástæðum heldur af fjölskylduástæðum og vegna þess að gildismat mitt og vafalaust margra fleiri er þannig að ástæða sé til þess að nema örlítið staðar og nýta þá helgidaga sem gefast til íhugunar, hvíldar og kyrrðar auk þess auðvitað að sinna þeirri andlegu næringu sem er í boði. En sú breyting sem gerð er tillaga um á sérstöku þingskjali gerir hvorki til né frá. Ástæðan er sú að það er íþróttafólk á Vestfjörðum, skilst mér, sem kemur saman á skíðaviku og hefur áhuga fyrir því að dansa aðfararnótt laugardags. Eftir því sem ég hef komist næst byrjaði þetta þannig að fólk á skíðamóti á Ísafirði hafði hug á því að láta fara fram verðlaunaafhendingu á páskadagskvöldi en fara að dansa eftir miðnætti. Það var látið óátalið af löggæslunni. Svo breyttu þeir þessu yfir á föstudaginn langa að kvöldinu og það var líka látið óátalið en nú kemur tillaga um að taka þetta inn í lögin til að tryggja að fólk geti nú örugglega dansað á Vestfjörðum og annars staðar aðfararnótt laugardagsins.

Satt að segja finnst mér dálítið langt seilst og mér er spurn hvort ekki sé ástæða til fyrir fólk á ginnhelgum dögum að hafa aðrar viðmiðanir. Er ekki hægt að hafa annars konar skemmtanir nákvæmlega þá en sömu svaðilböllin og á venjulegum helgum? Það er hins vegar nokkuð sem ég geri ekki að stóru atriði. Þetta er ekki stór tillaga eða merkileg. Ég hygg hins vegar að vandræði okkar í þjóðfélaginu felist oft í því að við séum að skjóta okkur undan því að bera ábyrgð og líka að bera ábyrgð á ungu fólki, hvort það geti ekki verið kærkomið að hafa annars konar hátíðahald á stórhátíðum þjóðkirkjunnar t.d. nær trú og þeim siðum sem þá eru iðkaðir heldur en hafa sömu rúmhelgu böllin og vant er.

Varðandi hins vegar þetta með frítímann á helgidögum þjóðkirkjunnar, þá vil ég taka undir það sem kom fram í umsögn frá Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja þar sem svo segir orðrétt, með leyfi forseta:

,,Stjórn BSRB vill legja áherslu á að verslun og annarri þjónustustarfsemi séu settar starfsreglur í samráði við samtök launafólks. Verslunum er iðulega haldið opnum gegn vilja launafólks og eru samningar um vaktir og skiptingu vinnunnar alger forsenda þess að opnunartími sé rýmkaður. Þó að frídagar hafi verið að engu gerðir hjá sumum starfsstéttum er ástæða til að vara við því að sú þróun verði látin ná yfir allt þjóðfélagið. Að mati stjórnar BSRB er æskilegt að viðhalda sem flestum frídögum sem eru þjóðinni sameiginlegir og á það lögð áhersla að sem flestir launamenn njóti þeirra.``

Undir þessi orð stjórnar BSRB tek ég heils hugar. Hvíldardagurinn varð til vegna mannsins, til þess að hann gæti notið hvíldar frá vinnunni, en nú er svo komið og færist óðum lengra í þá átt að vissulega eru frídagar enn þá en 20--30% launamanna þurfa að vera að þjóna hinum til þess að þeir geti notið fríanna. Við þurfum að hugleiða hvort við viljum stefna í þá átt að helmingur þjóðarinnar sé að þjóna hinum helmingnum meðan hann er í fríi.

Við höfum líka verið að samþykkja reglur um vinnutíma frá EES og er ekki gott ef við göngum í hina áttina og leggjum niður alla lagavernd sem fólk hefur til þess að geta notið hvíldar. Þjóðfélagsbreytingarnar hafa líka verið þannig að það sem vinnan gerði áður var að sameina fjölskyldur í bændasamfélagi og sjávarþorpasamfélagi og tengja saman fjölskyldur en núna er það miklu fremur svo að vinna fullorðinna einangrar fjölskyldumeðlimina, einstaklingana. Við þurfum líka að hafa slíkt í huga og reyna að gæta þess að allir eigi frí saman.

Það var vissulega svo áður fyrr að t.d. í tíð Struensee í Danmörku var sjónarmiðið það að öll hvíld mundi auka á lesti og óráðsíu hjá almúganum og þess vegna voru helgustu hátíðirnar styttar. Frægt er að Struensee kom því í kring að jólin voru stytt úr þremur í tvo daga. Hann var sjálfur nokkru síðar gerður höfðinu styttri en það er ekki tengt þessari umræðu hér.

Við ættum hins vegar að hafa í heiðri þau gildi sem þjóðin hefur sýnt að hún vilji hafa og gæta þess að lögin sýni umhyggju fyrir fólki. Það er umhyggja fólgin í því að allir eigi frí á sömu tímum og við færum ekki þróunina í það að verslunareigendur og aðrir þeir sem stjórna viðskiptum í landinu og skemmtanahaldi ráði því hvernig kyrrð og hvíld sé háttað og gangi sífellt á þann rétt fólks almennt að njóta hvíldar og fría.

Herra forseti. Ég hef ekki meira um þetta að segja en vil geta þess að í skoðanakönnun fyrir tveimur árum var spurt, og þess getið í fjölmiðlum, hvort réttlætanlegt væri að banna skemmtanahald á páskum. Já sögðu 80% en nei 20%. Þetta sýnir í einhverju viðhorf og gildismat meðal þjóðarinnar og ólíkt er það þeim viðhorfum sem maður telur vera vegna þess að hávaðinn í þeim sem vilja yfirskyggja öll slík boð og ganga yfir þau eru svo hávær og sterk að það er eins og sjónarmið almennings sé annað en það í raun og veru er. Ég hygg að fólk vilji almennt að við stöndum vörð um helgi hvíldardagsins eins og verða má.