Varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum

Þriðjudaginn 06. maí 1997, kl. 14:41:22 (5891)

1997-05-06 14:41:22# 121. lþ. 117.4 fundur 256. mál: #A varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum# (heildarlög) frv., KHG
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur

[14:41]

Kristinn H. Gunnarsson:

Herra forseti. Ég vildi aðeins leggja orð í belg áður en málið yrði afgreitt endanlega frá þinginu. Ég lýsti viðhorfum mínum að nokkru leyti við 1. umr. málsins og er óþarfi að endurtaka það í smáatriðum. Ég vildi gjarnan koma á framfæri vangaveltum um nokkur atriði og spurningum til hæstv. ráðherra þar að lútandi sem ég tel nauðsynlegt að vekja athygli á og enn betra ef unnt væri að fá frekari svör við á þessu stigi.

Ég vil þó fyrst segja að ég tel það mjög til framfara í málinu að setja heildstæða löggjöf um þennan málaflokk og er því fyllilega samþykkur að sú leið hafi verið farin að endurskoða þessi lög í heild sinni. Margt í þessum lagabálki sem liggur fyrir eftir 2. umr. er býsna gott og ekki ástæða til að gera athugasemdir við það. Þvert á móti er ýmislegt sem til framfara horfir frá því sem verið hefur á undanförnum árum.

Ég vil þó halda til haga því sjónarmiði mínu að ég tel að sá aðili sem eigi að lýsa yfir hættuástandi sé heimaaðili. Það er viðhorf mitt að almannavarnanefnd staðarins á hverjum stað eigi að hafa þetta verkefni og bera þá ábyrgð sem því fylgir. Mér er hins vegar ljóst að það eru ekki allir á þeirri skoðun og annað hefur orðið ofan á á fyrri stigum þessa máls og er haldið í lítt breyttu formi í frv. Ég tel ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um það. Ég bara árétta viðhorf mín og hef fært fyrir þeim rök og vísa þar til ræðu minnar við 1. umr. málsins. Þó tel ég að frá því fyrirkomulagi að hafa hættuástandsvaldið hjá Veðurstofunni nokkra bót mála að færa hlutann af ákvörðunarvaldinu heim í hérað til lögreglustjóra í samráði við almannavarnanefnd. Ég hefði þó kosið að hafa það á hinn veginn, að það vald sem þarna er fært heim í hérað verði á höndum almannavarnanefndar í samráði við lögreglustjóra. Ég hefði kosið að það stæðist af því sem þarna er lagt til.

Önnur atriði sem ég tel rétt að gera að umræðuefni að þessu sinni eru í fyrsta lagi ákvæði í 10. gr. sem komu inn við 2. umr. málsins. Þar bættist inn í 10. gr. frv. svohljóðandi ákvæði, með leyfi forseta: ,,Eftir að viðurkennd varnarvirki hafa verið reist er heimilt að meta af bærum aðilum hvort til greina komi að þétta byggð á viðkomandi svæðum og þá með hvaða skilyrðum.``

[14:45]

Þessari tillögu fylgdi svohljóðandi greinargerð í nál. umhvn., með leyfi forseta:

,,Telur nefndin eðlilegt að ekki verði ráðist í þéttingu byggðar nema aðstæður séu metnar áður og er eðlilegast að slíkt mat sé í höndum viðkomandi sveitarstjórnar og ráðherra sem leita skal álits Veðurstofu Íslands og Skipulags ríkisins áður en ákvörðun er tekin.``

Þetta vekur upp ákveðnar spurningar vegna þess að þessi viðbót við 10. gr. og rökstuðningurinn á bak við hana byggir á því að menn efist um að varnarvirki sem hafa verið reist séu fullnægjandi vörn. Því sé rétt, áður en ákveðið er að leyfa fleirum að búa á varnarsvæðinu, ef svo má að orði komast, að athuga málið sérstaklega. Það getur ekki nein önnur skýring verið en að menn telji að það sé mögulegt að hætta sé samfara því að leyfa fólki að setjast að á varnarsvæði tiltekins varnarvirkis. Ég spyr þá, ef yfirvöld hafa efasemdir í sínum huga um varnarvirki, hvort þær efasemdir hljóti þá ekki að snúa líka að þeim sem fyrir eru? Er þá ekki verið að segja: Það er okkar mat að þó að varnarvirki sé gagnlegt þá sé eftir sem áður hætta af völdum ofanflóða? Verðum við þá ekki að endurskoða allt þetta mál í ljósi þess að menn hafa komist að þeirri niðurstöðu að vörnin sé ekki sú sem skyldi. Ef menn tryðu því að vörnin væri fullnægjandi þá þyrfti engar efasemdir að hafa uppi um hvort fleirum mætti búa stað í skjóli varnarvirkisins. Þannig að þessi viðbót umhvrn., sem ég trúi að sé gerð eftir bestu vitund og að yfirlögðu ráði, vekur mig til umhugsunar um gildi varnarvirkjanna. Ég sé málið alveg í nýju ljósi því ég hef trú á því að þau varnarvirki sem menn hafa reist séu það öflug að ekki sé hættulegra að búa í skjóli þeirra en annars staðar í viðkomandi plássi. Á þessu vildi ég vekja athygli, virðulegur forseti.

