Undirboð í vikurútflutningi

Þriðjudaginn 06. maí 1997, kl. 14:07:59 (5881)

1997-05-06 14:07:59# 121. lþ. 117.95 fundur 318#B undirboð í vikurútflutningi# (umræður utan dagskrár), Flm. ÁJ
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur

[14:07]

Árni Johnsen:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. iðnrh. fyrir hans greinargóðu svör. Það hefur komið berlega í ljós bæði af orðum ráðherra og annarra þingmanna að það er siðlaust og forkastanlegt að ríkisfyrirtæki skuli vera að undirbjóða brautryðjendastarf íslenskra fyrirtækja í einkarekstri á erfiðum erlendum mörkuðum þar sem samkeppnin er hörð. Það er forkastanlegt. Það er ótrúlegt að þingmenn skuli leyfa sér --- eins og kom fram í máli hv. þm. Kristjáns Pálssonar --- að fagna því að íslenskt ríkisfyrirtæki sé svo öflugt að það geti undirboðið brautryðjendur í einkarekstri. Þetta segir allt málið.

Hæstv. iðnrh. hafði þau orð að það væri bæði stílbrot og verulega umhugsunarvert að opinber fyrirtæki væru að vinna á þessum grundvelli eins og hér er rætt. Hann sagði líka að sér væri hulin ráðgáta hversu djarflega væri teflt af hálfu fyrirtækisins Lava sem er í eigu Íslenskra aðalverktaka. Það hefur líka komið fram að þetta fyrirtæki er að skáka í skjóli --- án þess að hafa nokkurt leyfi eða nokkurn rétt er það að bjóða verð sem er yfir 10% lægra en samningsverð íslenskra aðila sem eru að berjast af veikum mætti við að vinna stöðu á þessum markaði. Þeir eru að bjóða tonnið á 67 mörk þegar samningsverð íslenskra aðila er 73,5 mörk.

Þess vegna vil ég spyrja hæstv. iðnrh., það var reyndar síðasta spurning mín, hvernig hann muni bregðast við þessum vinnubrögðum nú þegar?

Það er allt annað að ræða um framtíðina og fyrirtæki geta breyst en GER-fyrirtækið, sem er 100% dótturfyrirtæki Íslenskra aðalverktaka, státar sig af því að vera í skjóli ríkisvaldsins og þess vegna sé mun hyggilegra og vænlegra að stunda viðskipti við það en þau íslensku fyrirtæki sem um árabil hafa verið brautryðjendur.