Bann við kynferðislegri áreitni

Föstudaginn 02. maí 1997, kl. 17:16:38 (5756)

1997-05-02 17:16:38# 121. lþ. 115.15 fundur 422. mál: #A bann við kynferðislegri áreitni# (breyting ýmissa laga) frv., Flm. GGuðbj (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur

[17:16]

Flm. (Guðný Guðbjörnsdóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um bann við kynferðislegri áreitni, samanber þskj. 726.

Fyrr á þessu þingi var ég 1. flm. að þáltill. um aðgerðir gegn kynferðislegri áreitni. Það mál er nú til meðferðar í allshn. þingsins og hefur hlotið mjög góðar undirtektir hjá þeim sem fengu það til umsagnar. Það voru m.a. Bandalag háskólamanna, Kvenréttindafélag Íslands, biskup Íslands, Kvenfélagasamband Íslands, Háskóli Íslands, jafnréttisráðgjafinn í Reykjavík, Kvennaráðgjöfin, Alþýðusamband Íslands, Vinnueftirlit ríkisins, Kvennaathvarfið, Stígamót, Barnaverndarstofa, Bandalag starfsmanna ríkis og bæja, Skrifstofa jafnréttismála og barnaverndarráð. Allir þessir aðilar mæla með því að sú þáltill. verði samþykkt og því geri ég mér enn vonir um að svo verði.

Þáltill. gengur út á það að ríkisstjórnin skipi nefnd sem beiti sér fyrir að skipulega verði brugðist við kynferðislegri áreitni á vinnustöðum og að skipuleggja fræðslu um slíka áreitni. Hér er aftur komið annað þskj. sem er frv. til laga um bann við kynferðislegri áreitni. Það má vel vera að einhver velti fyrir sér hvort þörf sé á slíkum lagabálki. En því má velta fyrir sér að í nágrannalöndunum er ljóst að það virðist vera mun algengara en hér að stofnanir hafa komið sér upp skýrum vinnureglum um þetta mál og ég tel að að hluta til megi skýra það með mismunandi löggjöf um þetta efni. Hér á landi hefur kynferðisleg áreitni verið refsiverð samkvæmt almennum hegningarlögum frá árinu 1992 en hvergi annars staðar er að finna umræðu eða bann við kynferðislegri áreitni. Þetta frv. er því hugsað þannig að það verði tekið á þessu beint í jafnréttislögunum og í lögunum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum frá árinu 1980. Einnig er markmiðið að skilgreining á hugtakinu kynferðisleg áreitni komi inn í lagatextann. En það er einmitt það sem að er stefnt með þessu frv.

Auk mín eru flm. þessa lagafrv. hv. þm. Bryndís Hlöð\-vers\-dóttir, Hjálmar Árnason, Hjörleifur Guttormsson, Kristín Ástgeirsdóttir, Kristín Halldórsdóttir, Ásta R. Jóhannesdóttir og Össur Skarphéðinsson. Það er vert að vekja athygli á því að það eru bæði karlar og konur sem flytja þetta mál enda er þetta mannréttindamál sem varðar alla.

Hugmynd okkar flm. er sú að lögfesting af því tagi sem hér er lögð til muni flýta fyrir því að fyrirtæki og stofnanir komi sér upp skýrum starfsreglum eða farvegi fyrir ákærur um kynferðislega áreitni, eins og reyndin hefur verið í Svíþjóð, Bandaríkjunum og víðar. Einnig að þetta muni hafa fyrirbyggjandi áhrif. Það er sem sagt hugmyndin.

Ef ég fer aðeins yfir frv. sjálft þá er því skipt í þrjá kafla. Fyrsti kaflinn er tillaga um breytingu á lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla frá 1991 og 1. gr. hljóðar svo:

Á eftir 5. gr. laganna kemur ný grein, svohljóðandi, og breytist töluröð annarra greina til samræmis við það:

Kynferðisleg áreitni á vinnustað og í skóla er bönnuð. Atvinnurekendur og yfirmenn skulu gera sérstakar ráðstafanir til að tryggja að starfsfólk og nemar verði ekki fyrir kynferðislegri áreitni eða annarri ósæmilegri framkomu á vinnustað eða í skólum.

Og síðan kemur skilgreining á kynferðislegri áreitni og lagt til að sú skilgreining verði í lagatextanum:

Kynferðisleg áreitni er óvelkomin kynferðisleg hegðun sem skapar auðmýkjandi eða fjandsamlegar aðstæður til vinnu, náms eða félagslegrar samvinnu, hvort sem hún er líkamleg, orðbundin eða myndræn. Kynferðisleg áreitni felur í sér samskipti sem einkennast af misnotkun á valdi, styrkleika eða stöðu og er haldið áfram þrátt fyrir að gefið sé skýrt til kynna að viðkomandi hegðun sé óvelkomin.

