Tvöföldun Reykjanesbrautar

Föstudaginn 02. maí 1997, kl. 16:51:25 (5752)

1997-05-02 16:51:25# 121. lþ. 115.13 fundur 402. mál: #A tvöföldun Reykjanesbrautar# þál., Flm. ÁRÁ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur

[16:51]

Flm. (Árni R. Árnason):

Herra forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um tvöföldun Reykjanesbrautar á þskj. 698, sem hefur legið frammi um nokkurt skeið.

Flutningsmenn tillögunnar eru allir þingmenn Reykn.

Tillagan er svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Alþingi ályktar að fela samgönguráðherra að láta nú þegar hefja nauðsynlegan undirbúning að tvöföldun Reykjanesbrautar frá Hafnarfirði að Flugstöð Leifs Eiríkssonar, með lagningu nýrrar akbrautar við hlið þeirrar sem fyrir er þannig að Reykjanesbraut verði með aðskildum akstursstefnum og tveimur akreinum til hvorrar áttar.``

Ég tel mikilsvert að þingmenn kjördæmisins hafa allir orðið sammála um að standa að og flytja þetta mál sem sér nú dagsins ljós í sjöunda sinn á Alþingi, en hefur áður verið flutt af nokkrum af þingmönnum kjördæmisins hverju sinni.

Það er rétt að geta þess, herra forseti, að þær endurbætur sem hafa farið fram og nú er að ljúka á Reykjanesbrautinni, þar á meðal lýsing hennar eru framkvæmdar samkvæmt áformum og ákvörðunum og framkvæmdaáætlun sem ákveðin var fyrir nokkrum árum. Þeirri áætlun er um það bil að ljúka. Athuganir hafa farið fram á þeim ávinningi sem hefur orðið fyrir öryggi umferðar og verður að segjast að þó hann sé nokkur og mælanlegur þá er hann ekki nægur til að ná því marki sem að var stefnt. Til að mynda er það svo að enn þá er á Reykjanesbrautinni miklu meira um umferðaróhöpp og slys en á Suðurlandsvegi sem á margan hátt má telja sambærilegan þjóðveg, sérstaklega ef tillit er tekið til mismunar á umferðarþunga.

Það er merkilegt, herra forseti, og að því er vikið í greinargerðinni, að fyrir fáeinum árum töldu sveitarstjórnarmenn á Suðurnesjum að ekki væri ástæða til að þessi framkvæmd yrði forgangsverkefni. En nú aðeins fáum árum síðar eru þeir annarrar skoðunar. Ég ætla ekki að rekja hverjir þar hafa komið að máli en það er auðvelt þegar litið er til þeirra funda sveitarstjórnarmanna á Suðurnesjum sem hafa látið frá sér heyra og sent þingmönnum ályktanir. En vel má nefna að hin fyrri ályktun þeirra árið 1992 varð til þess að Alþingi taldi sér þá ekki fært að veita þessu máli brautargöngu í bága við álit sveitarstjórnarmanna á svæðinu sem töldu það þá ekki forgangsverkefni. Svo merkilegt sem það er þá segir í síðari ályktun þeirra að tvöföldun Reykjanesbrautar sé nú forgangsverkefni umfram nokkur þeirra sem þá fyrr voru talin. Eru þar flestir sveitarstjórnarmenn hinir sömu.

Á Suðurnesjum er og er að verða umtalsverð aukning og uppbygging sem mun taka til flestra helstu atvinnuvega landsmanna. Nú þegar hafa flugsamgöngur um Keflavíkurflugvöll aukist mikið. Auðvelt er að rekja að á síðustu árum hafa farþegar um Keflavíkurflugvöll sem nær allir fara um Reykjanesbraut numið nálægt einni millj. farþega á ári. Svo hefur verið allt frá árinu 1995. Tugir þúsunda tonna af vörum eru einnig fluttar um Reykjanesbrautina. Álykta má að daglegir notendur brautarinnar nemi um það bil 20.000 manns, auk hins mikla fjölda ferðamanna og að ótöldum fyrrgreindum flutningum á vörum og pósti.

Það er ljóst, herra forseti, að kostnaður við þessar framkvæmdir á Reykjanesbraut verður umtalsverður. Í janúar 1992 var hann gróflega áætlaður um 1,5 milljarðar kr. en ekki verður nær því komist nema með nokkrum undirbúningi og meiri athugunum. Þess vegna er það að við þingmenn kjördæmisins leggjum til að þegar verði hafinn undirbúningur að þessari framkvæmd og ætlun okkar er að tillagan leiði til þess að, þegar kemur að umfjöllun okkar og annarra um vegaframkvæmdir í Reykjaneskjördæmi að loknum þeim sem þegar hafa verið ákveðnar, þá verði teknar upp umræður um þetta og önnur verkefni sem mikilvæg eru á næstu árum í vegagerð fyrir þennan landshluta.

Byggðaþróun á Suðurnesjum er með nokkuð öðrum hætti en á öðrum grannsvæðum höfuðborgarsvæðisins. Með raun réttri er það svo að byggðaþróun þar líkist sífellt meir þeirri sem er úti á landsbyggðinni fjær höfuðborgarsvæðinu. Á Suðurnesjum eru möguleikar og kostir nokkruð aðrir, sem m.a. merkjast af staðsetningu okkar eina alþjóðaflugvallar og nábýli hans við afkastamiklar og vel búnar fiskihafnir. Á flugvellinum hefur verið aukin þjónustu til að mynda við Flugleiðir, við farþegaflug þeirra og þá starfsemi sem Flugleiðir starfrækja þar nú í geysistóru flugskýli. Þjónusta við smáflugvélar hefur farið vaxandi og þjónusta við ferjuflug er í uppbyggingu. Ásamt vaxandi þátttöku og umsvifum Íslendinga í ferðaþjónustu er ljóst að á Suðurnesjum verður hlutfall ferðaþjónustu einnig vaxandi og jafnvel hlutfallslega meira en í sumum öðrum landshlutum.

Einkenni umferðar um Reykjanesbraut eru nokkuð ólík því sem gerist á öðrum þjóðvegum landsmanna. Til að mynda er næturumferð þar meiri en á nokkrum öðrum þjóðvegi, svo og meiri þungaumferð. Þetta hvort tveggja gerir það að verkum að ástæða er til að byggja brautina upp öðruvísi en annars staðar og jafnvel að meta arðsemi framkvæmdanna með tilliti til þunga umferðar með öryggismarkmið að leiðarljósi. Eins þarf að gæta þess að þessi vegur var uppbyggður miðað við tæknigetu og sjónarmið sem ekki eru lengur viðhöfð og til að mynda má sjá í gerð vegarbrúna og brautarinnar sjálfrar.

Virðulegi forseti. Í greinargerðinni er getið margvíslegra röksemda fyrir þessari framkvæmd, m.a. þeirrar að fram undan er margvísleg og mikilvæg uppbygging á Suðurnesjum. Hún mun greinilega leiða til enn vaxandi umferðar um Reykjanesbrautina og þess vegna verður enn meiri ástæða en nú til að bæta öryggi umferðar og auka flutningsgetu Reykjanesbrautar.

Ég vil að lokum, herra forseti, leyfa mér að mæla með því að málið fái athugun í hv. samgn. Alþingis og verði vísað til síðari umræðu.