Tryggingasjóður sjálfstætt starfandi einstaklinga

Mánudaginn 05. maí 1997, kl. 16:51:57 (5833)

1997-05-05 16:51:57# 121. lþ. 116.3 fundur 237. mál: #A Tryggingasjóður sjálfstætt starfandi einstaklinga# frv., ÖS (um atkvæðagreiðslu)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur

[16:51]

Össur Skarphéðinsson (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég er ekki þess heiðurs aðnjótandi að eiga sæti í hinni háu félmn. en það er bersýnilega afskaplega spennandi nefnd. Mér er þess vegna málið ekki ítarlega kunnugt. En ég verð að segja, herra forseti, að ég hef einfaldlega ekki greind til þess að skilja um hvað ég á að greiða atkvæði hér.

Ég hef í þessari atkvæðagreiðslu setið hjá við flest ákvæði þessa frv. en svo heyri ég hæstv. félmrh. koma hér upp og lýsa skoðun sem ég er sammála. Túlkun hans á því hvernig eigi að bregðast við ef fjárþurrð verður í einstökum deildum sjóðsins er þess eðlis að ég sé að ég hef verið að greiða atkvæði á alls kostar röngum grundvelli. Ef ég hefði vitað um þessa túlkun ríkisstjórnarinnar á frv. við upphaf atkvæðagreiðslunnar, þá hefði ég að öllum líkindum stutt það. Ég verð því, herra forseti, að fara fram á það eins og aðrir að þessari atkvæðagreiðslu verði frestað og það liggi alveg ljóst fyrir hver skilningurinn er á þessu frv.

Hér kom upp hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir, formaður nefndarinnar, og það er alveg ljóst að það er stjarnfræðileg firð á milli skilnings hennar og hv. þm. Sivjar Friðleifsdóttur á þessu máli. Það er líka ljóst að lögfræðingur í nefndinni, hv. þm. Bryndís Hlöðversdóttir sem hefur sérfræðiþekkingu á málinu, hefur líka allt annan skilning, eftir að hafa verið viðstödd umræðu, en hv. þm. Siv Friðleifsdóttir og hæstv. félmrh.

Ég er að vísu þeirrar skoðunar að bæði hv. þm. Siv Friðleifsdóttir og hæstv. félmrh. eigi að halda sem flestar ræður hérna vegna þess að mér finnst skilningur stjórnarinnar á frv. batna með hverri ræðu stjórnarinnar og ég hugsa að um það er lýkur, ef þau halda fleiri ræður, þá verði frv. samþykkt hér með lófataki.

Herra forseti. Grunnurinn er þessi: Ég veit ekki um hvað ég er að greiða atkvæði. (Gripið fram í: Það er nú ekki í fyrsta skipti.) Ég á sem þingmaður hérna þann rétt að rannsókn málsins í fagnefndinni sé þannig að við vitum út á hvað frv. gengur. En það hefur komið í ljós að jafnvel hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson skilur það ekki og ef hann skilur það ekki, þá skilur það enginn og allra síst hæstv. félmrh.