2. gr. frv. varðar breytingu á sömu lögum, þ.e. jafnréttislögunum, en hún hljóðar svo:

Á eftir 13. gr. laganna (sem verður 14. gr.), í lok IV. kafla, kemur ný grein, svohljóðandi, og breytist töluröð annarra greina til samræmis við það:

Vinnuveitendum, yfirmönnum, samstarfsmönnum og kennurum er óheimilt að láta kvartanir starfsfólks eða nema um kynferðislega áreitni eða kynjamismunun bitna á starfi þeirra eða námi, starfsöryggi, starfskjörum eða mati á árangri í starfi eða námi.

Þarna er verið að leggja áherslu á það að málarekstur af þessu tagi innan stofnana bitni ekki á viðkomandi aðilum.

II. kafli frv. er tillaga að breytingu á lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum frá árinu 1980. Og það er 3. gr. þessa frv. sem fjallar um það og hún hljómar svo:

C-liður 65. gr. laganna orðast svo: stuðla að andlegri og líkamlegri vellíðan starfsmanna. Ákvæði þetta á m.a. við bann við kynferðislegri áreitni og annarri ósæmilegri framkomu sem beinist að kynferði einstaklinga.

III. kafli frv. er gildistökuákvæði og er þá 4. gr. og segir: Lög þessi öðlast þegar gildi.

Við gerð þessa frv. hefur verið haft samráð bæði við Skrifstofu jafnréttismála og starfsfólk hjá Vinnueftirliti ríkisins og kann ég því fólki mínar bestu þakkir. Einnig hef ég skoðað sambærilega löggjöf erlendis frá.

Í grg. er bent á ýmislegt sem er eins konar rökstuðningur fyrir lagabreytingum af þessu tagi. Þar segir m.a.: ,,Kynferðisleg áreitni hefur verið mikið til umfjöllunar bæði í Evrópu og Bandaríkjunum. Flest aðildarríki Evrópusambandsins hafa gripið til ráðstafana á þessu sviði, svo sem lagasetningar, fræðsluherferðar eða leiðbeinandi reglna fyrir vinnustaði og menntastofnanir. Í Belgíu, Hollandi og Frakklandi hafa verið sett sérstök lög um kynferðislega áreitni og slík löggjöf er nú í undirbúningi í Austurríki og Hollandi. Í Svíþjóð og nokkrum öðrum Evrópuríkjum eru ákvæði um kynferðislega áreitni í jafnréttislögum og/eða í lögum um vinnuvernd, t.d. í Noregi. Innan Evrópusambandsins er nú unnið að sérstakri tilskipun um kynferðislega áreitni sem væntanlega mun einnig taka til Evrópska efnahagssvæðisins.`` Og væri nú kannski tækifæri að vera einu sinni á undan og koma fyrst með æskilegar lagabreytingar hér en að þurfa að breyta okkar löggjöf í kjölfar þrýstings frá Evrópusambandinu.

Í grg. er jafnframt bent á það að í 6. gr. laga um jafnan rétt og jafna stöðu kvenna og karla segir að atvinnurekendum sé óheimilt að mismuna starfsfólki eftir kynferði og gildir það m.a. um vinnuaðstæður og vinnuskilyrði. Kærunefnd jafnréttismála hefur túlkað þetta ákvæði þannig að atvinnurekanda beri að sjá til þess að kynferðisleg áreitni viðgangist ekki á vinnustað. Í sænsku jafnréttislöggjöfinni eru hins vegar skýr ákvæði um kynferðislega áreitni, sbr. 6. og 22. gr. sænsku jafnréttislaganna, sem hefur orðið til þess að stofnanir hafa í vaxandi mæli sett sér starfsreglur um það hvernig beri að stemma stigu við og taka á kynferðislegri áreitni. Í þessu sambandi vil ég sérstaklega geta þess að háskólinn í Stokkhólmi brást mjög skjótt við þegar þessi lög voru sett. Eftir að reglurnar voru orðnar svona skýrar og allir vissu hvernig þeir áttu að taka á sínum málum, þá hafa varla komið upp mál um kynferðislega áreitni í þessum sænska háskóla. Það er viðurkennt að skýrar reglur og skýr lög um þessi mál eru í sjálfu sér fyrirbyggjandi.

Það er mitt mat að það þyki ekki nauðsynlegt, eins og kemur fram í grg., að svo stöddu að setja sérstaka löggjöf um kynferðislega áreitni hér á landi, en tímabært sé að setja ákvæði um kynferðislega áreitni í jafnréttislög og í vinnuverndarlöggjöfina eins og hér er lagt til. Í Svíþjóð og Noregi hefur slík lögfesting haft þau áhrif að stofnanir hafa orðið að taka á þessum málum af meiri festu en áður og þegar slík ákvæði hafa verið lögfest verður brýnt að stofnanir komi sér upp skipulagðri meðferð eða leiðbeinandi starfsreglum fyrir mál af þessum toga og að markviss fræðsla verði í boði.