Ég veit svo sem ekki hvort hæstv. umhvrh. getur nokkuð tjáð sig um þetta efnisatriði því þetta kemur fram í meðförum þingnefndar en því miður sé ég engan úr umhvn. hér í þingsölum og því miður ekki formann umhvn. en það væri fengur að ef hann gæti verið hér viðstaddur.

Þá vil ég í fjórða lagi vekja athygli á 14. gr. frv., sem kveður á um hvað greiða skuli fyrir fasteignir sem er ákveðið að kaupa vegna þess að það er talinn betri kostur að kaupa eignina upp heldur en að reisa varnarvirki. Í 14. gr. frv. eins og það er núna eru ákvæði núgildandi 7. gr. laga, þó með einni veigamikilli breytingu. Þau ákvæði sem áfram eru frá núgildandi lögum til frv. eru þau að almenna reglan er að miða skuli við að hámarki staðgreiðslumarkaðsverð sambærilegra húseigna í sveitarfélagi utan hættusvæða þegar ákveðið er hversu hátt verð skuli greiða fyrir fasteign en þó sé heimilt að miða greiðslur við framreiknað kaupverð húseignar ef það hefur verið væntanlega í takt við gildandi markaðsverð. Síðan er áfram gert ráð fyrir því að ofanflóðasjóður greiði ekki fyrir kaup á húseign sem unnt er að flytja nema heildarkostnaður við flutninginn sé hærri en viðmiðunarverð eins og að framan er greint. Hins vegar er eitt ákvæði fellt úr 7. gr. núgildandi laga. Um það segir í greinargerð með frv. sem við erum að ræða hér, með leyfi forseta:

,,Taki ofanflóðasjóður þátt í hluta af kostnaði við kaup á eignum eða flutning á þeim leiðir af 14. gr. frumvarpsins að miða skal að hámarki við staðgreiðslumarkaðsverð eða framreiknað kaupverð húseignar ásamt kostnaði eiganda af endurbótum á henni. Með frumvarpinu er með öðrum orðum gerð tillaga um að heimild til að miða greiðslur úr ofanflóðasjóði við brunabótamat eða endurstofnverð, sem er að finna í 5. mgr. 7. gr. og ákvæðum til bráðabirgða í núgildandi lögum, verði felld á brott úr lögum.``

Þetta þýðir að engin ákvæði eru í frv. um hvernig eigi að bregðast við ef svo ber undir að íbúðareigandi býr við þau skilyrði að ákveðið er að verja ekki húsið, reisa ekki varnarvirki, heldur bjóða honum upp á að kaupa af honum húsið. Honum stendur til boða markaðsverð sambærilegrar eignar. Ef slíkar eignir eru ekki til í byggðarlaginu, hvað gera menn þá? Mörg byggðarlögin sem búa við snjóflóðahættu eru smá. Þau eru fámenn og ekki endilega margar fasteignir á lausu sem þegar eru byggðar. Það getur hæglega komið upp sú staða að íbúðareigandi standi frammi fyrir því að það verð sem honum stendur til boða fyrir fasteign sína er miklu lægra en hann þarf að reiða fram til að koma sér fyrir í sama byggðarlagi af því að ekki er til reiðu eða til sölu nein sambærileg húseign utan hættusvæðis. Hann þarf þá að ráðast í að byggja húsnæðið og eðlilega þurfa menn hærra verð til að standa undir byggingarkostnaði heldur en til að kaupa notað húsnæði á markaðsverði. Mér sýnist að með þessari breytingu sé girt fyrir þann möguleika sem er í núgildandi lögum að íbúðareigandi geti byggt á nýjan leik í sama sveitarfélagi eða öðru. Honum er því nauðugur einn kostur ef hann getur ekki keypt neina íbúð í viðkomandi byggðarlagi að flytjast búferlum í annað byggðarlag. Eða hann velji hinn kostinn að selja ekki fasteign sína og búa við þessi skilyrði sem ég held að verði líka að teljast slæmur kostur. En það gæti komið upp ef viðkomandi íbúaðareigandi vill ekki flytja úr byggðarlaginu að hann standi frammi fyrir því að búa þá bara áfram við óbreytt skilyrði að engar varnir eru settar upp til þess að draga úr hættu hvað hús hans varðar. Þarna sýnist mér vera nokkur afturför í lagasmíðinni og ég vildi vekja athygli á því, virðulegi forseti.

