Stofnun jafnréttismála fatlaðra

Föstudaginn 02. maí 1997, kl. 16:47:43 (5750)

1997-05-02 16:47:43# 121. lþ. 115.10 fundur 230. mál: #A Stofnun jafnréttismála fatlaðra# þál., Flm. RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur

[16:47]

Flm. (Rannveig Guðmundsdóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta hafa verið góð skoðanaskipti og þrátt fyrir að formaður Alþb. hafi verið með efasemdir um nákvæmlega þá leið sem við viljum fara til að tryggja réttindagæslu fatlaðra þá heyri ég að samhljómur er í okkar skoðunum um mikilvægi þess að standa vörð um þessi réttindi. Við gerum okkur báðar grein fyrir því að það er veitt mismunandi þjónusta ekki bara vegna smæðar sveitarfélaga heldur líka vegna pólitískra áherslna í stærri sveitarfélögum. Það er alveg ljóst að tekjustofnar verða að fylgja með frá ríki til sveitarfélaga til að tryggja þjónustu fatlaðra hjá sveitarfélögunum. Ég tek líka undir það að við erum á eftir varðandi geðfatlaða þó tekið hafi verið mjög á í þeim málum.

Það er mjög mikilvægt að gera sér grein fyrir að svæðisskrifstofurnar verða ekki eftirlitsaðili vegna þess að þær verða ekki starfandi þegar þessi mál fara til sveitarfélaganna. Það vill svo til að ég hef farið í heimsókn í svæðisskrifstofu Suðurlands og heimsótt allar stofnanirnar þar. Þær voru til fyrirmyndar og það var mjög til umhugsunar. Ég get þess vegna tekið undir orð Margrétar Frímannsdóttur. Ég legg náttúrlega áherslu á að umboðsmaður fatlaðra er óþarfur ef jafnréttisstofnun fatlaðra er sett á lagginar og það er niðurstaða okkar að það sé betri kostur.

Ég vil líka nefna að þessi tillaga er til þess fallin að standa vörð um réttindi fatlaðra og væntanlega mun slík stofnun gegna miklu víðtækara hlutverki gagnvart einstaklingnum og annars eðlis en umboðsmaður Alþingis hefur gagnvart íbúunum.