Skýrsla um innheimtu vanskilaskulda

Mánudaginn 05. maí 1997, kl. 15:12:20 (5767)

1997-05-05 15:12:20# 121. lþ. 116.92 fundur 311#B skýrsla um innheimtu vanskilaskulda# (aths. um störf þingsins), SJóh
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur

[15:12]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Skýrslan fjallar hins vegar, hæstv. forseti, um það sem á að heita svar við 3. lið skýrslubeiðninnar, sem sagt þar sem spurt er hvort það hafi orðið hækkun á þessari þjónustu lögmanna umfram almenna verðlagslagsþróun. Og þegar rakin hefur verið mikil sorgarsaga sem endaði með því að Samkeppnisstofnun hafnaði því að það væri hægt að gefa út viðmiðunargjaldskrá lögmanna, þá er hér sagt að það hafi yfirleitt ekki leitt til hækkunar svo að almenna ályktun megi draga af því. Hins vegar sé ljóst að í einangruðum tilvikum kunni lögmenn að gera skuldara að greiða sér óeðlilega háa þóknun.

Ég verð að segja að mér finnst það frekar slæmt mál ef þetta svar Samkeppnisstofnunar um að ekki megi leyfa viðmiðunargjaldskrá opinberra lögmanna á Íslandi hefur leitt það af sér að einstakir óprúttnir lögmenn kunna að hafa veiðileyfi á það fólk sem hefur lent í ógöngum með fjármál sín. Ég verð að segja að ef málið er í þeim farvegi þá held ég að ekki bara dómsmrn. heldur öll ríkisstjórnin þurfi að taka á honum stóra sínum og koma þessu máli í það horf að það verði einhver lög um þetta hér á landi eins og annars staðar. Það stendur reyndar hér að slík sé löggjöf fyrir hendi í Noregi. Það mætti kannski taka mið af henni. Og e.t.v. hefði eftir þessa nákvæmu og viðamiklu rannsókn, sem fór fram áður en þessi skýrsla var gerð, mátt afla þeirrar gjaldskrár, herra forseti.