Stofnun jafnréttismála fatlaðra

Föstudaginn 02. maí 1997, kl. 16:10:23 (5746)

1997-05-02 16:10:23# 121. lþ. 115.10 fundur 230. mál: #A Stofnun jafnréttismála fatlaðra# þál., Flm. RG (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur

[16:10]

Flm. (Rannveig Guðmundsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrri tillögu til þál. um Stofnun jafnréttismála fatlaðra. Flm. að tillögunni eru Ásta B. Þorsteinsdóttir, Rannveig Guðmundsdóttir, Össur Skarphéðinsson og Jóhanna Sigurðardóttir.

Tillagan er um að Alþingi feli félmrn. að koma á fót Stofnun jafnréttismála fatlaðra og markmiðið er að tryggja það að fatlaðir njóti jafnréttis á við aðra þjóðfélagsþegna og að stofnunin geti með aðgerðum sínum dregið úr eða komið í veg fyrir mismunun fatlaðra og ófatlaðra.

Í tillögugreininni er tíundað hver skulu vera helstu verkefni Stofnunar jafnréttismála fatlaðra:

1. að skoða og meta hvaða samfélagslegir þættir skipta máli til að flýta fyrir jafnrétti fatlaðra og ófatlaðra,

2. að safna þekkingu á þjóðfélagsstöðu fatlaðra á hverjum tíma og afleiðingum fötlunar fyrir einstaklinga, fjölskyldur og þjóðfélagið þannig að á einum stað sé til nauðsynleg þekking og yfirsýn á þessum víðfeðma málaflokki,

3. að vera stjórnvöldum og stofnunum ráðgefandi, sem og fyrirtækjum eða einstaklingum sem leita til hennar eftir þekkingu eða ráðgjöf, svo að úrbætur í þágu fatlaðra verði markvissar og byggðar á nauðsynlegri þekkingu,

4. að fylgjast með setningu laga og reglugerða, kanna áhrif þeirra á hagi fatlaðra og benda viðkomandi stjórnvöldum á það ef áhrif eða afleiðingar lagasetninga leiða til mismununar eða skerðingar á lífskjörum fatlaðra,

5. að fylgjast með þróun mála, lagasetningu eða öðru sem snertir málaflokkinn annars staðar á Norðurlöndum, innan Evrópusambandsins sem og á alþjóðavettvangi og beita sér fyrir umræðu um þróun eða nýjungar og koma ábendingum þar að lútandi til stjórnvalda og hagsmunasamtaka fatlaðra,

6. að leita umsagnar heildarhagsmunasamtaka fatlaðra um mál sem fjallað er um,

7. að gefa Alþingi árlega skýrslu um stöðu fatlaðra í þjóðfélaginu.

Virðulegi forseti. Spyrja má af hverju tillaga sé sett fram um sérstaka stofnun. Ég vil leyfa mér að vísa í sérálit fulltrúa Landssamtakanna Þroskahjálpar með frv. sem kom inn á Alþingi á haustþinginu þegar verið var að breyta lögum um málefni fatlaðra. Þar var eindregið hvatt til þess að ábyrgð á þjónustu við fatlaða yrði færð til sveitarfélaganna, en það var einmitt eitt af meginatriðum frv., en að þeim skilyrðum uppfylltum að fjármagn fylgdi með. Ég rifja þetta upp vegna þess að það er grundvallaratriði.

Þá var líka nefnt í sérálitinu að réttindagæsla við fatlaða yrði styrkt og að ákveðin sérhæfð þjónusta, t.d. við fólk með fátíðar fatlanir, væri tryggð á landsvísu. Samtökin telja að forsendur fyrir því að verkefnatilfærsla gangi eftir til hagsbóta fyrir fatlaða og fjölskyldur þeirra sé að gengið verði frá þessum þáttum, t.d. með nýjum lögum um réttindagæslu fatlaðra á landsvísu. Þegar horft er til reynslu nágrannaþjóða okkar kemur skýrt í ljós að þetta voru þeir þættir sem ekki hafði verið gaumur gefinn fyrir flutning á þjónustu fatlaðra til sveitrfélaganna. Það reyndist verða reynsla Dana að yfirsýn yfir afleiðingar og samspil ýmissa aðgerða stjórnvalda var fyrir borð borin og mismununar í þjónustu milli einstakra sveitarfélaga eða milli hópa fatlaðra varð vart. Þeir hafa því komið á sérstakri jafnréttisstofnun til þess að vaka yfir réttindum og réttindagæslu á landsvísu. Í Svíþjóð hefur verið stofnað embætti umboðsmanns fatlaðra af sömu ástæðu. Og áður en þjónusta við fatlaða í Noregi var flutt til sveitarfélaga var skýrt skilgreint og um það sett lög og reglugerðir hvernig fara skyldi með sérhæfða þjónustu við fólk með fátíðar fatlanir. Í Finnlandi hefur þjónusta við fatlaða óheft verið flutt til sveitarfélaganna án þess að aðgát væri höfð á ofangreindum þáttum og afleiðingar þess hafa verið mjög alvarlegar, segir m.a. í séráliti fulltrúa Landssamtakanna Þroskahjálpar með frv. til laga um breytingu á lögum um málefni fatlaðra sem var til afgreiðslu í haust.

[16:15]

Það má líka spyrja hvar jafnréttisstofnun ætti heima ef það yrði niðurstaða okkar að við vildum setja á laggirnar Stofnun jafnréttismála fatlaðra sem ég vona að verði stuðningur við.