Kynferðisleg áreitni var gerð refsiverð, eins og sagði hér fyrr, með breytingu á 198. gr. almennra hegningarlaga, 1992, en þar er ekki að finna né í grg. með þeirri lagabreytingu neina skilgreiningu á kynferðislegri áreitni. Mér hefur bent á það m.a. af lögfræðingum að það rýri gildi þessa ákvæðis almennu hegningarlaganna að ekki skuli vera til nein skýr skilgreining sem hægt er að styðjast við t.d. í dómum og annars staðar. Þess vegna lögðum við mikla áherslu á það að slík skilgreining kæmi í það frv. sem hér er um að ræða. Ekki er gerð tillaga hér um að breyta þessu ákvæði almennra hegningarlaga þar sem rétt þykir að fá meiri reynslu á hvernig það nýtist. Þær lagabreytingar sem hér eru lagðar til munu hins vegar skilgreina kynferðislega áreitni frekar og væntanlega verður sú skilgreining þá lögð til grundvallar skýringu og túlkun þessa ákvæðis almennra hegningarlaga.

[17:30]

Frá árinu 1992 hefur lítið reynt á 198. gr. hegningarlaganna. Nýlega hafa þó fallið tveir dómar um kynferðislega áreitni. Athyglisvert er að í báðum dómunum er um karlmenn að ræða, þ.e. karlmenn að áreita karlmenn. Það er athyglisvert vegna þess að allar tiltækar kannanir benda til að konur verði mun oftar fyrir kynferðislegri áreitni en karlar.

Kynferðisleg áreitni hefur neikvæð áhrif á andlega og líkamlega heilsu einstaklingsins, sjálfsvirðingu hans og sjálfsímynd. Í skilgreiningunni á kynferðislegri áreitni sem sett er fram í 1. gr. frumvarpsins er áhersla lögð á það megineinkenni kynferðislegrar áreitni að hegðunin er óvelkomin. Það er því mat einstaklingsins sem ræður því hvaða hegðun er viðurkennd og hvaða hegðun er óvelkomin. Kynferðisleg hegðun verður áreitni ef henni er haldið áfram þrátt fyrir að gefið hafi verið skýrt til kynna að hún sé óvelkomin. Þó getur eitt tilvik talist kynferðisleg áreitni ef það er nægilega alvarlegt.

Rannsóknir í háskólum á Norðurlöndum og í Bandaríkjunum benda til að 10--20% kvenna verði fyrir kynferðislegri áreitni í háskólum, en allt upp í 40% þegar um æðri námsgráður er að ræða. Meðal karla eru tölurnar töluvert lægri. Samkvæmt könnun jafnréttisnefndar Helsinki-háskóla árið 1995 töldu 10,8% starfsfólks og 5,5% stúdenta sig hafa orðið fyrir kynferðislegri áreitni. Af þeim voru 78% starfsfólksins og 70% stúdentanna konur.

Bandarískar rannsóknir á vinnustöðum benda almennt til að um 40% kvenna og um 15% karla verði fyrir kynferðislegri áreitni á vinnustöðum en evrópsku tölurnar eru almennt töluvert lægri eða 10--20% meðal kvenna. Skýringarnar á þessum mun eru að hluta til menningarlegar, en einnig getur verið um mismunandi skilgreiningar að ræða.

Í framkvæmdaáætlun til fjögurra ára um jafnrétti kynjanna frá árinu 1993 er gert ráð fyrir að í vinnuverndartilgangi verði staðið að könnun á kynferðislegri áreitni á vinnustöðum á Íslandi og umfangi hennar. Á grundvelli könnunarinnar og þeirrar þekkingar, sem liggur fyrir hjá öðrum þjóðum, verði unnið markvisst að því að sporna gegn kynferðislegri áreitni á vinnustöðum. Þessi könnun hefur nú verið gerð og ekki þykir ástæða til að bíða lengur með að lögfesta bann við og skilgreiningu á kynferðislegri áreitni eins og hér er lagt til.

Umræðan í þjóðfélaginu bendir ótvírætt til að töluvert vanti á að fólk skilji að kynferðisleg áreitni er einelti og mannréttindabrot sem ekki á að líða, hver sem í hlut á. Flest nágrannalanda okkar hafa brugðist markvisst við og í frv. er lagt til að svo verði einnig gert hér.

Herra forseti. Ég vil að lokum upplýsa þingheim og þjóðina um að þó sú umræða sem hefur verið í þjóðfélaginu undanfarið ár eða svo hafi oft kallað fram bæði tortryggileg viðbrögð og efasemdir þá er það reynsla mín að fólk átti sig mjög fljótlega á að hér er um mjög þarft mál að ræða og áðurnefndar umsagnir um fyrirliggjandi þingsályktunartillögu um þessi mál sýni svo ekki verður um villst að full þörf er á að tekið sé á þessu máli og að flestar þær stofnanir sem áður voru taldar eru sammála um að það beri að taka á þessum málum með festu. Þetta er mannréttindamál, jafnréttismál og vinnuverndarmál sem ber að taka á með fullri festu. Í þeim tilgangi er þetta frv. flutt. Þó ekki sé mikill tími eftir af þessu þingi og málið búið að bíða nokkuð marga mánuði áður en náðist að mæla fyrir því þá geri ég mér vonir um að það verði sent út til umsagnar og að það geti flýtt fyrir afgreiðslu þess eða sambærilegra lagabreytinga á næsta þingi.