Tryggingasjóður sjálfstætt starfandi einstaklinga

Mánudaginn 05. maí 1997, kl. 16:25:43 (5809)

1997-05-05 16:25:43# 121. lþ. 116.3 fundur 237. mál: #A Tryggingasjóður sjálfstætt starfandi einstaklinga# frv., KÁ (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur

[16:25]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Í sjálfu sér er gott mál að taka á réttindum einyrkja, en hér er því miður þannig að málum staðið að alls er óvíst að verið sé að tryggja rétt einyrkja nema e.t.v. stærstu hópanna sem munu eiga aðild að málinu. Sjóðurinn á að starfa í deildum þannig að hver deild á að standa undir sér. Hér er ekki um samábyrgð að ræða eins og t.d. í Atvinnuleysistryggingasjóði. Verði einhver deildin fjárvana verða bætur skertar eða gjöld hækkuð þannig að þeir sem greiða gjöld í deildina geta þurft að gjalda þess ef mikið atvinnuleysi er í hópnum.

Þá gengur þetta frv. út frá forgangi ákveðinna þriggja hópa að stjórn og úthlutunarnefnd og reyndar verður erfitt að sjá hver stórar þessar stjórnir verða. Það fer eftir því hve deildirnar verða margar. Að mínum dómi á að verða valkvætt hvort fólk greiðir tryggingagjald inn í slíkan sjóð eins og gengur og gerist á Norðurlöndunum.

Það er lýsandi fyrir það hve málið var illa unnið að hér liggur fyrir brtt. við nánast hverja einustu grein. Þetta mál getum við kvennalistakonur ekki stutt.