Félagsleg aðstoð

Föstudaginn 02. maí 1997, kl. 17:56:40 (5760)

1997-05-02 17:56:40# 121. lþ. 115.16 fundur 425. mál: #A félagsleg aðstoð# (heimilisuppbót) frv., GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur

[17:56]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég vil sömuleiðis þakka hv. flm. Ástu R. Jóhannesdóttur fyrir þetta frv. og tek undir efnisatriði þess um leið og ég vil vekja athygli á því sem við kvennalistakonur höfum margoft reifað að það er að okkar mati mun skynsamlegra að hugsa, hvort sem það er skattkerfið eða kerfið um félagslega aðstoð, út frá einstaklingum í mun meira mæli en hér er gert. Ég vonast svo sannarlega til þess að sá hópur sem nú er að endurskoða þessi lög hugsi dæmið mikið til upp á nýtt. Það er mjög mikið um hjónaskilnaði og alls konar breytingar á fjölskyldum og það er óviðunandi að það sé löggjöf sem stýrir því hvaða sambúðarform fólk velur. Ég tel að þetta sé enn eitt dæmið um hvernig sambúðarform er notað til þess að skerða, í þessu tilfelli heimilisuppbót, og þetta á við um svo margar hliðar á samfélagi okkar. Ég vil beina því til þessa hóps að það er ekki endalaust hægt að plástra gildandi lög. Það verður að taka allt þetta kerfi til gagngerrar endurskoðunar.

Þau dæmi sem hér voru nefnd eru náttúrlega mjög góð um það hvers konar ógöngur þetta kerfi er komið í. Og ég vil þá ítreka um leið og ég læt í ljós vonbrigði með að í hvert skipti sem hér er hreyft mikilvægum réttlætismálum er alltaf nefnt að heildarlöggjöf sé í endurskoðun. Svo líður og bíður og ekkert gerist. Þetta á við almennu hegningarlögin, þetta á við margs konar lög um félagslega þjónustu og ég tel alveg augljóst mál að ríkisstjórnin má aldeilis herða róðurinn til þess að hugsa þessi mál öll upp á nýtt. Það hlýtur að vera grundvallarkrafa í velferðarþjóðfélagi að fólkið, hvort sem það eru bótaþegar, öryrkjar, atvinnulausir eða fólk með lægstu laun, hafi viðunandi framfærslu. Og það t.d. að tveir öryrkjar flytjist saman eða atvinnulaus kona eignist barn verði til þess að heimilisuppbót skerðist er alveg óviðunandi.