Hvalveiðar

Mánudaginn 05. maí 1997, kl. 15:33:39 (5780)

1997-05-05 15:33:39# 121. lþ. 116.1 fundur 303#B hvalveiðar# (óundirbúin fsp.), sjútvrh.
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur

[15:33]

Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Ég vil aðeins ítreka að ég tel að það hafi verið rétt ákvörðun á sínum tíma að láta þessi mál bíða á meðan við vorum að ljúka öðrum mjög umfangsmiklum og knýjandi samningum um fiskveiðihagsmuni okkar utan íslenskrar lögsögu.

Í annan stað er það á misskilningi byggt hjá hv. þm. að einhver ágreiningur sé innan ríkisstjórnarinnar um þessi efni. En hitt má öllum vera ljóst, eins og hv. þm. benti réttilega á, að málið er um margt flókið og viðkvæmt og þess vegna er fullkomlega eðlilegt að ríkisstjórnin taki nokkurn tíma til þess að fjalla um það álit sem fyrir liggur áður en hún tekur endanlega ákvörðun á þeim grundvelli.