Að lokum vil ég vekja athygli á því að þó að þetta frv. verði afgreitt og þótt í því séu mörg ágæt ákvæði þá vantar töluvert upp á að það sé fullnægjandi að minnsta kosti að mínu mati. Þannig er dæmi um að snjóflóð hafi nú þegar á liðnum vetri fallið á hús. Þá þurfa bæjaryfirvöld eðlilega að fara að huga að því hvað sé til bragðs að taka. Á að reisa varnir eða á að hefja uppkaup á húsum? Áður en hægt er að taka ákvörðun um það þarf að ráðast í vandaðar og viðamiklar athuganir sem taka sinn tíma og eru ekki á færi nema sérfræðinga. Ég hygg að ég megi segja að það séu sérfræðingar Veðurstofu Íslands sem annist þær. Þegar niðurstöður úr þeim athugunum liggja fyrir munu sveitarstjórn ásamt ofanflóðasjóði taka ákvörðun um aðgerðir á grundvelli þeirra. Því er nauðsynlegt þegar sú staða er að þegar hefur fallið flóð --- það er ekki bara að menn geti átt von á því heldur að það hefur þegar fallið flóð --- þá er nauðsynlegt að hraða framgangi málsins sem mest. En í því dæmi sem ég er með í huga eru svörin þannig að þeir, sem búa í þessum húsum og vilja eðlilega fá svör við því hvað gera eigi til þess að draga úr líkum á því að leikurinn endurtaki sig, fá þau svör að þeir geti vænst þess að það liggi fyrir árið 2001 hvað til bragðs skuli taka. Fram að þeim tíma frá vetrarmánuðum snemma árs 1997 til ársins 2001 verða menn einfaldlega að bíða og búa í sínum húsum því þess er ekki að vænta að þau séu söluvara eftir þessa atburði. Þetta finnst mér virðulegur forseti, algjörlega óásættanlegt og Alþingi ásamt ríkisstjórninni verður að gera betur í þessum efnum. Það er ekki hægt að bjóða fólki upp á það sem þegar hefur lent í því að snjóflóð hefur fallið á hús þess að það þurfi að bíða í að minnsta kosti fjögur ár og ef til vill eitthvað lengur ef framkvæmdir taka einhvern tíma þaðan í frá.

Ég vildi því hvetja hæstv. umhvrh. til að grípa inn í þessa atburðarás þannig að svör fáist miklu fyrr en þarna stefnir í, bæði svör um aðgerðir og framkvæmdir á þeim og vildi því einnig beina þeirri fyrirspurn til umhvrh. hvort hann hafi á sínu borði áætlanir um að breyta þessu þannig að þessi tími verði ekki svona langur. Þetta getur endirtekið sig síðar. Það gæti á næsta vetri fallið flóð á einhverjum stað og þá fengju íbúar í þeim húsum þau svör að því miður væru ekki fjárráð eða mannskapur til að gera nauðsynlegar athuganir og síðan í framhaldi af því framkvæmdir fyrr en árið 2002 eða 2003. Ég held að það verði annaðhvort að bæta við fjármagni í þennan málaflokk þannig að ofanflóðasjóður og ríkisvaldið geti hraðað greiðslu á sínum hluta í þessum málum, ellegar að taka upp þá reglu að þar sem flóð hafa þegar fallið á hús verði forgangur á framkvæmdum. Ég held að menn hljóti að vera sammála um að það sé mjög erfitt að ætla fólki að búa í nokkur ár við það ástand sem um er að ræða í því tilviki sem ég er með í huga.

Fleira var það ekki, herra forseti, sem ég ætlaði að koma á framfæri í þessari umræðu. En ég vænti þess að hæstv. umhvrh. taki þetta til athugunar.