Tryggingasjóður sjálfstætt starfandi einstaklinga

Mánudaginn 05. maí 1997, kl. 16:46:58 (5830)

1997-05-05 16:46:58# 121. lþ. 116.3 fundur 237. mál: #A Tryggingasjóður sjálfstætt starfandi einstaklinga# frv., KÁ (um atkvæðagreiðslu)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur

[16:46]

Kristín Ástgeirsdóttir (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Ég mótmæli þeim orðum hæstv. félmrh. að þessi túlkun hafi legið fyrir. Þetta mál hefur verið til umfjöllunar í félmn. frá því þing kom saman eftir áramót og það er nokkuð um liðið frá því að við afgreiddum málið frá okkur. Það hefur legið hér og beðið. Í allri þeirri umfjöllun höfum við alltaf gengið út frá því sem stendur í frv. og kemur fram í nefndaráliti að hver deild eigi að standa undir sér og eins og þar stendur, að sé ekki nægilegt fé, þá er það fyrst talið upp eins og segir í brtt. við 24. gr., að gera skuli, með leyfi forseta:

,,... tillögu til ráðherra um hertar úthlutunarreglur, um skerðingu bóta og/eða um hækkun á tekjum viðkomandi deildar.``

Það hefur aldrei komið fram í okkar vinnu að til stæði að það kæmu framlög úr ríkissjóði, enda ef svo er, hæstv. forseti, þá ítreka ég enn og aftur þá skoðun mína að þessi málefni eigi einfaldlega heima í Atvinnuleysistryggingasjóði þar sem samábyrgð gildir og ekki þarf sérstakar regur um einstaka hópa. Hér getum við staðið frammi fyrir því að veittar verði sérstakar fjárhæðir til hópa eins og bænda eða arkitekta eða einhverra hópa einyrkja. Það er auðvitað langeðlilegast að þessi málefni fari öll í gegnum Atvinnuleysistryggingasjóð.