Undirboð í vikurútflutningi

Þriðjudaginn 06. maí 1997, kl. 14:10:31 (5882)

1997-05-06 14:10:31# 121. lþ. 117.95 fundur 318#B undirboð í vikurútflutningi# (umræður utan dagskrár), iðnrh.
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur

[14:10]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Ég sný mér beint að því að svara þeim spurningum sem ég átti ósvarað fyrr í umræðunni. Hv. þm. Árni Johnsen spurði: Hvernig hyggst hæstv. iðnrh. bregðast við þessum vinnubrögðum?

Eins og kom fram áður hefur þetta fyrirtæki ekki námaleyfi. Samkvæmt því á að vera útilokað fyrir fyrirtækið að flytja út vikur. Forsenda fyrir því að hægt sé að flytja vikurinn út og koma honum á markað er að fyrirtækið hafi námaleyfi. Fyrirtækið hefur hins vegar gert samning við landbrn. um nýtingu á þeim hlunnindum sem sú ríkisjörð sem þarna er um að ræða býður upp á. Það er allt annað en að hafa rétt til að vinna úr námunum. Námaleyfið er gefið út af iðnrn. Svarið við spurningunni er þetta: Það á ekki að vera hægt að flytja út vikur á vegum þessa fyrirtækis nema til komi námaleyfi. Nú veit ég það hins vegar að þegar Íslenskir aðalverktakar yfirtóku þetta fyrirtæki, Nesvikur á Snæfellsnesi, yfirtóku þeir um leið þau réttindi sem það fyrirtæki hafði en nú eru þau réttindi öll útrunnin, þ.e. námaleyfið, en þá tóku þeir yfir ákveðnar birgðir sem búið var að vinna. Þær birgðir, sem voru tveir farmar, hafa Íslenskir aðalverktakar sent úr landi og hafa haft rétt til þess að mínu viti vegna þess að þau réttindi voru áður keypt. En frekari vinnsla kemur ekki til greina nema fyrirtækið hafi vinnsluleyfi.

Það eru tvö svæði þar sem vikurinn er aðallega unninn, þ.e. í kringum Heklu og á Snæfellsnesinu. Það er mikill munur á þessum vikri. Vikurinn á Heklusvæðinu er miklu verðmætari en vikurinn á Snæfellsnesi. Það ræðst fyrst og fremst af því að það er léttari vikur á Heklusvæðinu en á Snæfellsnesi. Þegar menn eru að bjóða mismunandi verð á markaði erlendis er það þar af leiðandi vegna þess að gæðin eru mismunandi og það er kannski það sem menn hafa ekki tekið nægilega tillit til í því undirboði sem um ræðir. En svarið er skýrt: Útflutningurinn á ekki að vera heimill fyrir þetta fyrirtæki nema þeir hafi vinnsluleyfi.