Hvalveiðar

Mánudaginn 05. maí 1997, kl. 15:15:52 (5769)

1997-05-05 15:15:52# 121. lþ. 116.1 fundur 302#B hvalveiðar# (óundirbúin fsp.), GÁS
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur

[15:15]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Virðulegi forseti. Vakið hafa athygli ákaflega misvísandi yfirlýsingar ráðherra þessarar ríkisstjórnar á umliðnum dögum um hvalamálið og nauðsynlegt er að skýr svör fáist við nokkrum þeim spurningum sem vaknað hafa í því sambandi. Því spyr ég hæstv. forsrh.: Hvenær er að vænta einhverrar ákvörðunar í þessum efnum?

Ég spyr hann enn fremur: Er hæstv. forsrh. sammála yfirlýsingum hæstv utanrrh. sem hann hefur orðað þannig: ,,Það er ekki spurning hvort heldur hvenær hvalveiðar hefjist``, og eru raunar samhljóða yfirlýsingum hæstv. sjútvrh. frá því fyrir ári síðan. Er hæstv. forsrh. samþykkur þessum yfirlýsingum?

Í þriðja lagi spyr ég hæstv. forsrh. hvort hann telji að fullkomið aðgerðaleysi af hálfu íslenskra stjórnvalda í þessum efnum muni styrkja okkar málstað á alþjóðlegum vettvangi og í samskiptum við þær umhverfisverndarhreyfingar sem þarna hafa átt hlut að máli. Eða telur hann fremur að skýr afstaða stjórnvalda hér á landi muni gera það?

Hæstv. forsrh. sagði á fundi sl. laugardag að stuðningsmenn hvalveiða á hinu háa Alþingi þyrftu að tala skýrar. Hann spurði m.a. hvar væri að finna markaði fyrir hvalkjöt. Er mat hæstv. forsrh. að það sé verkefni hv. þingmanna að stunda markaðsrannsóknir og sölustarfsemi fyrir einstaka útflytjendur sjávarnytja eða annarra útflutningsafurða hérlendis? Og í framhaldi af því: Er það þar með álit hæstv. forsrh. að ekkert hafi verið að marka yfirlýsingar hæstv. sjútvrh. frá sl. hausti þegar hann kvað upp úr með það að markaði fyrir hvalkjöt væri að finna í Japan?

Það eru spurningar á borð við þessar sem hæstv. forsrh. og ríkisstjórnin öll hlýtur að verða að svara hinu háa Alþingi.