Varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum

Mánudaginn 05. maí 1997, kl. 17:45:02 (5843)

1997-05-05 17:45:02# 121. lþ. 116.8 fundur 256. mál: #A varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum# (heildarlög) frv., HG (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur

[17:45]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Fulltrúi Alþb. í umhvn. stóð að þessu nefndaráliti, en með fyrirvara. Það er eitt atriði sem ég vil benda á þarna og ég er ekki fyllilega sáttur við í þessari grein þó að ég styðji málið í heild sinni og greiði atkvæði með greininni einnig. En það er þar sem vísað er til þess þar sem segir, með leyfi forseta:

,,Skal hættumat fyrst og fremst ná til þéttbýlis og svæða þar sem þétt byggð er fyrirhuguð.``

Mér finnst þetta óvarlegt orðalag og óeðlilegt. Hvers á dreifbýli að gjalda? Er ekki fullkomin ástæða til þess að það sé sama heimild fyrir dreifbýli sem þéttbýli þegar snjóflóðahætta er annars vegar? Ég lagði til í nefndinni að þessu yrði hagað öðruvísi. Það er sú ábending sem ég vildi koma á framfæri.