Tryggingasjóður sjálfstætt starfandi einstaklinga

Mánudaginn 05. maí 1997, kl. 17:00:26 (5837)

1997-05-05 17:00:26# 121. lþ. 116.3 fundur 237. mál: #A Tryggingasjóður sjálfstætt starfandi einstaklinga# frv., ÖJ (um atkvæðagreiðslu)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur

[17:00]

Ögmundur Jónasson (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Það er mjög alvarlegur hlutur ef menn eru að greiða atkvæði um þetta frv. á röngum forsendum. Um þetta frv. hafa farið fram miklar umræður í okkar þingflokki, þingflokki Alþb. og óháðra. Mönnum finnst stórmál að tryggja atvinnuleysisbætur til einyrkja, þar á meðal bænda, vörubílstjóra og reyndar annarra hópa einnig og ástæða þess að menn sitja hjá er að menn óttast að ekki sé nægilega vel að þessum málum staðið. Síðan eru að koma fram nýjar upplýsingar nú og þegar hæstv. félmrh. spyr þingheim hvort menn efist um að ríkissjóður muni hlaupa undir bagga með þessum sjóði, þá ætla ég að svara þeirri spurningu: Já. Ég efast um það. Meðan þessi ríkisstjórn situr, þá efast ég um það nema að frá því sé tryggilega gengið í lögum. Þess vegna vil ég taka undir þær kröfur sem hér hafa komið fram sem mér finnst borðliggjandi og augljósar, að það beri að stöðva þessa atkvæðagreiðslu þannig að menn geti fengið botn í þetta mál.