Rekstur Áburðarverksmiðjunnar

Þriðjudaginn 06. maí 1997, kl. 14:24:45 (5885)

1997-05-06 14:24:45# 121. lþ. 117.96 fundur 310#B rekstur Áburðarverksmiðjunnar# (umræður utan dagskrár), HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur

[14:24]

Hjálmar Árnason:

Virðulegi forseti. Ég leyfi mér að fullyrða að Áburðarverksmiðjan í Gufunesi geti gegnt lykilhlutverki á sviði sem gæti verið eitt stærsta sóknarfæri Íslendinga á sviði umhverfismála, verðmætasköpunar og atvinnumála. Þar á ég við framleiðslu og notkun á vetni.

Svo sem kunnugt er hefur Áburðarverksmiðjan framleitt um 2.000 tonn af vetni árlega síðan 1954. Ég fullyrði að þarna er til staðar sérhæfð þekking sem þjóðarhagsmunir krefjast að verði tryggðir áfram. Ekkert annað fyrirtæki í landinu býr yfir jafnviðamikilli kunnáttu og reynslu á þessu sviði og Áburðarverksmiðjan í Gufunesi og þar skiptir reynsla starfsfólks sköpum.

Ég hef átt þess kost á síðustu vikum að kynna mér hér innan lands og erlendis ýmsa möguleika varðandi vetni. Ég leyfi mér að fullyrða að vetni muni gegna lykilhlutverki sem orkugjafi 21. aldar. Fyrir tveimur vikum átti ég fund með stjórnendum leiðandi fyrirtækis á þessu sviði í Evrópu. Eftir það segi ég fullum fetum að þróunin á sviði vetnis sem vistvæns orkugjafa er örari en nokkurn mann hefði grunað. Og það sem meira er, hinir erlendu aðilar telja að Ísland hafi alla burði til að verða forustuþjóð í þeirri þróun, tala jafnvel um Kúvæt norðursins. Þess vegna, herra forseti, er svo mikilvægt fyrir okkur að varðveita þá þekkingu og reynslu sem fengist hefur við framleiðslu vetnis og tilraunir með vetnisknúna bátavél í Gufunesi. Hugsanlega kann hlutverk Áburðarverksmiðjunnar að breytast og snúast einungis um þróun og framleiðslu vetnis. Kjarninn er þó sá að þekkingunni sem býr í tæplega eitt hundrað starfsmönnum verði ekki glatað.