Kennsla í forritun og tölvugreinum

Mánudaginn 05. maí 1997, kl. 15:51:31 (5792)

1997-05-05 15:51:31# 121. lþ. 116.1 fundur 306#B kennsla í forritun og tölvugreinum# (óundirbúin fsp.), ÞJ
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur

[15:51]

Þorvaldur T. Jónsson:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir góð svör. Eins og kom fram í máli hans er ýmislegt að gerast í þessum málum. En ég vil bara ítreka það sem ég sagði áðan að það hefur verið mikil umræða um það í þjóðfélaginu undanfarið að nú þyrftu stjórnvöld að standa við stóru orðin í sambandi við það að efla þann hluta atvinnulífs sem lýtur að hátækni og menntun og er gott að það komi fram, ef svo er.

Ég vil að lokum, herra forseti, leggja áherslu á nauðsyn þess að huga vel að þessum málum og fylgjast vel með og tel að ef rétt er á málum haldið, þá geti bæði forritun og tölvustarfsemi hvers konar orðið einn helsti burðarás íslensks atvinnulífs.