Kennsla í forritun og tölvugreinum

Mánudaginn 05. maí 1997, kl. 15:49:18 (5790)

1997-05-05 15:49:18# 121. lþ. 116.1 fundur 306#B kennsla í forritun og tölvugreinum# (óundirbúin fsp.), ÞJ
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur

[15:49]

Þorvaldur T. Jónsson:

Herra forseti. Ég vil spyrja hæstv. menntmrh. hvort hann hyggist beita sér fyrir átaki í kennslu í forritun og tölvugreinum við Háskóla Íslands, Tölvuháskóla Verslunarskóla Íslands eða á einhvern annan hátt. Þessu máli er hreyft hér vegna þess að þessi missirin er mikill vöxtur í forritun og hugbúnaðargerð og reglulega berast fregnir af íslenskum hugbúnaðarfyrirtækjum sem vekja athygli á erlendri grundu fyrir frambærilegar vörur.

Nú er svo komið að mikill skortur er á forriturum, reyndar um allan hinn vestræna heim, og í umræðunni hefur heyrst að bara á Íslandi vanti 1.000--2.000 tölvufræðinga af ýmsu tagi á vinnumarkaðinn.

Nýlega bárust fréttir af því að fyrirtækið Einar J. Skúlason hygðist flytja hluta hugbúnaðarkerfa sinna til Skotlands í von um að fá þar fólk til starfa. Vegna þessarar eftirspurnar eftir tölvumenntuðu fólki er orðið erfitt að fá kennara í þessum greinum til háskólans m.a. vegna þess að launin þar standast ekki samkeppnina við hinn almenna markað. Því er eðlilegt, herra forseti, að álykta sem svo að aukin fjárveiting til menntunar í tölvugreinum væri verulega arðbær fjárfesting fyrir þjóðfélagið. Því er þeirri spurningu velt hér upp til hæstv. ráðherra hvort hann geti hugsað sér að gera átak í þeim efnum og þá jafnframt hvort eftir slíku hafi verið leitað, t.d. af tölvudeild Háskóla Íslands.