Tryggingasjóður sjálfstætt starfandi einstaklinga

Mánudaginn 05. maí 1997, kl. 16:29:26 (5812)

1997-05-05 16:29:26# 121. lþ. 116.3 fundur 237. mál: #A Tryggingasjóður sjálfstætt starfandi einstaklinga# frv., SvG (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur

[16:29]

Svavar Gestsson:

Virðulegi forseti. Eins og fram kom í atkvæðaskýringu hjá hv. 12. þm. Reykv. höfum við alþýðubandalagsmenn lengi barist fyrir því að tryggður verði réttur smábátaeigenda, vörubílstjóra og bænda til atvinnuleysistrygginga. Hæstv. núv. félmrh. taldi þegar hann var í stjórnarandstöðu að það væri hægt að gera á grundvelli almannatryggingalaganna með einfaldri reglugerðarbreytingu. Ég hygg að sú leið hefði verið farsælli en sú sem hér er reynt að fara vegna þess að ég tel að með þessu frv., eins og það lítur út núna, sé því miður ekki verið að tryggja rétt þessa fólks eins og þó er ætlunin. En til þess að undirstrika það að við teljum skymsamlegt að leggja af stað með málið þrátt fyrir allt, þá styðjum við þessa grein. En ég óttast að það sé það mikið fúsk í málinu og svo illa á því haldið að það eigi eftir að koma í bakið á þeim sem síst skyldi.