Veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum

Mánudaginn 05. maí 1997, kl. 15:36:35 (5782)

1997-05-05 15:36:35# 121. lþ. 116.1 fundur 304#B veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum# (óundirbúin fsp.), sjútvrh.
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur

[15:36]

Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Ég vil minna á að engin ákvörðun hefur verið tekin um að úthluta fastri aflahlutdeild í síldveiðunum. Það var ekki tekin um það ákvörðun um að gera það fyrir upphaf þessarar vertíðar og það hefur engin ákvörðun verið tekin um það hvernig að því verður staðið fyrir næstu vertíð. Það er rétt sem hv. þm. minnti hér á að meiri hluti sjútvn. taldi ekki vera forsendur fyrir því, við svo búið, að úthluta aflaheimildum varanlega. Og þá var bara einn kostur mögulegur á grundvelli þeirra laga sem við styðjumst við, þ.e. að veiðin fari fram eins og hún gerir núna. Það er ekki góð leið við stjórnun fiskveiða og má öllum vera ljóst að það leiðir ekki til mestrar hagkvæmni og bestrar nýtingar auðlindarinnar að standa að fiskveiðum með þeim hætti. En annar kostur var ekki í stöðunni miðað við gildandi lög, með hliðsjón af því sem hv. þm. minnti hér á, að meiri hluti hv. sjútvn. taldi ekki vera forsendur fyrir því að úthluta varanlegri aflahlutdeild og þá var ekki um annan kost að ræða þannig að það er vissulega svo að ráðuneytið hafði mjög fast í huga það sem fram kom af hálfu meiri hluta nefndarinnar við afgreiðslu málsins fyrr á þessu þingi.