Einangrunarstöðin í Hrísey

Mánudaginn 05. maí 1997, kl. 15:55:27 (5795)

1997-05-05 15:55:27# 121. lþ. 116.1 fundur 307#B einangrunarstöðin í Hrísey# (óundirbúin fsp.), landbrh.
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur

[15:55]

Landbúnaðarráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Eins og kom fram í máli hv. fyrirspyrjanda og eins og hv. þingmenn allir sjálfsagt vita er einangrunarstöð fyrir gæludýr aðeins í Hrísey. Það má segja að því fylgi kannski bæði kostir og gallar. Það er kostur að hafa einangrun gæludýra á stað þar sem lítil smithætta er --- reyndar vita menn að þar er líka einangrunarstöð fyrir annað búfjárhald --- því að við erum að reyna að verjast henni. Við höfum ströng skilyrði hvað þetta varðar og ég leyfi mér að halda því fram að það beri að hafa ströng skilyrði í þessum efnum. En það er hins vegar líka rétt að þessu fylgir kostnaður sem er sjálfsagt meiri en sá ef einangrunarstöðin væri í námunda við Keflavíkurflugvöll eða nær mesta þéttbýlinu. En það býr reyndar fólk víðar heldur en á höfuðborgarsvæðinu sem á sín gæludýr.

Hlutverk landbrn. eða landbúnaðaryfirvalda er fyrst og fremst að sjá til þess að skilyrðum sé fullnægt hvað þessa einangrun varðar. En möguleikarnir á svona stöð geta auðvitað verið á fleiri stöðum þó að það muni þá sjálfsagt torvelda rekstrarskilyrðin eitthvað. Og af því að hv. þm. nefndi að gjaldtaka væri veruleg, þá er gjaldtakan bundin kostnaði. Þetta er ekki skattheimta heldur er þetta þjónusta þar sem greitt er fyrir þá þjónustu sem innt er af hendi. Ég veit að sótt hefur verið um að fá að reka einangrunarstöðvar á fleiri stöðum og ef öllum skilyrðum sem ber að fullnægja og hægt er að uppfylla samkvæmt áliti yfirdýralæknis og landbrn., þá er út af fyrir sig ekkert sem útilokar það að stöðvarnar séu fleiri og reknar víðar en í Hrísey þannig að það er kannski fyrst og fremst skilyrði um hvernig að málinu sé staðið sem okkur ber að fullnægja og auðvitað tryggja að aðstaða þessi sé fyrir hendi.