Virðulegi forseti. Ég geri mér grein fyrir að mjög seint er mælt fyrir þessu máli. Það er með lágt númer, þetta er 230. mál, en því miður hafa aðstæður gert það að verkum að hverju sinni sem það komst á dagskrá var það mjög aftarlega þannig að ekki náðist að mæla fyrir málinu fyrr á vetrinum. Það er því nokkuð sjálfgefið að þetta mál verður ekki til lykta leitt á þessu vori. Það sem þá verður hægt að gera er að senda það til umsagnar og freista þess að endurflytja það að hausti þó það sé auðvitað miklu verri kostur en ef þetta mál hefði komist tímanlega til nefndar og þess hefði verið freistað að ná um það samstöðu.

En það var spurning hvort ætti að vista þetta mál hjá félmrn. eða e.t.v. hjá forsrn. vegna þess að það snertir alla þætti lífs og flest ráðuneyti koma að því. Þetta er í raun sama umræða og kemur oft upp varðandi Jafnréttisráð. Því hefur verið velt upp hvort Jafnréttisráð ætti að vera hjá dómsmrn. vegna þess að jafnréttismál séu mannréttindi eða hvort það ætti að vera hjá forsrn. af því að jafnréttismálin snerta öll ráðuneyti en það hefur þó alltaf endað þannig að menn hafa talið að jafnréttismálin ættu að vera vistuð hjá félmrn., ráðuneyti félags- og sveitarstjórnarmála. Það varð einnig niðurstaða okkar flutningsmanna að leggja til að Stofnun jafnréttismála fatlaðra yrði vistuð í félmrn. þó það sé engan veginn sjálfgefið.

Virðulegi forseti. Hugmyndafræði og stefna í málefnum fatlaðra hefur tekið miklum breytingum á síðustu áratugum. Hver stefnan hefur leyst aðra af hólmi, lykilhugtökin á árunum 1970--1990 voru blöndun eða samskipan og komu þau í stað stofnanahugmyndafræðinnar. Nær alls staðar í hinum vestræna heimi er unnið að því að loka sólarhringsstofnunum fyrir fatlaða og ný og frjálsari búsetuúrræði hafa komið í þeirra stað. Margar merkar ákvarðanir og lagasetningar hafa vissulega breytt lífsskilyrðum fatlaðra hér á landi og í æ ríkari mæli hefur verið stuðlað að skipan þeirra við hlið ófatlaðra í þjóðfélaginu. Með margvíslegum hætti hefur því verið slegið föstu að málefni fatlaðra eru málefni samfélagsins alls og um úrlausnarefni málaflokksins ber að fjalla á þeim grundvelli.

Virðulegi forseti. Á alþjóðavettvangi hefur Ísland staðfest vilja sinn, m.a. með því að samþykkja viljayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna um mannréttindi fatlaðra frá 1975 og taka á nýjan leik undir stefnu Sameinuðu þjóðanna í málefnum fatlaðra með því að undirrita yfirlýsingu þeirra frá 1993: Grundvallarreglur um jafnrétti og jöfnun tækifæra fatlaðra. Skilningur hefur tvímælalaust aukist mjög meðal almennings og stjórnvalda á lífsskilyrðum fatlaðra en þrátt fyrir það er ljóst að enn er langt í að hinum fjölmörgu hindrunum hafi verið rutt úr vegi og að samfélagið geti talist vera fyrir alla.

Virðulegi forseti. Það er ljóst að hætta er á að þegar verkefni eru flutt frá ríki til sveitarfélaga sé ástæða til að óttast að yfirsýn glatist á afleiðingar og samspil ýmissa aðgerða stjórnvalda og að mismununar í þjónustu milli einstakra sveitarfélaga geti gætt. Það er því mjög mikilvægt að skoða hvernig þessi mál verða best tryggð. Samkvæmt þáltill. er gert ráð fyrir að sett verði á fót Stofnun jafnréttismála fatlaðra í því skyni að treysta enn betur réttindagæslu og réttaröryggi fatlaðra og til að tryggja það að á einum stað verði til nauðsynleg yfirsýn yfir málaflokkinn.

Grundvallarhugmyndafræði að Stofnun jafnréttismála fatlaðra er að öðlast þekkingu og stuðla að breytingum sem mega verða til þess að auka jöfnuð og jafna lífsskilyrði og fatlaðra og ófatlaðra. Með tillögu að slíkri stofnun er gengið út frá því að enn njóta fatlaðir ekki jafnréttis á öllum sviðum en einnig því að mismununin á sér ekki alltaf stað af ásetningi eða með skipulögðum hætti, miklu fremur sem afleiðing pólitískrar og fjárhagslegrar forgangsröðunar og skorti á yfirsýn eða þekkingu.

Virðulegi forseti. Það er gert ráð fyrir því að Stofnun jafnréttismála fatlaðara leiti eftir samráði við heildarhagsmunasamtök fatlaðra og umsagnar þeirra um mál sem stofnunin fjallar um. Er hér átt við Landssamtökin Þroskahjálp, Öryrkjabandalag Íslands eða einstök aðildarfélög þeirra. Innan Stofnunar jafnréttismála fatlaðra getur skapast þekking og yfirsýn sem þörf er á til að treysta enn frekar þróun í þá átt að fatlaðir megi á jafnréttisgrundvelli njóta sömu tækifæra í samfélaginu og aðrir. Stofnun jafnréttismála fatlaðra á einnig samkvæmt þessari tillögu að senda ár hvert skýrslu um lífskjör fatlaðra til Alþingis.

Virðulegi forseti. Ég á mér þann draum að Alþingi eigi eftir að samþykkja þessa tillögu þó ég geri mér grein fyrir að það er borin von að það gerist á þessu vori en að lokinni umræðu legg ég til að málinu verði vísað til félmn. og síðari umr.