Hvalveiðar

Mánudaginn 05. maí 1997, kl. 15:25:05 (5775)

1997-05-05 15:25:05# 121. lþ. 116.1 fundur 303#B hvalveiðar# (óundirbúin fsp.), HG
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur

[15:25]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Það er nú að verða nokkuð árviss liður á Alþingi að þegar kemur fram í maímánuð og stutt er til þingloka, þá hefjast umræður um hvalveiðimál af hálfu hv. stjórnarliða hér í þinginu sem hafa haft um það frumkvæði sérstaklega, en nú af hálfu hæstvirtra ráðherra ríkisstjórnarinnar sem vegast á opinberlega um þetta vandasama og í raun stóra mál fyrir okkur Íslendinga.

Ég hef litið svo á að það væri hæstv. sjútvrh. sem hefði stjórnarfarslegt, stjórnskipulegt forræði í þessu máli og ég beini hér fyrirspurn til hæstv. sjútvrh. um það: Hvað hefur hann lagt til um þetta efni? Ætlar hann að leggja til nú að hvalveiðar verði hafnar? Er hann með tilbúna áætlun um það og þá í hvaða mæli?

Fyrir þremur árum var skilað til hæstv. sjútvrh. samróma nefndaráliti frá fulltrúum þingflokka á Alþingi um þetta mál þar sem opnað var fyrir og mælt með að athugað yrði að hefja veiðar á hrefnu, þ.e. á smáhveli, miðað við neyslu hér innan lands jafnhliða því sem athugað yrði um að afla markaða. Þetta var tillagan. Og ég spurði hæstv. sjútvrh. hér fyrir ári: Hvað líður? Hvað þarf hæstv. ráðherra að fá í hendur til þess að taka ákvörðun í þessu máli? Þá var sagt að það væri ástæða til að kanna þingviljann sérstaklega umfram þetta sem þarna lá fyrir fyrir þrem árum.

Það er, virðulegur forseti, mjög hörmulegt að horfa upp á málsmeðferð hæstv. ríkisstjórnar í þessu máli. Og hvað segir hæstv. sjútvrh. um það efni? Eigum við að leita inngöngu í Alþjóðahvalveiðiráðið? Er að hans tillaga að við gerum það nú?