Hvalveiðar

Mánudaginn 05. maí 1997, kl. 15:20:35 (5771)

1997-05-05 15:20:35# 121. lþ. 116.1 fundur 302#B hvalveiðar# (óundirbúin fsp.), GÁS
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur

[15:20]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Virðulegi forseti. Ég fagna því að það skuli þó alltént vera samkomulag í ríkisstjórninni um það að ekki er spurt hvort heldur hvenær. Í annan stað hlýt ég að ganga eftir því, í ljósi síðustu orða hæstv. forsrh., hvort markaðsmálin séu lykilatriðið í þessum efnum í hans huga og hvort sú ákvörðun sem hæstv. ríkisstjórn mun taka á miðvikudaginn muni standa og falla með því hvort hún meti markað tiltækan fyrir þessar afurðir eður ei. Þetta er mjög mikilvægur þáttur í þessu sambandi, þ.e. hvort hér sé um að ræða þessa þungamiðju málsins ellegar hvort um sé að ræða prinsipp eða grundvallaratriði um það hvort við nýtum yfirleitt okkar afurðir í hafinu. Þetta er nauðsynlegt að fá fram.

Ég vil hins vegar bæta því við, af því að hæstv. forsrh. hefur sagt sem svo að rangt hafi verið að ganga úr hvalveiðiráðinu á sínum tíma hvort þess sé þá að vænta að ríkisstjórnin taki einnig á því álitamáli þegar ákvörðun mun koma fram næsta miðvikudag, tillaga um það jafnvel að ganga inn í það á nýjan leik.