Tryggingasjóður sjálfstætt starfandi einstaklinga

Mánudaginn 05. maí 1997, kl. 16:24:41 (5808)

1997-05-05 16:24:41# 121. lþ. 116.3 fundur 237. mál: #A Tryggingasjóður sjálfstætt starfandi einstaklinga# frv., BH (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur

[16:24]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Herra forseti. Í umræðunum um þetta mál og í nefndaráliti minni hluta kom fram mikil gagnrýni á málsmeðferð þess í undirbúningi af ráðuneytisins hálfu. Þar kom einnig fram að af hálfu Alþb. og óháðra hefur það lengi verið baráttumál að tryggja rétt einyrkja til atvinnuleysistrygginga, ekki síst með tilliti til þess að á undanförnum árum hefur launafólki í ríkum mæli verið stillt upp við vegg með það að gerast verktakar eða missa vinnuna ella.

Hitt hefur líka komið fram í umræðunum að vegna þess hve frv. er hroðvirknislega unnið er það á engan hátt fyrir séð að frv. þýði úrbætur fyrir sjálfstætt starfandi og felur það í sér verulega hættu á því að einstökum hópum innan sjóðsins verði mismunað. Því getur þingflokkur Alþb. og óháðra ekki tekið ábyrgð á samþykkt þessa máls þrátt fyrir jákvæð markmið og mun sitja hjá við allflestar greinar þess.