Tryggingasjóður sjálfstætt starfandi einstaklinga

Mánudaginn 05. maí 1997, kl. 16:54:25 (5834)

1997-05-05 16:54:25# 121. lþ. 116.3 fundur 237. mál: #A Tryggingasjóður sjálfstætt starfandi einstaklinga# frv., MF (um atkvæðagreiðslu)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur

[16:54]

Margrét Frímannsdóttir (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það má vera að einstaka stjórnarliði sé hissa á því að við skulum fara fram á að þessari atkvæðagreiðslu verði nú frestað. Það er hins vegar svo að maður byggir afstöðu sína á efnisatriðum máls. Ég sat um tíma í þessari ágætu nefnd á meðan þetta frv. var þar til umfjöllunar. Og það er alveg ljóst og án nokkurs vafa --- og mér finnst það reyndar mjög slæmt að hv. þm. Pétur Blöndal skuli ekki vera hér til að staðfesta það --- því að mig minnir að ýmsir fjármálaspekingar hafi reiknað það út hversu lengi þessir sjóðir ættu að duga miðað við það og gengið út frá þeirri staðreynd, þeim upplýsingum sem komu frá hæstv. ráðherra og ráðuneyti og frá meiri hlutanum öllum, að sjóðirnir ættu að vera sjálfbærir, hver deild ætti að vera sjálfbær. Og þá var það reiknað út að þetta voru svona um það bil þriggja daga laun sem t.d. bændastéttin, held ég að það hafi verið, ætti inni eftir árið ef allir greiddu lögbundin framlög í þennan sjóð. Það hefur aldrei á neinum tímapunkti verið reiknað með því að ríkissjóður kæmi þarna inn til að bæta stöðu þessarar deildar þannig að þegar við tökum hér afstöðu og greiðum atkvæði, þá gerum við það þannig í stjórnarandstöðunni að við byggjum afstöðu okkar á efnisatriðum máls. Málið hefur breyst.

Við eigum þess vegna fullan rétt á því að fá að ræða það aftur, allar tillögurnar, og greiða atkvæði hér aftur og inn í nefndina vegna þess að hæstv. ráðherra valdi sjálfur tímapunktinn. Hann valdi að koma með þessar upplýsingar inn í atkvæðagreiðsluna. Það var ekki stjórnarandstaðan.