Undirboð í vikurútflutningi

Þriðjudaginn 06. maí 1997, kl. 13:58:17 (5877)

1997-05-06 13:58:17# 121. lþ. 117.95 fundur 318#B undirboð í vikurútflutningi# (umræður utan dagskrár), GÁ
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur

[13:58]

Guðni Ágústsson:

Hæstv. forseti. Ég þakka málshefjanda fyrir að taka þetta stórmál hér upp og einnig hæstv. ráðherra fyrir hans glögga yfirlit í þessu máli. Það er auðvitað stórmál ef sterkir aðilar ganga í náttúru Íslands án þess að hafa leyfi til þess og knésetja í leiðinni fyrirtæki sem áratugum saman hafa verið að þróa þessi mikilvægu jarðefni Íslands. Ég vil því nota þetta tækifæri og skora á hæstv. ráðherra að stöðva þegar í stað þessi vinnubrögð. Ég tek undir það með hæstv. ráðherra að ég hygg að við þessar aðstæður meðan við erum ekki komnir lengra en þetta í að þróa efnin, þá eigi ekki að hleypa fleirum inn á þennan markað. Fyrir utan hitt að þeim sem við hleypum inn á markaðinn ... (Gripið fram í: Hvað með samkeppni?) Við eigum að gera kröfu til þess að sem mest ... (Gripið fram í.) Samkeppni má aldrei skaða íslenska hagsmuni eða íslenska náttúru, hv. þm. Það er stórt atriði. (Gripið fram í: Einokun getur ...) Einokun undir skynsamlegum hatti getur átt rétt á sér. En hér eru merkileg fyrirtæki, eins og Jarðefnaiðnaður, þar sem þessi jarðefni, vikurinn, hafa verið unnin að töluvert miklu leyti sem er mjög mikilvægt. Ég tel enga ástæðu til þess að ganga á auðæfi Íslands með því flytja út hráefni sem engum gefur neitt í aðra hönd. Þarna eru tvö fyrirtæki sem hafa verið að þróast. Ég hef ekkert á móti því að ef þetta fyrirtæki fær leyfi og stendur eðlilega að málum þá komi það inn, þrátt fyrir mín fyrri tilsvör, en ég vil leggja á það áherslu að það hefur komið fram í máli hæstv. ráðherra að hér er mjög óeðlilega að málum staðið. Því ber að taka þessi mál föstum tökum nú þegar.