Tryggingasjóður sjálfstætt starfandi einstaklinga

Mánudaginn 05. maí 1997, kl. 16:30:27 (5813)

1997-05-05 16:30:27# 121. lþ. 116.3 fundur 237. mál: #A Tryggingasjóður sjálfstætt starfandi einstaklinga# frv., KÁ (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur

[16:30]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Í 1. gr. frv. verið að fjalla um stofnun sjóðsins og tilgang sjóðsins. Ég hef skilið það svo, eins og ég nefndi hér áðan, að þessi sjóður eigi að starfa í deildum og að hver deild eigi að bera ábyrgð á sér. Hér kom fram áðan í atkvæðaskýringu hæstv. félmrh. að ef einhver deildin yrði fjárvana, þá kæmi ríkissjóður þar til skjalanna. Þetta eru alveg nýjar upplýsingar fyrir mér. Það stendur í 2. gr. frv., með leyfi forseta:

,,Ef sýnt þykir að Tryggingasjóður einyrkja geti ekki staðið við skuldbindingar sínar samkvæmt lögum þessum skal stjórn sjóðsins gera tillögu til ráðherra um hertar úthlutunarreglur og/eða um hækkun á tekjum sjóðsins.``

Þar er það ekki ríkissjóður sem hleypur undir bagga, heldur verða gjöld lögð á greiðendur. Það sem fram kom í máli hæstv. félmrh. kallar á algjörlega nýjar skýringar á þessu máli.