Tryggingasjóður sjálfstætt starfandi einstaklinga

Mánudaginn 05. maí 1997, kl. 16:56:26 (5835)

1997-05-05 16:56:26# 121. lþ. 116.3 fundur 237. mál: #A Tryggingasjóður sjálfstætt starfandi einstaklinga# frv., RG (um atkvæðagreiðslu)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur

[16:56]

Rannveig Guðmundsdóttir (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Þetta er alveg yfirmáta neyðarlegt. Það er búið að koma hér fram við atkvæðaskýringar að það er mjög margt óljóst í þessu frv. og þrátt fyrir að breytingartillögur væru gerðar í 63 liðum við 30 greina frv., þá er ekki einu sinni ljóst hvert menn ætla að halda. Og nú ætla ég að leyfa mér, virðulegi forseti, að lesa um greinina úr athugasemdum við einstakar greinar frv. Það hljóðar svo:

,,Ef sýnt þykir að Tryggingasjóður einyrkja geti ekki staðið við skuldbindingar sínar samkvæmt lögum þessum, svo sem vegna þess að útgjöld sjóðsins hafa aukist verulega, skal stjórn sjóðsins ... gera tillögu til ráðherra um hertar úthlutunarreglur og/eða um hækkun á tekjum sjóðsins.``

Það er engin slík grein inni um Atvinnuleysistryggingasjóð vegna þess að í þeim sjóði liggur það fyrir að ef atvinnuleysi verður mikið og ekki hafa verið settir nægir fjármunir á fjárlög, þá þarf að setja meira fjármagn inn. Ákvæðin eru sett inn í þennan sjóð af því að deildirnar áttu að vera sjálfbærar og þetta spurðum við fulltrúa ráðuneytisins um á fyrstu stigum málsins í nefnd og fengum um það skýr svör.

Núna, við atkvæðagreiðsluna, kemur það fram að ríkissjóður komi hugsanlega með fjármagn inn. Það breytir svo sem ekki miklu fyrir allar hinar greinarnar sem eru í uppnámi eða óljósar eða óskýrar, en þetta er lykilatriði varðandi mjög stóran þátt. Við tókum þessa umræðu hér fyrir fáeinum dögum, 2. umr. virðulegi forseti. Hvað sagði ráðherrann þá? Jú, hann sagði: ,,Ef stjórnarandstaðan er svona óánægð með málið þá getur hún bara breytt lögunum eftir tvö ár.`` Ég fagnaði þessari athugasemd því að hún gaf til kynna að ráðherrann reiknaði með að við kæmumst til valda eftir tvö ár og um það er ég honum sammála. En hann orðaði það ekki þá. Hann orðaði það ekki í þeirri umræðu að það kæmi fé úr ríkissjóði þarna inn.

Virðulegi forseti. Þessi atkvæðagreiðsla er okkur til slíks vansa að ég held að við ættum að stoppa hér.