Undirboð í vikurútflutningi

Þriðjudaginn 06. maí 1997, kl. 14:06:04 (5880)

1997-05-06 14:06:04# 121. lþ. 117.95 fundur 318#B undirboð í vikurútflutningi# (umræður utan dagskrár), LB
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur

[14:06]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Árna Johnsen fyrir að taka þetta mál hér til umræðu og einnig þakka hæstv. iðnrh. fyrir svörin sem voru skýr og greinargóð. Það er vissulega mjög alvarlegt mál ef fyrirtæki í eigu ríkisins eru farin að stunda undirboð á erlendum mörkuðum við sölu á vikri eða hverri annarri vöru sem aðilar eru að selja úr landi. Það er mjög alvarlegt mál en ég þekki það ekki nægilega vel til að fullyrða nokkuð um það hér. Hins vegar kom það fram í mjög skýru svari hæstv. iðnrh. að viðkomandi fyrirtæki virðist ekki hafa leyfi til að taka vikur af þessum svæðum á Snæfellsnesi. Ég vil vekja á því sérstaka athygli hér að námaleyfi og námavinnsla heyrir undir iðnrn. og eftirlit með því að eftir þeim reglum sé farið. Því hljótum við að gera þá kröfu til hæstv. iðnrh. að ef það er rétt að viðkomandi fyrirtæki hafi ekki námaleyfi gangi hann að minnsta kosti í að sjá til þess að ekki sé verið að vinna í námum hérlendis efni sem viðkomandi aðilar hafa ekki leyfi til að vinna. Við hljótum að gera þá kröfu að hæstv. iðnrh. stöðvi þá vinnslu nú þegar.

Ég vil beina þeirri fyrirspurn til hæstv. iðnrh. hvort ekki sé nokkuð ljóst að hann hafi sagt að þeir hafi ekki þessi leyfi og hann muni ganga í það verk, hratt og örugglega, að stöðva þá námavinnslu þar til leyfið er fengið því vitaskuld eiga Íslenskir aðalverktakar sem önnur fyrirtæki í þessu landi að starfa eftir þeim reglum sem gilda um þessa starfsemi hverju sinni.