Rekstur Áburðarverksmiðjunnar

Þriðjudaginn 06. maí 1997, kl. 14:26:59 (5886)

1997-05-06 14:26:59# 121. lþ. 117.96 fundur 310#B rekstur Áburðarverksmiðjunnar# (umræður utan dagskrár), GÁ
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur

[14:26]

Guðni Ágústsson:

Hæstv. forseti. Áburðarverksmiðja ríkisins er litla barnið í áburðarfjölskyldunni í Evrópu, framleiðir 50 þúsund tonn meðan næstminnsta verksmiðjan er með 600 þúsund tonna framleiðslu.

Við Íslendingar undirgengumst EES-samninginn, Evrópusambandið er að stokka Evrópu upp. Ekkert fær að standa eins og það var meðan þessi stefna stórveldanna gengur fram. Hér hafa verið opnaðar dyr. Lítill markaður þolir illa afföll. Margt sem er smátt og fagurt verður að víkja úr vegi risans eða breyta starfsemi sinni. Íslenski bóndinn styður og vill að Áburðarverksmiðjan í Gufunesi lifi. Það sýna sölutölur í ár. Þegar frelsið er gengið í garð verður það aðeins 5--8% af innfluttum áburði sem selst á þessu vori. Eitt hundrað störf eru dýrmæt. Raforkusala upp á 140 milljónir er mikilvæg. Átökin í Evrópu snúast um að kaupa upp þann litla og hætta framleiðslu. Það verður erfitt að finna kaupanda við þessar aðstæður. Áætlun um sölu er jafnvel tímaskekkja við þær aðstæður.

Ég tel mikilvægt að styrkja Áburðarverksmiðjuna og hægt verði að finna henni viðbótarverkefni og í það eigi ráðamenn að ganga. Ríkisstjórn og Reykjavíkurborg eiga að taka höndum saman og leita nýrra leiða. Ég tel mikilvægt fyrir ríkisstjórnina að fá borgina í þetta samstarf með sér. Framtíðarsýnin --- áburðarframleiðsla til viðbótar vetni eða vetnisperoxíðvinnsla eins og hér hefur verið nefnd eða olíuhreinsun. Margt kemur til greina í vaxandi atvinnusköpun í okkar landi og vaxandi hagvexti í heiminum.

Hæstv. forseti. Tíminn er naumur. Samstaða um ný verkefni og nýja framtíðarsýn getur tryggt hundrað störf áfram í Gufunesi og áburðarframleiðslu í landinu sem íslenskir bændur telja mjög mikilvæga.