Tryggingasjóður sjálfstætt starfandi einstaklinga

Mánudaginn 05. maí 1997, kl. 16:43:23 (5828)

1997-05-05 16:43:23# 121. lþ. 116.3 fundur 237. mál: #A Tryggingasjóður sjálfstætt starfandi einstaklinga# frv., SvG (um atkvæðagreiðslu)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur

[16:43]

Svavar Gestsson (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég verð að ítreka það sem hér hefur áður komið fram undir þessum dagskrárlið, um atkvæðagreiðslu, að hér eru þingmenn settir í mjög mikinn vanda. Það er bersýnilegt að menn eru að taka afstöðu til málsins á allt öðrum forsendum en lagt var upp með.

Hver er munurinn? Munurinn liggur í því að hæstv. félmrh. og hv. varaformaður félmn. hafa sagt að ríkissjóður sé á bak við atvinnuleysisbótaréttindi hinna einstöku sjóða en þá þurfi ekki að gera upp á grundvelli tekna og gjalda á annan hátt. Hér er um að ræða gjörbreytingu frá því sem ella hefði verið og ég held að ég geti sagt það í fullri hreinskilni, herra forseti, að ég er nokkuð sannfærður um að þó nokkur fjöldi þeirra þingmanna sem nú situr hjá í málinu mundi vilja skoða málið í ljósi þessara nýju upplýsinga því að þetta er allt, allt annað mál sem hér er verið að tala um. Málið liggur auðvitað þannig að fjöldinn allur af þingmönnum hér hefur á undanförnum árum aftur og aftur krafist þess að tryggður yrði atvinnuleysisbótaréttur vörubílstjóra, bænda og trillusjómanna. Þess vegna er það auðvitað ekki með glöðu geði sem menn skila auðu í atkvæðagreiðslum af þessu tagi og vilja því skoða málið áfram. Ég harma það ef hæstv. forseti ætlar ekki að verða við þessum sanngjörnu óskum þingmanna um að stöðva atkvæðagreiðsluna og fara betur yfir málið hér og nú.

Mér finnst, herra forseti, að það sé gert lítið úr þingmönnum með því að halda atkvæðagreiðslunni áfram. Það er ætlast til þess að þeir greiði atkvæði um mál á allt öðrum forsendum en efnislega liggja fyrir, á allt öðrum forsendum. Þess vegna skírskota ég til almennrar sanngirni hæstv. forseta til þess að kanna það hvort ekki sé hægt að stöðva nú atkvæðagreiðsluna þannig að menn geti náð áttum, að ég tali nú ekki um náð vopnum sínum eins og einn af forverum hans mundi hafa orðað það.